Sambandið í rúst eftir læknamistök

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu frá konu sem hefur verið í sambandi í sex ár og er hrædd um að missa kærastann. 

Góðan daginn Valdimar, 

ég er virkilega hrædd um sambandið mitt til rúmlega 6 ára. Eftir að ég veiktist af læknamistökum þá er eins og hann sé búinn að breytast gagnvart mér. Upplifi hann þungan, pirraðan, mig sem byrði, hreytir í mig orðum og fæ enga nánd frá honum. Þessi hegðun hefur mjög mikil áhrif á minn bata sem ég held í vonina [um], alltaf stíf og hrædd [um í] hvernig skapi hann er.

Málið er að ég elska hann og vona að hann vilji fara með mér til ráðgjafa en er hrædd um að hann vilji það ekki og vilji losna.

Hvað myndir þú ráðleggja mér og okkur?

Kær kveðja, 

KK

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góðan daginn og takk fyrir að senda spurninguna.

Leitt að heyra að þú hafir veikst og vonandi nærð þú góðum bata á endanum. Það er ekki að ástæðulausu sem orðalagið „að standa saman í blíðu OG stríðu“ er notað við hjónavígslur. Lífið er sannarlega ekki bein lína og allir geta orðið fyrir því að veikjast eða slasast. Þegar óvæntir atburðir eins og alvarleg veikindi banka upp á er algengt að það valdi talsverðu álagi í sambandinu. Þá reynir á stoðir sambandsins og hvort við stöndum saman í erfiðleikunum en ekki bara þegar vel gengur. Fátt er fallegra en að sjá fólk standa þétt við bakið á maka sínum sem tekst á við langvinn veikindi eða aðrar alvarlegar takmarkanir. Að sama skapi er sorglegt að sjá þegar fólk snýr baki við maka sínum við slíkar aðstæður, einmitt þegar mest á reynir.

Ég hrósa þér fyrir að leita þér aðstoðar og hvet þig til að gera meira af því. Ef þú getur sett þig í samband við fólk sem hefur svipaða reynslu eða er í svipuðum aðstæðum, þá er mjög gott að hafa einhvern til að tala við sem getur sett sig í þín spor. Það er mikilvægt í erfiðum veikindum að finna fyrir skilningi og að geta deilt af reynslu sinni án þess að upplifa skilningsleysi eða jafnvel dómhörku. Þetta er eitthvað sem þú getur gert, óháð því hvar maki þinn stendur gagnvart þér. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að það er alveg sama hvað við reynum, aðrir geta ekki skilið hvað við göngum í gegnum nema að búa að svipaðri reynslu.

Allir eiga rétt á því að fyrir þeim sé borin virðing og það gildir einnig um þig. Ég skil þig þegar þú segist óttast að maki þinn yfirgefi þig, miðað við framkomuna sem þú lýsir. Ég vil engu að síður hvetja þig til að setja skýr mörk á vanvirðandi framkomu og vinna að því að lifa ekki í ótta við það hvað hann gerir. Sá ótti sem því fylgir að tipla á tám í kringum aðra er vondur og hefur slæm áhrif á möguleika þína til að ná bata. Þú þarft að setja þig í fyrsta sæti, hlúa að þér og batanum þínum. Hluti af því er að standa með sjálfri þér og setja öðrum mörk. Segðu hvað þér finnst og hvað þú vilt og gerðu þá kröfu að maki þinn standi með þér í blíðu, jafnt sem stríðu. Eina leiðin til þess að vita hvort vilji er til að hitta pararáðgjafa er að spyrja maka þinn. Ef viljinn er til staðar þá er ekki ólíklegt að það geti verið gagnlegt fyrir ykkur til þess að vinna betur saman í þessari þraut. Hvort sem viljinn er til staðar eða ekki, hvet ég þig eins og áður sagði til að sækja alla þá aðstoð sem þú getur til að styrkja þig.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál