Neyðin kennir karlmanni að tjá tilfinningar

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Gleðilegt nýtt ár kæru þið sem hafið lesið pistlana mína á liðnu ári. Vona að nýtt ár verði ykkur öllum gjöfult og farsælt.

Tilfinningar. Viðurkenna. Meðtaka. Horfast í augu við. Finna til. Val? Byrgja inni eða opna sig. Í síðasta pistli ræddi ég um sláandi upplýsingar um tíðni sjálfsvígra hjá ungum karlmönnum. Það þarf engan sérfræðing að átta sig á hver meginorsökin er. Ætla ekki einu sinni að nefna hana,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Ég hef í gegnum mitt bataferli, nauðugur viljugur, horfst í augu við mitt lífshlaup og mig sem manneskju. Að vera kominn í flokk miðaldra karlmanna þá viðurkenni ég að það er ekki auðvelt að uppgötva að ég hef ekki hugmynd um hver ég er! Nei ekki verið að leika allt mitt líf. Hef alltaf lagt mikið á mig og gert mitt besta. Náð töluverðum árangri í lífi og starfi. 

Sagt að hver hefur sinn djöful að draga. Ég veit ekki en hef haft minn djöfull. Með stóru D-i og feitletrað! Það var ekki heldur auðvelt að uppgötva núna að ég hef dregið helvítið alla daga lífs mín. Afsakið orðbragðið. Þó ég sé búinn að vinna mikið í mér og hreinsa til í huga sál eftir subbugang Djöfulsins, þá eimir líklega enn vottur af reiði út í hann. Fyrirgefa? Já og nei. Ég er búinn að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt og unnið ötullega að því að breyta því sem ég get breytt. Ég viðurkenni að á gráu dögunum hef ég mig allan við að vera ekki bálreiður við þennan Djöful. Ætla ekki að eyða pistlinum í að útskýra hvað gerðist en var erfitt að sætta sig við að þola ofbeldi sem barn. Lenda í því mörgu árum síðar að sársaukinn sem ég varð að byrgja inni fer að brjótast út og á 2 árum fór ég og allt mitt líf í handaskol. Hvað gerði ég til að verðskulda þetta? Ekkert. En veit það þýðir ekki að dvelja í þessu hugarfari enda geri ég það ekki. Ég er sá eini sem get borið ábyrgð á að byggja mig og mitt líf upp að nýju. Hversu sanngjarnt eða ósanngjarnt sem það er. Ég er á þeirri vegferð.

Það sem hefur verið erfiðast í bataferlinu er að upplifa skilning hjá fólki og, ótrúlegt en satt, hjá fagfólki. Mín einkenni eru afleiðingar af því sem ég lenti í. Ég fæddist ekki svona. Mér er búið að líða eins og ég hafi þurft að sjúkdómsgreina mig sjálfur með að afla mér þekkingar á hvað gerðist. Áfallastreita. Áfallastreituröskun. Fólk hendir þessum hugtökum út og of oft hef ég uppgötvað að það hefur ekki hugmynd um hvað það er að tala. Ég fékk þessa greiningu í upphafi. Áfallastreituröskun. Reyndar með forskeytinu krónísk en var þess að auki burnt out, meðvirkur, ofvirkur og með sjúklegan höfnunarótta. Einkenni mín voru ofsakvíði- og ótti sem kemur í köstum við endurupplifanir (emotional flashbacks) á því sem kom fyrir mig. Sárt? Nei. Miklu verra en það. 

Hef allt lífið gengið með þetta sem ég nefndi í gegnum lífið kraumandi undir niðri. Það hefur haft ýmis konar áhrif og oft verið erfitt en mér fannst það aldrei óeðlilegt því ég þekkti ekki annað. Ég hef vaknað með kvíðahnút í maganum hvern einasta dag. Ég vissi það ekki. Hafði aldrei vaknað öðruvísi. Ég hef starfað í kringum fólk og komið víða við. Alls staðar hef ég rekist á einstaklinga sem ég finn að ná að vekja hjá mér einhvern ótta. Ég þraukaði en skildi aldrei ástæðuna og taldi þetta bara eðlilegur hlutur að vera til. Hér er ég að benda á atriði sem eru greinileg merki um meðvirkni, höfnunarótta, kvíða, ótta og ég tala nú ekki um ofvirkni. Ég stoppaði ekki í 20 ár. En...ég vissi ekki betur og taldi að svona ætti lífið að vera. 

Ég er búinn að leiða mig að kjarnaatriði pistilsins. Kveikjan varð atvik í gær (þriðjudaginn 2. janúar 2018). Um kvöldmatarleytið fékk ég heiftarlegt ofsakvíða- og panikkast sem stóð yfir í um klukkustund. Ég var með meðvitund allan tímann og kvaldist en réð ekki við neitt. Hef lært aðferðir við að fyrirbyggja kvíða en í svona kasti er það ekki hægt. Fyrr en undir lokin. Hef lýst því áður að í svona kasti þá bregst 90% af líkamanum við líka líkt og allir vöðvar séu uppspenntir. Ég var í gær bæði andlega eftir mig og líkamlega. Þessi köst eru afar sjaldgæf í dag en haustið 2015 komst ég ekki út úr húsi í þessu ástandi. 

Hvað gerði ég útgrátinn? Jú skrifaði færslu og birti á facebook. Rétt fyrir kastið hafði ég tekið selfie og ætlaði að opinbera skeggvöxtinn. Þegar kastið var liðið datt mér í hug að taka aðra mynd en veit ekki hvers vegna. Birti þessar tvær myndir með færslunni. Djarft? Já ábyggilega. En hér er kominn kjarni málsins. 

Kjarni málsins er að á mínu bataferli hef ég lært að tala um mínar tilfinningar. Miðaldra karlmanni hefur tekist að endurforrita huga og sál og tala um sína líðan. Þvert ofan í uppeldisleg og líklega samfélagsleg viðhorf. Karlmenn gráta ekki. Kellingar gráta. Þess konar kjaftæði. Ég hef alltaf verið góð manneskja en gengið misvel að sýna það i gegnum tíðina. Verið næmur og tilfinningaríkur en átt erfitt með að sýna það af því það tíðkaðist ekki.

Neyðin kenndi mér að tjá mínar tilfinningar. Og það var neyð. Eftir 2 ára stríð við stigversnandi einkenni krónískrar áfallastreitutöskunnar þá lá ég eftir með mig og lífið í rjúkandi rúst. Ég var svo útbrunninn að ég gat ekki varið mig og minnsta mótlæti kveikti á ofsakvíðakasti. Taugakerfið hrunið. Ætla ekki að nefna veraldleg tengd mál líka. Eina sem ég átti eftir (fyrir utan börnin mín) var auðmýkt. Þegar mér var bjargað þá varð ég logandi hræddur og fann ég gat ekkert gert einn. Auðmýkt. Hrein og tær. Viltu lifa? Já!!! Viltu þiggja hjálp? Já!!! Ég kunni ekki áður að þiggja hjálp. Eina sem ég gat gert, sem ég kalla neyð, var að treysta hjálpinni og gera nákvæmlega það sem fyrir mér var lagt. Af ótta við að upplifa viðbjóðsleg ofsakvíðaköst með Djöflinum, hlýddi ég öllu. Viðurkenning og vanmáttur. Þetta eru stærstu skrefin í að geta hafið bata. 

Það má því segja að ég hafi viðstöðulaust ritað þessa færslu á facebook af því ég var búinn að lofa mér að vera opinn og hreinskilinn t.d. á facebook. Fólk orðið vant því. Ekkert mál er vel gengur en þetta var erfitt. Jú jú...ég fékk svo ægilega bakþanka en hélt aftur af mér og leyfði færslunni að lifa. Í staðinn fékk ég urmul af gjöfum frá fallegu fólki. Ég var ekki að biðja um meðaumkun en guð minn góður hvað það var gott að upplifa samkenndina og styrkinn. Ég er manneskja og ég gef mikið af mér. En búinn að læra að þiggja.

Þegar ég rita þetta líður mér miklu betur. Hvað orsakaði þetta kast? Ekkert merkilegt annað en ég hef átt nokkrar erfiðar nætur og var greinilega dauðþreyttur og orkulaus. Það er áhættuatriði fyrir mig. 

Ég er ekki að segja að ég sé einhver snillingur í að tjá tilfinningar mínar verandi með typpi. Einfalt. Það sem hefur hjálpað mér mest og mun alltaf gera er að ég opni mig og gangist við tilfinningum mínum. Sumt einungis við fáa einstaklinga. Annað opinberlega. Ég veit hvenær það hentar betur að gera það ekki opinberlega. 

Ég vildi óska þess að ungir karlmenn í dag, og auðvitað líka konur, gætu tjáð sig um líðan án ótta við viðbrögð. Fordóma. Dómhörku. Þetta er líka þöggunarbaggi líkt og kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum #hofumhatt #metoo. Höfum hátt um þetta líka. Ég er til.

Svo heldur lífið bara áfram. Nýr dagur. Ég geri það sem ég get stýrt en skipti mér ekki af því sem ég get ekki stýrt. Eins og skoðunum fólks. 

Já að lokum. Ég mun aldrei hætta að tjá mig einslega eða opinberlega. Ef einhver var að vonast til þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál