Hafa geðlyfin áhrifin á kynlífið?

mbl.is/GettyImages

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu varðandi risvandamál. 

Sæll Valdimar.

Ég er að velta fyrir mér hvert ég á að snúa mér varðandi samband mín og kærastans. Við erum bara búin að vera saman í tæpt hálft ár en elskum hvort annað ofurheitt. Nýlega fór hins vegar að bera á ristruflunum hjá honum og við getum ekki rætt málin. Ég þori ekki mikið að spyrja hann upp á að særa hann ekki og framlengja þar með vandann. Við erum bæði á geðlyfjum og ég veit að svoleiðis getur valdið vandamálum varðandi kynlífið. En þar sem það var allt í lagi fyrstu mánuðina skil ég þetta ekki alveg. Það vefst fyrir mér hvernig ég á að nálgast vandann, tala við hann eða fagaðila.

Með fyrirfram þökk. XXX

Góðan daginn xxx og takk fyrir þessa spurningu.

Það eru ýmsar mögulegar skýringar á því sem kallast ristruflun. Líkamlegir sjúkdómar og ekki síður geðræn vandamál eru líklegustu orsakavaldar. Einnig hefur komið inn í umræðuna að hjá sumum karlmönnum hefur klámnotkun leitt til þess að þeim gengur illa að upplifa kynferðislega örvun í gegnum hefðbundið kynlíf.

Hvað sem veldur ástandinu þá eru ýmsar mögulegar leiðir til þess að takast á við það. Það sem stendur gjarnan í veginum fyrir því að tekist sé á við vandann er skömm og ótti við að ræða málin. Það er mikilvægt að viðurkenna að vandamálið sé til staðar og komast yfir óttann við að jafnvel þurfi að leita utanaðkomandi aðstoðar til þess að vinna á því. Margir karlmenn lýsa því að risvandamál reyni verulega á sjálfsvirðinguna, þeim finnst þeir vera minna virði ef illa gengur í kynlífinu og um leið reynir á sjálfstraustið. Þetta leiðir af sér ákveðna pressu sem eykur gjarnan enn meira á andlegan hluta vandans.

Það væri örugglega léttir fyrir kærastann þinn að heyra að þú viljir ræða málin á opinskáan hátt og að þú styðjir hann í því að leita sér aðstoðar. Ef hann fær svigrúm til þess að tjá sig og finnur að ekki séu gerðar óraunhæfar væntingar til hans á kynferðissviðinu gæti það strax haft góð áhrif á málin. Það er líklegt að hann gæti haft gagn af því að ræða málin við fagaðila og reyna að finna út hvort vandinn sé af líkamlegum eða andlegum toga. Hver það ætti að vera fer svolítið eftir því hvar líklegast er að vandinn liggi. Það gæti verið heimilislæknir, geðlæknir, sálfræðingur eða kynlífsráðgjafi svo eitthvað sé nefnt.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál