Kynlífshljóð óma um allt hús

Íslensk stjúpmóðir er að gefast upp á stjúpdóttur sinni.
Íslensk stjúpmóðir er að gefast upp á stjúpdóttur sinni. mbl.is/Getty

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu frá stjúpmóður sem á í vandræðum með stjúpdóttur sína. 

Góðan dag, mig langar að leita ráða hjá þér varðandi stálpaða stjúpdóttur mína. Við erum 6 í heimili, við hjónin ásamt 3 börnum af fyrra hjónabandi mínu og elstu dóttir hans sem er um tvítugt.

Vandamálið er tillitsleysi þessarar elstu dóttur hans, til okkar hinna á heimilinu, þá sérstaklega seint á kvöldin og nóttinni. Hún kemur heim með „kærasta“ og stundar t.d. kynlíf með fullum hljóðum – og oftar en ekki þá eru allir á heimilinu vaknaðir við lætin.  Vanalega þá æsum við okkur og bönkum á hurðina og biðjum um hljóð og frið – og það dugir stundum. En svo endurtekur þetta sig aftur eftir nokkra daga. Eins er það ef hún fær vinkonur til sín í heimsókn – þá er kjaftagangur og hávaðasamur umgangur um húsið fram á miðja nótt (á virkum dögum).

Við höfum reynt að ræða þetta við hana á góðum nótum, en hún fer í baklás og svarar bara með skætingi og segist bara hafa líka sinn „rétt“ á heimilinu. Við höfum tekið af henni meira og minna öll bílaréttindi á heimilinu en það dugir ekki til.  Til hennar eru gerðar algerar lágmarkskröfur um þrif á heimilinu, aðeins að ganga frá eftir sig sjálfa og þvo þvottinn sinn. En það er of mikið – því að hún gengur örsjaldan frá eftir sig, og þá vill hún fá sérstakar þakkir fyrir ef hún gengur frá eftir sig.

Við erum eiginlega að þrotum komin – þurfum að fá svefnfrið og heimilisfrið en vitum ekki hvernig við eigum að snúa okkur. 

Hvernig eigum við að fá hana til að virða okkur og heimilisfriðinn?

Kær kveðja, stjúpan  

 

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Svona mál eru gjarnan snúin og erfið viðfangs. Þau geta átt sér stað í öllum fjölskyldugerðum en eru gjarnan enn flóknari þegar um stjúpfjölskyldur er að ræða. Hegðun af þessu tagi á sér oftast langan aðdraganda og margt sem þarf að skoða til þess að komast að rót vandans. Flest vandamál í fjölskyldum hafa með samskiptin okkar að gera. Við erum annaðhvort ekki að tala saman eða tölum saman á neikvæðan máta. Þessu getur verið erfitt að breyta eftir að samskiptamynstrið hefur viðgengist í langan tíma. 

Tíminn líður og oftast endar með því að börnin okkar flytja að heiman. Þangað til ætti það almennt að vera þannig að þau heilbrigðu mörk sem foreldrar setja á heimilum sínum, ættu að gilda. Ef allar aðferðir og tilraunir reka í strand, þá getur auðvitað komið að því að fullorðið fólk sem býr í foreldrahúsum þarf að ákveða hvort það virðir þau mörk sem þar eru sett, eða flytji í sitt eigið húsnæði þar sem það getur sjálft ákveðið reglurnar. Það reynir á þegar börnin eru ekki lengur börn og færast nær því að verða fullorðnir einstaklingar. Það breytir þó ekki því að á endanum verðið þið að ákveða hvað þið sættið ykkur við á heimilinu. Best er að það sé gert í sameiningu þannig að allir hafi eitthvað til málanna að leggja og upplifi sig skipta máli innan fjölskyldunnar. Það gæti verið lykillinn að ykkar lausn.

Það er mikilvægt að koma gagnlegu samtali af stað sem gengur fyrir alla aðila, bæði ykkur og stúlkuna. Þar sem við erum í raun að tala um fullorðna manneskju þá er mikilvægt að nálgast málin á jafnréttisgrundvelli í staðinn fyrir að þetta sé „hún“ og svo „þið“ upplifun. Eins og þið hafið þegar upplifað þá er það ekki að skila árangri að skammast eða taka af henni einhver ákveðin forréttindi, svo sem bíllykla og þess háttar. Með því að ákveða sameiginlega fundi þar sem tilgangurinn er að ræða saman hvernig fjölskylda þið viljið vera, þá eru stigin ákveðin skref. Á slíkum fundi getið þið rætt á opinskáan hátt hvað hverjum og einum finnst ganga vel og hvað mætti betur fara. Ef þetta heppnast vel væri hægt að ræða ákveðnar reglur innan fjölskyldunnar og hvaða viðurlög ættu að vera við því ef reglum er ekki fylgt. Það er ekki síður mikilvægt að ræða hvað hægt er að gera uppbyggilegt þegar farið er eftir reglunum. Þó svo að þetta gæti virkað svolítið asnalegt fyrir stúlkuna til að byrja með, þá er þetta leið sem margir hafa upplifað að gefi góðan árangur og þarf einfaldlega að koma upp í vana. Með þessu móti getur hún upplifað að hún hafi eitthvað um líf sitt að segja sem er mikilvægt á sama tíma og verið er að ræða heilbrigð mörk. Markmið slíkra funda ætti að vera að sýna skilning, hlusta, dæma ekki og reyna að komast að sameiginlegum markmiðum.

Varðandi tiltekt á heimilinu og að hún óski eftir hrósi fyrir það, er það ekki bara hið besta mál? Það bendir til þess að hún er að leita eftir viðurkenningu ykkar og í raun er ekkert nema jákvætt við það að styrkja það sem jákvætt er. Um að gera að hrósa þegar það á við og leitast við að ýta undir jákvæða hegðun á þann hátt og sjá hvort það hafi jákvæðar breytingar í för með sér. Umfram allt er mikilvægt að sjá það sem er jákvætt í stað þess að einblína á það sem illa gengur. Ef það jákvæða fær mesta athygli og er styrkt, þá stóraukast líkur á að hið neikvæða minnki.

Gangi ykkur vel.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál