Óþolandi maki – hvað er til ráða?

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hann spurður út í erfiðleika í sambandi. 

Sæll og blessaður, 

hvað er til ráða þegar samband er ekki að gera sig eftir 14 ár og annar aðilinn sér bara alls ekki að það sé neitt athugavert við hans hegðun sama hversu oft er búið að ræða málin. Sá aðili er sjúklega stjórnsamur og þolir ekki börn hins aðilans i sambandinu er sífellt tuðandi um minnstu atriði. Hann þolir helst ekki að sambúðaraðilinn taki sjálfstæðar ákvarðanir. Þetta er eintóm togstreita alla daga fyrir utan óviðeigandi orð, vanvirðingu og almenn leiðindi við minnsta tilefni. Hvað er hægt að gera til að bæta ástandið? Fyrstu fimm árin í sambandinu voru mjög góð Þegar hugsað er til baka en svo urðu samskiptin smám saman svona.

Kveðja, HP

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna HP.

Eitt algengasta vandamálið sem upp kemur í pararáðgjöf er það sem kalla mætti „vandamál með verðmæti í samböndum“. Það lýsir sér þannig að annar aðili sambandsins telur sig vera meira virði en maki sinn og framkoman verður í takt við þá tilfinningu. Þetta birtist gjarnan í yfirlætislegri framkomu, skömmum, stjórnsemi, hunsun og ýmsu fleiru. Þessi framkoma er auðvitað ekki til þess fallin að byggja upp samband og veldur þolandanum miklum sársauka. Auk þess reynir þetta á allar grunnstoðir sambandsins, vináttu, traust, skuldbindingu og sameiginlega framtíðarsýn. Því miður hallar gjarnan á okkur karlmennina hvað þetta varðar þó svo að það geti sannarlega verið á hinn veginn líka.

Sambönd eru gjarnan krefjandi og eðlilegt að tekist sé á öðru hverju. Það ætti þó alltaf að vera með virðingu að leiðarljósi. „Sjaldan veldur einn þá er tveir deila“ er málsháttur sem gott er að hafa í huga því að þó svo að annar aðilinn sýni af sér þessa hegðun er mikilvægt að skoða samskiptin í heild til þess að sjá hvaða mynstur leiðir til þessarar framkomu. Grunnvandinn er yfirleitt skortur á sjálfsvirðingu (eigið virði) og í sumum tilvikum leiðir það til þess að einstaklingar sýna öðrum vanvirðingu til þess að reyna að líða betur með sjálfan sig. Það er auðvitað ekki boðlegt í sambandi og mikilvægt fyrir einstakling sem á við þetta vandamál að stríða að vinna með það, eitthvað sem vel er hægt að gera.

Það reynist mörgum erfitt að fara úr skaðlegum aðstæðum t.d. slæmum samböndum. Fólki finnst auðveldara að vera í aðstæðum sem það þekkir, þó þær séu slæmar, heldur en að fara úr aðstæðunum og standa á eigin fótum. Best væri að þið hittuð sambandsráðgjafa til þess að ræða málin á hlutlausum vettvangi þar sem báðir aðilar geta sagt sína hlið. Með aðstoð ráðgjafa er mögulega hægt að spegla samskipti ykkar og benda á það sem mætti skoða. Ef vilji er fyrir hendi til að gera eitthvað í málinu hjá báðum aðilum, þá er það hið besta mál. Ef það er hins vegar ekki vilji til staðar hjá maka þínum og þessi hegðun heldur áfram, þá stendur þú frammi fyrir því að ákveða hvort þú sættir þig við óbreytt ástand eða farir úr sambandinu. 

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál