Fullorðnu „börnin“

„Ættleiðingar og leitin að upprunafjölskyldu hefur verið áberandi í samfélagslegri umræðu, ekki síst í kjölfar sjónvarpsþáttaraðar er sýnd er á Stöð2 um þessar mundir. Þáttaröðin hefur vakið mikla athygli og málefnið virðist vekja áhuga fólks á þeirri flóknu stöðu sem ættleiddir oft á tíðum búa við. Í raun er það skiljanlegt því málefnið er oft sveipað dulúð, óvissu, forvitni og ævintýraljóma,“ segir Guðbjörg Helgadóttir mannfræðingur og fjölskyldumeðferðarfræðingur hjá Sálfræðingunum, Lynghálsi 9, í nýjum pistli: 

Guðbjörg Helgadóttir mannfræðingur og fjölskyldumeðferðarfræðingur hjá Sálfræðingunum, Lynghálsi 9.
Guðbjörg Helgadóttir mannfræðingur og fjölskyldumeðferðarfræðingur hjá Sálfræðingunum, Lynghálsi 9.

Á Íslandi hafa ættleiðingar tíðkast áratugum saman. Bæði á börnum sem fædd eru hér á landi og eiga sér líffræðilegan uppruna í íslensku samfélagi svo og á börnum sem hafa verið ættleidd erlendis frá og eiga sinn líffræðilega uppruna jafnvel  í fjarlægum heimsálfum. Sumir þessara einstaklinga hafa tök á að leita uppruna síns og kynnast jafnvel líffræðilegum skyldmennum sínum, önnur hafa aldrei tök, sökum aðstæðna, að fá nokkrar upplýsingar um uppruna sinn, hvað þá að geta hitt líffræðilegar fjölskyldur sínar, sérstaklega mæður. Með tilliti til þessa er áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna vitneskjan um líffræðilegan uppruna skiptir ættleiddan einstakling máli, sér í lagi þegar hann er kominn til fullorðinsára?

Nokkuð fjölbreyttar rannsóknir hafa verið gerðar á ættleiddum börnum hér á landi, aðallega með tilliti til samfélagslegra hagsmuna. Má þar nefna rannsóknir er varða löggjöf, heilbrigðismál og almenna velferð, til að mynda innan menntakerfisins. Flestar rannsóknir sýna fram á að ættleiddum börnum farnast yfirleitt vel og líðan þeirra er oftast í engu frábrugðin líðan annarra barna sem alast upp innan líffræðilegra fjölskyldna sinna.  Hins vegar hefur minna farið fyrir rannsóknum er varða upplifanir og stöðu ættleiddra sem fullorðinna einstaklinga og í samfélagslegri umræðu um ættleiðingar er oft talað um ættleidda sem „börn“. Skortur á þessum rannsóknum endurspeglar hugsanlega viðhorf samfélagsins til hins ættleidda og eigi erfitt með að sjá hann sem fullorðinn einstakling. En eðli málsins samkvæmt verður barn að fullorðinni manneskju með tímanum.

Þrátt fyrir að rannsóknir sýni fram á að ættleiddum börnum farnist vel í leik- og grunnskóla og eigi hamingjusama æsku og uppeldisár er ekki óalgengt að ákveðnar tilvistarspurningar leita á ættleiddan einstakling þegar kemur fram á unglings- og fullorðinsár. Spurningar eins og hver er ég? Hvaðan kem ég? Hverjir eru líffræðilegu foreldrar mínir? Af hverju var ég gefinn? Af hverju var ég valinn? Hugsanlegt er að flóknar tilfinningar vakni á sérhverju lífsskeiði, oft í kjölfar eigin barnsfæðinga eða við missi nákominna ættingja.  Vera má að rekja megi þessar tilvistarspurningar til þeirrar stöðu er ættleiddir lifa við. Að eiga sér einhvers konar hliðarlíf sem kannski hefði orðið, en aldrei varð.

Við erum öll forvitin um okkur sjálf. Það er einhvern veginn í eðli okkar því sú forvitni segir okkur eitthvað um okkur sjálf. Mikilvægi þess að þekkja uppruna okkar, vita hvaðan við komum og hver er bakgrunnur okkar, sérstaklega sá líffræðilegi, er því sterkur þáttur í sjálfsmynd okkar allra. Einnig þeirra sem ættleiddir eru.

Vel flestum ættleiddum farnast  vel í lífinu. Samt sem áður sýna rannsóknir að veruleikaheimur fullorðinna ættleiddra er oft og tíðum flókinn og sjálfsmynd þeirra ruglingsleg. Rannsóknir sýna einnig að fullorðnir ættleiddir hafa tilhneigingu til að glíma við ýmis vandamál eins og einmannaleika, þunglyndi og depurð. Þeir búa gjarnan að lágu sjálfsmati, eiga í erfiðleikum með tengsl og óttast gjarnan höfnun. Sumum og jafnvel samfélaginu einnig, finnst þeir ekki vera alveg „ekta“. Óunnin sorgartilfinning getur verið sterkur þáttur í lífi þeirra. En sorgin snertir ekki eingöngu þann ættleidda heldur getur einnig snert kjörfjölskyldu hans og líffræðilega fjölskyldu.

Okkur öllum er úthlutað félagslegri stöðu við fæðingu og ætla má að hún verði hornsteinn að sjálfsmynd einstaklingsins og í stöðugri mótun allt okkar lífsskeið. Vitneskjan um rætur sem eru ókunnar, mótar að vissu leiti sjálfsmynd þess sem lifir við þá staðreynd að hafa hugsanlega getað átt öðruvísi lífsskeið, ef ákveðin örlög hefðu ekki gripið í taumana. Hugsanlega einhvers konar hliðarlíf sem aldrei varð. Þetta hliðarlíf getur fylgt þeim ættleidda eins og nokkurs konar skuggi og snertir ekki eingöngu hann sjálfan. Það hefur einnig áhrif á líf kjörforeldra sem og líffræðilega foreldra, jafnvel um aldur og ævi. 

Fræðimenn hafa sett fram áhugaverða tilgátu um hina svokölluðu skugga sem fylgja ættleiddum og fjölskyldum þeirra. Það er áhugavert að geta þeirra í ljósi þess hversu margþættur og flókinn veruleiki þessa einstaklinga getur verið. Því er haldið fram að samofin lífssaga þessa sérkennilega þríhyrnings sem inniber í fyrsta lagi, ættleiddan einstakling, í öðru lagi kjörforeldra og í þriðja lagi líffræðilega móður (foreldra) sé í raun afar sérstök. Ættleiddi einstaklingurinn gengur allt sitt líf með skugga þess barns sem það hefði orðið ef það hefði alist upp hjá líffræðilegri móður. Vitneskjan um líffræðilega móður sé ávalt í vitund hans, allt hans lífsskeið. Kjörforeldrarnir ganga með skugga barnsins sem þau þráðu að fæða en gátu ekki. Það barn er ætið skuggi ættleidda barnsins sem þau tóku að sér – og tók jafnframt stöðu þess. Líffræðilega móðirin lifir alltaf með skugga barnsins sem hún gaf frá sér og sá skuggi fylgir henni allt hennar líf. Þar af leiðandi hafa allir þessir einstaklingar orðið fyrir missi sem verður hluti af lífssögu þeirra.  Ættleiðing er því flókið fyrirbæri og hefur áhrif á líf margra einstaklinga en ekki eingöngu þann sem ættleiddur er.

Því má segja að við ættleiðingu líkur ekki ákveðnu ferli. Miklu fremur má ætla að ferli, sem hefur áhrif á marga einstaklinga hefjist og haldist út lífsskeið þeirra allra. Þættir sem snerta líf einstaklings á einn eða annan hátt á lífsleiðinni, hvort sem  það er í gleði eða sorg, hefur áhrif á þá sem standa honum næstir. Stundum reynist þessum einstaklingum erfitt að höndla lífið og tilveruna þrátt fyrir þá gleði sem ættleiðingunni hefur fylgt. Þar af leiðandi er oft á tíðum sérstök þörf á stuðningi við fullorðna ættleidda einstaklinga og fjölskyldur þeirra.

Fjölskyldumeðferð (family therapy) er samtalsmeðferð sem tekur mið af áhrifamætti fjölskyldunnar og eru fjölskyldumeðferðarfræðingar sérstaklega menntaðir til þeirra starfa. Í fjölskyldumeðferð er notast við aðferðir og samtalstækni sem hafa verið gagnreyndar og gefið góða raun í málefnum einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Fjölskyldumeðferðarfræðingar taka ávallt mið af fjölskyldunni sem heild en jafnframt er tekið mið af einstaklingnum.  Meðferðarvinnan getur því bæði verið á einstaklings- eða fjölskyldugrundvelli. Það er því mikilvægt að veita ættleiddum einstaklingum sem komnir eru á fullorðinsár sérstaka athygli og stuðning vegna þeirra eigin fjölskyldusögu. Þeir eru hluti af flóknu fjölskyldukerfi  og áhrifin sem skapast innan þess kerfis hafa áhrif á alla er að því koma á einn eða annan hátt.

Heimildir:

Guðbjörg Helgadóttir (2012). „Ég er einbirni en á samt rosalega stóran systkinahóp." Félagslegur veruleiki og sjálfsmynd fullorðinna ættleiddra Íslendinga. Óbirt MA-ritgerð. Háskóli Íslands: Félags- og mannvísindadeild.

Lifton, B. J. (1994). Journey of the adopted self. A quest for wholeness. New York: Basic Books.

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4485.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál