Eru vaxtaverkir í hjónabandinu?

Það er vinna að halda góðu hjónabandi gangandi og áskoranir …
Það er vinna að halda góðu hjónabandi gangandi og áskoranir eru til að takast á við þær.

Rannsóknir sýna að hjónabönd eru hvað mest brothætt eftir jólin. Ástæðurnar geta verið margar en eins og flestir vita þarf töluverða vinnu og umhyggju til að gera gott hjónaband betra. Það er ekkert eðlilegra en að hjón upplifi áskoranir í hjónabandinu reglulega og má líta á slíkt sem eins konar vaxtaverki sem annaðhvort hefur þau áhrif að fólk vex áfram saman eða í sundur.

Hvort heldur sem raunin verður er mikilvægt að hjón hafi bæði reynt sitt allra besta til að hlúa að fjölskyldunni, til að vera fyrirmyndir fyrir m.a. börnin sín. En jafnframt er mjög mikilvægt að hafa í huga þá staðreynd að við gerum öll mistök. Það þarf kjark til að sjá sinn hlut í hjónabandinu og auðmýkt til að fyrirgefa eða biðja um fyrirgefningu.

Eftirfarandi eru ráð til þeirra hjóna sem eru með vaxtaverki eftir þessa hátíð.

Makinn fer í taugarnar á mér

Margir upplifa það að vera misfrjálsir fyrir maka sínum. Suma daga gengur allt prýðilega en aðra daga gerir makinn bara ekkert rétt. Hann byrjar að fara í taugarnar á manni og virðist algjörlega í þoku með hjónabandið. Til að komast í gegnum þessa vaxtaverki er gott að skoða, hvað er það sem makinn gerir sem er að fara í taugarnar á mér? Af hverju er ég ekki frjáls fyrir honum? Er hann að gleyma einhverju sem skiptir mig máli, eða er ég kannski að gleyma mér?

Það getur verið áskorun þegar annars skemmtilegur maki fer að …
Það getur verið áskorun þegar annars skemmtilegur maki fer að fara í taugarnar á manni.

Góð ráð í þessari stöðu er að byrja að rækta sjálfan sig betur. Síðan er gott að átta sig á að maður leysir ekki neitt með skætingi eða leiðindum. Ef það er eitthvað sem makinn ekki gerir sem þú vilt að hann geri, þá er gott að setjast niður með honum og ræða í rólegheitum. Ekki nota „þú gerir ekki“-setningar. Betra er að nota „mér þætti vænt um“-setningar. Ef makinn er mikið að gleyma hlutum, eins og að sækja börnin, loka bílhurðum og gleyma afmælisdögum, er gott að muna að það hefur líklegast ekkert með þig að gera. Spurningar eins og „er mikið álag á þér?“ eða „get ég aðstoðað við að búa til kerfi?“ koma að gagni. 

Mig langar í meira og betra kynlíf

Það krefst mikils hugrekkis að vinna í kynlífi í hjónabandi og gott er að muna að maður vinnur ekki í kynlífinu meðan á því stendur. Svo ekki reyna að leysa kynlífsvandamál með kynlífi. Gott kynlíf á sér aðdraganda. Stundum marga daga. Og til þess að vera í góðu samlífi þurfa hjón að sýna hvort öðru aðdáun og virðingu.

Það að langa í meira og betra kynlíf er algeng …
Það að langa í meira og betra kynlíf er algeng áskorun sem hægt er að takast á við með réttu leiðunum.

Það gefur illa að biðja um kynlíf 10 mín. áður en fólk fer að sofa og kvarta svo yfir því að það sé ekkert í gangi. Hér er mælt með því að fólki tali um hvað það vilji, að það hrósi hvort öðru og vinni í því að í sambandinu sé traust svo báðir séu frjálsir saman.

Munið að vinna úr flóknari málum með ráðgjafa. Á karlpeningnum mæðir svolítil vinna með aðdáunarþáttinn. Svo karlar byrjið að hrósa konunum ykkar ef þið viljið ekki upplifa hið fullkomna systkinasamaband með henni í framtíðinni. Þeir sem upplifa gott kynlíf hafa vanalega lagt vinnu í það. Og það er margt leiðinlegra en að vinna í þessum málaflokki.

Börnin og/eða tengdaforeldrar eru áskorun

Í íslensku samfélagi er þekkt að fólk hefur verið í nokkrum samböndum og oftar en ekki eru fjölskyldur samsettar. Orðatiltækið hans börn og mín börn og svo okkar börn, er þekkt hjá fjölskylduráðgjöfum. En auk þess eru fjölskyldur alls konar og þrátt fyrir að hitta draumamanninn er ekkert sjálfsagt að allt smelli í kjölfarið. Tengdaforeldrarnir geta meira að segja orðið áskorun ef ekki er unnið úr því.

Það sem er mikilvægt að hafa í huga í þessu máli er að ómeðvirkar fjölskyldur eru fáheyrðar. Og margar fjölskyldur eru með flóknar reglur sem nýliði á erfitt með að læra og átta sig á. Besta ráðið við þessu er að vera búinn að fara í góða sjálfsvinnu áður en maður fer í hjónaband. Að vita sitt hlutverk í lífinu svo maður sé ekki settur í eitthvað hlutverk sem manni ekki líkar.

Besta leiðin til að átta sig á því hvort fjölskylda er heilbrigð er að skoða stöðu fólks innan fjölskyldunnar. Eru allir jafningjar? Eða er fólk mis-vinsælt? Hvernig er hugsað um þá sem eru veikir? Er hlúð að þeim eða eru þeir skildir út undan.

Börn eiga skilið að alast upp í heilbrigðu umhverfi þar …
Börn eiga skilið að alast upp í heilbrigðu umhverfi þar sem þeim er sýnd virðing og umhyggja.

Gefið börnum ykkar svigrúm til að finna sig áður en þið byrjið að búa saman ef þið eigið börn utan hjónabands. Ef þú hefur stokkið í samband og allt er í köku í þessum málum reyndu þá að taka þér stöðu í því máli og skoða þína ábyrgð. Æfðu þig í að vera heiðarleg við alla, en ekki taka þátt í baktali eða einhverju sem er óheilbrigt. Fjölskyldur eru áskorun, og best er að taka Mathma Gandhi til fyrirmyndar í þessu. Byrjaðu á því að hafa heimilið og ykkur heilbrigt áður en þú ferð að gera kröfur um að stórfjölskyldan sé eins og þú vilt hafa hana.

Ég stend mig að því að dagdreyma um aðra

Að dagdreyma um aðra en maka sinn er erfið staða að vera í. Það býr til mikla vanlíðan og getur endað í þráhyggju. Það sem er gott að átta sig á hér er að upphafið að svona hugsunum beinist oft að því að maður er óánægður með maka sinn og langar að hann sé einhvern veginn öðruvísi. Svo hittir sá hinn sami einhvern á förnum vegi sem er alveg frábær og fer að ímynda sér hvað allt væri fullkomið í hjónabandi með þessum aðila.

Að dagdreyma um annan en makann sinn er flókin staða …
Að dagdreyma um annan en makann sinn er flókin staða að vera í.

Það sem er gott að átta sig á hér er að ferlið að dagdreyma um aðra er ekki góður staður að vera á. Hann bendir til þess að einhvers staðar týndir þú þér og þar ætti vinnan að hefjast. Því ef ekkert er að gert þá geta dagdraumar sem þessir endað í að maður fari að fylgjast með öðru fólki, leita að því á Facebook, reyna að hitta það á förnum vegi og svo framvegis.

Makinn þinn getur aldrei verið svo leiðinlegur eða ósexý að þú þurfir að vera óheiðarlegur gagnvart sjálfum þér. Hvað ertu óánægð með í sambandinu þínu? Hverju viltu breyta? Hvað ætlar þú að gera í málunum? Hversu heiðarlegur ætlarðu að vera gagnvart sjálfum þér? Það er ekkert óeðlilegt við það að hitta áhugavert fólk sem þig langar að kynnast og eiga sem vini. En það að loka augunum og ímynda sér að sá aðili sé makinn þinn að elskast við þig á kvöldin er ekki heiðarlegt gagnvart þér. Komdu þér á þann stað að dagdraumar þínir snúist um að dreyma um þig og fjölskyldu þína á fjarlægri strönd. 

Makinn minn horfir á klám og veitir mér enga athygli

Þegar makinn horfir á klám er gott að gera sér grein fyrir hvað sú hegðun raunverulega þýðir fyrir báða aðila í hjónabandi. Það sem er gott að muna er að fáir eru stoltir af því að hanga fyrir framan tölvuna eða símann að horfa á klám. Þeir eru fáir sem kynna sig þannig á fyrsta stefnumóti. Ástæðan fyrir því og að þeir sem horfa á klám eru óheiðarlegir með áhorf sitt er fyrst og síðast vegna þess að þeir skammast sín fyrir það.

Klámfíkn hefur eyðilagt mörg hjónabönd.
Klámfíkn hefur eyðilagt mörg hjónabönd.

Ef þú ert svo heppinn að vera að stofna til hjónabands er gott að setjast niður og ræða þetta mál. Ef þú hefur hins vegar nýverið komist að því að makinn þinn horfir á klám stundum oft á dag er gott að setjast niður með maka þínum og ræða málin. Ekki taka klámáhorfi hans persónulega. Það hefur ekkert að gera með þig.

Reyndu að finna út í kærleika hversu oft og mikið hann horfir á klám. Er hann opinn með það? Frjáls fyrir því eða fer hann í vörn og byrjar að fela? Flestir þeir sem þekkja til þessa málaflokks eru sammála um að þegar klámáhorf hefur áhrif á samband er það orðið að vandamáli. Klámáhorf getur orðið fíkn og eru talsvert fleiri háðir klámi en við gerum okkur grein fyrir. Það sem gerist í þessari fíkn eins og annarri, er að fíkillinn er í afneitun um fíkn sína. Hann hættir að hafa stjórn og endar á því að fíknin tekur yfir lífið hans. Hann er óheiðarlegur gagnvart sjálfum sér og öðrum, byrjar að ljúga og líður illa. Best er að bæði fari í ráðgjöf og ræði með aðstoð ráðgjafa vandamálið. Svo er mælt með því að sá sem er orðinn háður klámi leiti sér aðstoðar til að hætta að horfa á klámið og vinna í þeim málum sem hann er að kljást við og flýja frá.

Ef þú kynnir þér klámfíkn mun það aðstoða þig við að skilja fíknina betur. Ef þú elskar maka þinn þarftu að setja skýr mörk. Viltu vera með einhverjum sem er háður klámi? Ef ekki, er hann tilbúinn að fara að verða heiðarlegur og hætta því? Talaðu opinskátt og heiðarlega um málið og láttu maka þinn vita hvar þú stendur í þessu og mundu að þetta hefur ekkert með þig að gera. Ef þú hefur áhuga á að vaxa upp úr þessu vandamáli með maka þínum getið þið átt mjög gott líf saman, en fáið utanað komandi faglega aðstoð til þess. Þið þurfið ekki að fara í gegnum þetta ein.

Makinn minn drekkur of mikið

Það getur tekið töluverðan tíma að átta sig á því að maki manns sé að þróa með sér fíkn í áfengi. Sérstaklega þegar maður hittist ungur að aldri, og það þykir gaman að fara út og skemmta sér. Hann drekkur kannski ekki í einhvern tíma í kringum það að börnin fæðast og svo fer drykkjan af stað aftur og mikið stjórnleysi og vanlíðan skapast í hjónabandinu. Í þessum málaflokki eru margir mjög vel að sér. Svo þú þarft ekki og í raun getur ekki farið í gegnum þetta án stuðnings. Mundu að þú þarft ekki að bíða eftir því að makinn þinn fari að drekka á hverjum degi til að viðurkenna fyrir þér að um fjölskylduvandamál sé að ræða.

Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur.
Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur.

Alkóhólismi er banvænn sjúkdómur sem tekur 95% þeirra sem fæðast með hann. Það besta sem hægt er að gera í þessari stöðu er að leita ráðgjafar hjá félaga sem þú veist að þekkir til í Al anon. Fáðu hann til að fara með þér á fund og farðu á átta fundi í röð og sjáðu hvort þú heyrir söguna þína sagða á þessum fundum. 

Ef þú þekkir engan sem fer á slíka fundi er gott að tala við ráðgjafa sem eru menntaðir fíkniráðgjafar og eru sérfræðingar í meðvirkni og fjölskyldum alkóhólista. Þú verður leidd í gegnum þá vinnu sem þú getur farið í. En því miður þá er alkóhólismi þannig sjúkdómur að hver verður að finna sinn botn í þeim efnum. Það breytist mikið í fjölskyldunni um leið og annar aðilinn hættir að hylma yfir vandamálin. Ef þú treystir þér ekki til að gera neitt í málunum enn sem komið er vertu þá bara kærleiksríkur við þig sjálfan. Sjúkdómurinn batnar því miður ekki af sjálfu sér og það mum koma sá tími að þú verður tilbúinn. Hjón sem hafa farið í gegnum það heiðarleikaprógram sem í boði er í Al anon, AA eða hjá fíkniráðgjöfum eru oft og tíðum í frábærum hjónaböndum. Það er gott að hafa það í huga við upphaf þessarar vinnu. Gangi þér vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál