Siðblindir hafa oft stórar hugmyndir um eigið ágæti

Brynja Bragadóttir.
Brynja Bragadóttir.

„Siðblindir einstaklingar (psychopaths) hafa verið til á öllum tímum og finnast í öllum samfélögum. Við höfum flest hitt þessa einstaklinga, látið stjórnast af þeim og þurft að lifa með eða vinna úr skaða af þeirra völdum. Það sem fyrst og fremst einkennir siðblinda einstaklinga er skortur á samvisku. Líf þeirra snýst um að uppfylla eigin þarfir á kostnað annarra. Það sem á við um þá alla er að þeir taka meira en þeir gefa,“ segir Brynja Bragadóttir, doktor í vinnusálfræði, í sínum nýjasta pistli: 

Það ætti ekki að koma á óvart að margir siðblindir einstaklingar eru afbrotamenn. Hins vegar eru aðrir sem standa réttum megin við lögin, en sýna engu að síður siðlausa hegðun.

Sá fræðimaður sem hefur fjallað hvað mest um siðblindu er Robert D. Hare. Hann varði stórum hluta starfsævi sinnar (hjá The University of British Columbia) í að finna leið til að greina siðblindu. Hare talaði um að ef ekki væri hægt að greina siðblindu, þá værum við dæmd til að líða fyrir hana, bæði sem einstaklingar og sem samfélag.  

Það greiningartæki sem Hare þróaði heitir the Psychopathy Checklist. Tækið greinir tvo þætti siðblindu: Þátt sem snýr að tilfinningalífi og samskiptum við aðra (emotional, interpersonal - kjarnaþáttur siðblindu) og þátt sem snýr að andfélagslegri hegðun (social deviance).

Þessi grein fjallar um fyrrnefnda þáttinn, en undir hann heyra sex atriði: 

  1. Tungulipurð og yfirborðskenndir persónutöfrar. Siðblindir einstaklingar eru oft vel máli farnir. Það getur verið mjög gaman að spjalla við þá. Þeir koma jafnframt vel fyrir og geta verið mjög viðkunnanlegir og sjarmerandi.
  2. Sjálfhverfa og stórar hugmyndir um eigið ágæti. Þeir sem eru siðblindir hafa oftast mjög háar hugmyndir um sjálfa sig. Þeir eru vanalega einnig mjög sjálfhverfir og telja að önnur lögmál gildi um þá en aðra.
  3. Skortur á samvisku eða sektarkennd. Siðblindum virðist oft standa á sama um það hvaða áhrif þeir hafa á aðra, sama hversu alvarleg þau eru. Skortur á iðrun eða sektarkennd gerir það að verkum að siðblindir einstaklingar eiga auðvelt með að réttlæta eigin hegðun, að firra sig ábyrgð eða láta sem ekkert hafi gerst.
  4. Skortur á samkennd. Algengt er að siðblindir einstaklingar eigi erfitt með að sýna öðrum samkennd eða setja sig í spor annarra. Á þetta sérststaklega við á tilfinningasviðinu. Vanlíðan annarra virðist t.d. ekki hreyfa við þeim.
  5. Lygar og blekkingar. Siðblindir einstaklingar beita lygum og blekkingum og óttast ekki að upp um þá komist. Ef það gerist, þá virðist það ekki trufla þá. Þeir breyta bara sögum sínum eða hagræða sannleikanum, þannig að aðrir sannfærist.
  6. Fábrotið tilfinningalíf. Svo virðist sem tilfinningalíf siðblindra sé fábrotið. Virðast þeir oft vera kaldir og tilfinningalausir. Ef þeir sýna tilfinningar, þá eru þær mjög yfirborðskenndar og skammvinnar.

Hvað veldur siðblindu?

Í ljósi ofangreindra einkenna, þá gæti einhver spurt sig hvað veldur siðblindu? Því miður eru ekki til skýr svör við þessari spurningu. Það eru þó ýmsar kenningar um orsakir siðblindu. Ein kenning segir að siðblinda stafi fyrst og fremst af erfðafræðilegum þáttum, önnur segir að siðblinda komi frá umhverfisáhrifum. Þriðja kenningin er svo sú að siðblinda stafi af flóknu samspili erfða og umhverfis. Þessi þriðja kenning, sem ég aðhyllist, segir að erfðafræðilegir þættir hafi áhrif á heilastarfsemina og á grunnpersónuleikaþætti og að þessir tveir þættir (heilastarfsemin og persónuleikinn) hafi svo aftur áhrif á það hvernig einstaklingurinn túlkar, upplifir og verður fyrir áhrifum frá umhverfi sínu.

Er hægt að lækna siðblindu?

Siðblinda er skilgreind sem sjúkdómur í greiningarkerfi bandaríska geðlæknafélagsins (DSM-5). Grunnforsenda sálfræðilegrar meðferðar er að sjúklingur þurfi og vilji fá hjálp, að hann vilji bæta líðan sína. Árangursrík meðferð krefst þess líka að sjúklíngur sé virkur í meðferðarvinnunni.

Vandamálið með siðblindu er að sá siðblindi (sú siðblinda) sér ekki sjálfur að hann eigi við vandamál að stríða. Hann (hún) sér enga ástæðu til að breyta hegðun sinni til að uppfylla samfélagsleg norm. Afleiðingin er sú að þetta fólk leitar sér ekki hjálpar.  

Hvað getur þú gert?

Ef þú þekkir einhvern sem sýnir einkenni siðblindu, þá er líklegt að hegðun hans hafi áhrif á þig. Hins vegar eru ýmis ráð til að minnka þessi áhrif.

  1. Fáðu upplýsingar og ráðgjöf frá sérfræðingum. Gakktu úr skugga um að sá sem þú talar við þekki vel „siðblindufræðin“ og hafi reynslu af siðblindum einstaklingum.
  2. Ekki kenna sjálri/sjálfum þér um. Hver sem ástæðan er fyrir því að þú umgengst siðblinda manneskju, þá skaltu muna að ert ekki ábyrg/ur fyrir viðhorfum hans og hegðun.
  3. Hafðu hugfast að þú ert þolandinn í aðstæðunum, ekki sá siðblindi. Siðblindir einstaklingar fara oft í hlutverk fórnarlambsins. Þeim líður illa og það er þolandanum að kenna hvernig þeim líður.
  4. Hafðu líka hugfast að þú ert ekki ein/n. Vanalega líða margir fyrir hegðun þess siðblinda.
  5. Ekki lenda í valdabaráttu við þann siðblinda. Sá siðblindi hefur líklegast mikla þörf fyrir að stjórna öðrum, bæði andlega og líkamlega. Auðvitað skiptir máli að þú standir með sjálfum/sjálfri þér, en með því að verja þig gætir þú orðið fyrir skaða.
  6. Settu einstaklingnum skýr mörk. Settu viðkomandi reglur, bæði gagnvart sjálfum þér/sjálfri þér og honum.
  7. Ekki reikna með að viðkomandi breytist. Siðblinda er hluti af persónuleika einstaklings og því ólíklegt að hún hverfi. Sama hvað þú gerir, þá er ólíklegt að hans viðhorf til sjálfs sín eða annarra breytist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál