Hvað þarf mörg sjálfsvíg til að...

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Vetrasólstöðuganga á vegum Pieta á Íslandi var gengin til að minnast þeirra sem hafa tekið eigið líf, 21. desember. Fagna tilkomu Pieta-samtakanna,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Sjálfsvíg. Mér skilst að tölfræðin sýni að sjálfsvígstíðnin sé hæst hjá ungum karlmönnum. Af hverju? Tímarnir hafa breyst gríðarlega síðan ég var segjum ungur maður á milli tvítugs og þrítugs. Eina sem ég get gert til að svara spurningunni er að miðla út frá minni reynslu. Það má spyrja t.a.m. hvort ég hafi verið líklegur til að fremja sjálfsvíg sem ungur maður? 

Já, ég hugsaði í nokkur ár daglega að ég vildi vera staddur annars staðar en ég var. Að alast upp á heimili sem var smitað af skítugu andrúmslofti varð til þess að ég, sem fæddist með heilbrigða sál og líkama, smitaðist af kvíða, ótta, meðvirkni, höfnunarótta og þunglyndi. Ég gat ekkert að því gert. Ég gerði mitt besta til að komast í gegnum lífið með alls kyns aðferðum. Það er ekki hollt nesti að vera svona og breytast í ungling. Ég var með mölbrotna sjálfsmynd og logandi hræddur. Þannig leið mér. Hef oft minnst á það að íþróttaiðkun mín sem barn og unglingur og fram á fullorðinsár, var bjargvætturinn minn. Gat flúið í þann heim og fékk útrás. 

Eina sem ég gat gert var að safna sársaukanum og setja í poka. Áttaði mig ekki á því að ég gekk með þennan sársaukapoka til sumarsins 2013 þegar hann brýst út og ég veikist af krónískri áfallastreituröskun (Complex Post Traumatic Stress Disorder – CPTSD). Það klessukeyrði mitt líf á 2 árum sem ég ætla ekki að fjalla um nú.

Ég deyfði sársauka með t.d. áfengi og seinna öðrum vímuefnum. Man þegar það gerðist í fyrsta sinn. Mér finnst hræðilegt að hugsa til þess það hafi þurft áhrif af alkóhóli til að mér liði vel. Kvíðalaus. Óttalaus. Annars kveið ég fyrir öllu á hverjum degi. Ég var sem barn og unglingur viðkvæmur og auðsæranlegur og alltaf logandi hræddur um að verða út undan. Hafnað.

Ég græddi á því að vera góður í boltaíþróttum og fékk mikla athygli út á það. Ekki skrýtið að fótboltinn var ekki aðeins minn eini draumur í lífinu heldur leiðin til að geta lifað lífinu! Ég var framtíðarstjarna, ef þannig má að orði komast, sérstaklega í fótboltanum. Var reyndar valinn í unglingalandslið í körfubolta en það rakst á fótboltann þar sem ég var líka í unglingalandsliðinu. Það var sumarið á sælunni. Hápunktur knattspyrnuferilsins. Búinn að jafna mig á því í dag en var í mörg ár að sætta mig við að klúðra hugsanlega glæstum ferli og láta drauminn minn rætast. Það er ákveðið afrek að vera kominn 16-17 ára í lið í efstu deild og fá tækifæri að spila á móti liði eins og Manchester United. Hvað þá með George Best. Þetta upplifði ég allt sama sumarið. Síðan gerðist eitthvað. Það var eins og alkóhólisminn hefði stolið mér. Nei vildi það ekki en ég var hættur að geta stjórnað áfengisneyslunni minni. Áhuginn fyrir fótboltanum fór ekki beint minnkandi heldur sjálfstraustið með aukinni vanlíðan. Varð þunglyndari, kvíðnari og enn meira hræddur sem braut sjálfstraust og -ímynd enn meira niður. Ég hreinlega náði ekki að sýna lengur hvað ég gat í fótbolta. Skrölti í 2-3 ár í viðbót. Meiddist reyndar og notaði það sem afsökun lengi. Í stuttu máli í staðinn fyrir að fylgja t.d. mínum æskuvini alla leið upp í A-landsliðið var ég í tómu rugli í nokkur ár. Á flótta undan sjálfum mér og tilverunni. 

Um tvítugt var það staðan í lífinu mínu. Ég sá enga framtíð. Enga sem ég hafði áhuga á. Var ég á þeim tímapunkti líklegur til að fremja sjálfsvíg? Já. Þarf ég að útskýra ástæðuna? Einföld. Ég kunni ekki að tjá mig um mínar tilfinningar og þar fyrir utan var það ekki í boði. Sem karlmaður þá átti ég ekki heldur að láta finna á mér höggstað. Vera sterkur og harður. Það var líka kúltúrinn í boltanum og ég var það sannarlega. Ég hef ritað grein um andleg veikindi íþróttamanna eftir að landsþekktir íþróttamenn stigu fram og sögðu söguna sína. Þá kom í ljós að það er afskaplega lítið hlúð að líðan barna, unglinga og fullorðinna sem eru að æfa keppnisíþróttir. Vonandi batnað. Það hafa ungir og efnilegir íþróttamenn tekið eigið líf og fólk alltaf jafnundrandi!

Ég var stálheppinn að enda ekki í hópi þeirra sem frömdu sjálfsvíg sem ungir menn. Í dag get ég auðveldlega sett mig í spor ungmenna sem taka eigið líf. Mér bauðst aldrei hjálp. Það var ekkert um þetta talað á heimilinu og ég þagði eins og steinn. Í fótboltanum gat ég aldrei talað um svona lagað. Þar var ekki heldur boðið upp á hjálp. Í mínu uppeldi átti ég einfaldlega að bíta á jaxlinn og harka af mér. Ekkert helvítis væl! Það hafa allir sína djöfla að draga. Það voru skilaboðin. Ég dró minn „djöful“ með mér í áratugi. Þetta hefur líklegast ekkert breyst!! Sorglegt.

Með pistlinum sem ég ritaði og fékk birtan á fotbolti.net reyndi ég að vekja athygli hjá ÍSÍ og fjölmiðlum. Undirtektir voru fátæklegar. Ég er þannig gerður að ég óska engum að ganga í gegnum það sama og ég. Þess vegna er ég tilbúinn að deila minni reynslu og þekkingu ef það hjálpar t.d. ungu íþróttafólki (og öllum) að opna sig en þá verður að vera hvati innan íþróttafélaganna og -hreyfingarinnar. Það eyðir líka fordómum sem er önnur stór ástæða að ungt fólk þorir ekki að tala opinberlega um sína vanlíðan. Allra síst í hópi félaganna í t.d. fótboltaliði. 

Mér auðnaðist að eignast líf eftir að ég fékk hjálp við mínum alkóhólisma og lifði ágætu lífi til ársins 2013. Þá hafði mikið gengið á reyndar. Eina sem mig langar að nefna varðandi veikindatímabilið 2013 – 2015 er að það er kraftaverk að ég skuli vera á lífi. Jafnmikið kraftaverk og að ég skyldi sleppa lifandi þegar ég var á mínum lægsta botni sem ungur maður. Þess vegna hef ég hugleitt þetta mikið. Það sorglega við mína reynslu og líklega margra annarra er að stærsta orsökin er að við virðumst ekki þora, af ótta við t.d. fordóma, að tjá okkur um tilfinningar og líðan. Bara það hefði bjargað mörgum mannslífum. Ég fullyrði það.

Hvers vegna heldur þú að ég sé búinn að vera að skrifa mikið um mína reynslu opinberlega? Jú, leggja mitt af mörkum að opna umræðuna og í leiðinni gæti einhver nýtt sér mína reynslu. Ég ætla í lokin að nefna eitt dæmi um slíkt tilfelli. Ég hef fengið ótrúlega mörg viðbrögð við pistlunum mínum og margir sent mér skeyti. Eitt er afar minnisstætt því það snertir umfjöllun pistilsins.

Ég fékk sent skeyti í gegnum Facebook sem var orðað einhvern veginn svona: Takk fyrir að skrifa pistlana þína. Þú getur ekki ímyndað þér hvað þú ert að hjálpa mörgum. Í gær ákvað ég að taka eigið líf, rakst á pistil frá þér og ég hætti við!! Ég er EKKI að hampa mér sem bjargvætti í þessu tilfelli. Hefði getað verið pistill frá hverjum sem er. En að fá að vita þetta varð mér risastór gjöf. Ég veit að viðkomandi var kominn í öruggt skjól (tékkaði á því) og allt leit vel út. Hvaða lærdóm má taka af þessu dæmi? Svo einfalt. Það á að vera jafneðlilegt að tala um fótbrot og þunglyndi. En það er það ekki í þessu þjóðfélagi í dag!

Ég veit ekki hvað þarf mikið til að það hætti að vera tabú að tala um andleg veikindi. Sjálfsvígin eru orðin allt of mörg. Hvað þarf mörg sjálfsvíg til að fólk láti af fordómum? Eða að sett sé nægjanlegt fé til að reka gott geðheilbrigðiskerfi? Ég skora ekki aðeins á Svandísi Svavarsdóttur, þá ágætu konu, að taka sig taki heldur alla ríkisstjórnina.

Hvort sem ráðherrar gera eða ekki þá mun ég, á meðan ég treysti mér til, leggja mitt af mörkum. Mér finnst það, kominn á þennan virðulega aldur, það nánast skylda mín. Þótt ég hafi vaðið eld og brennistein vil ég engum það sama.

Votta aðstandendum þeirra, sem hafa tekið eigið líf, minnar dýpstu samúðar. Fallegt að minnast þeirra með vetrarsólstöðugöngunni. 

Gleðileg jól og verum góð við hvert annað. 

mbl.is