Ráðgjöf eykur persónulegan vöxt

mbl.is/Getty

Kári Eyþórsson er vinsæll fjölskyldu- og einstaklingsráðgjafi sem hefur starfað við fagið í yfir 25 ár. Hann rekur Ráðgjafaskólann og hefur lagt sitt af mörkum í gegnum árin til að efla þekkingu og skilning fólks á því hvernig hægt er að nota ráðgjöf til að þroskast og eflast í lífinu.

Kári segir að handleiðsla skipti miklu máli og það sé mikið öryggisatriði í starfi að það sé þannig. 

„Handleiðsla er mikilvæg inni í t.d. stofnunum og í fyrirtækjum þar sem mikið mæðir á starfsfólki. Handleiðari er þá þessi annar aðili sem sér hlutina oft og tíðum í stærra samhengi heldur en maður sjálfur,“ segir Kári og útskýrir.

„Við erum oft svo tilfinningalega flækt inn í þeim málum sem við erum að vinna í. Á meðan handleiðari er ekki tilfinningalega tengdur og sér hlutina öðruvísi. Svo ekki sé minnst á hversu mikið öryggisatriði það er að hafa stuðning frá aðila sem hefur meiri eða öðruvísi reynslu heldur en við sjálf,“ segir Kári.

Þegar kemur að því að sækja sér ráðleggingar af því að mann langar að vaxa og stækka sem manneskja, þá segir Kári að forsenda þess að geta vaxið sem manneskjur sé að við þurfum að hreinsa út hjá okkur og vera forvitin um lífið og tilveruna.

„Það að leita til ráðgjafa þýðir ekki endilega að við séum með stórar áskoranir. Ég líki þessu við það að við þurfum ekki endilega að vera villt þó við spyrjum til vegar. Góð ráðgjöf á að aðstoða við persónulegan vöxt, svipað og maður fær sér góða hlaupaskó áður en maður byrjar að hlaupa,“ segir Kári og maður sér glöggt hversu lipur hann er í hvetjandi samtalsmeðferð.

Er getan og hæfileikar á sama plani?

En sérðu mikinn mun á því fólki sem er að vinna í sér og öðrum sem hafa ekki komið lengi í ráðgjöf?

„Einn stór þáttur í því að vaxa í þessu lífi er að ná fram styrkleikunum okkar og nýta þá betur. Ástæðan fyrir því að það getur gengur illa hjá fólki er þegar geta og hæfileikar eru ekki á sama plani. Getan getur verið upptekin af vandræðum og leiðindum. Og þar af leiðandi ná hæfileikarnir ekki að njóta sín. Forvitinn einstaklingur leitar að leiðum og lausnum og getur þannig virkjað hæfileika til hins ýtrasta. Ég tel mikinn mun á þeim sem eru að vinna í sínum málum og þeim sem eru fastir í lífinu.“

Hvað með hjón, er ekki vandmeðfarið fyrir þau að þroskast á sama hraða?

„Best er þegar par sér lífið sömu augum. Þegar hjón leita sér ráðgjafar, þá eru þau ýmist að koma til að vinna úr þungum, erfiðum hlutum, eða að koma til að vaxa saman og koma í veg fyrir að þau lendi í kyrrstöðu eða niðursveiflu sem gerir lífið þyngra eða leiðinlegra að lifa.“

Hvað með þá sem koma í ráðgjöf til að öðlast dyggðugra líferni?

„Já, það er áhugaverður hópur sem kemur til að verða betri útgáfa af sjálfum sér á hverjum degi,“ segir Kári og útskýrir betur. 

„Í raun og veru byrjar maður á því að vanda sig við það að gera ekki hluti sem kosta mann eftirvinnu. Vera hreinn og beinn í öllu sem maður tekur sér fyrir hendur. Besti hvatinn til þess er þegar einstakling langar til að vera besta útgáfan af sjálfum sér, það er að vera ærleg manneskja. Siðferði er stór hluti af þessu. Fólk er oft á ólíkum stöðum hvað þetta varðar. Ég nota líkar aðferðir við þessa vinnu, og allir geta náð árangri sem hafa áhuga á að horfa á sig, taka ábyrgð og þora að breytast til hins betra.“

Hvernig notarðu NLP (Neuro Linguistic Processing) aðferðina við að aðstoða fólk?

„Ég leitast við að koma fólki úr hindranamiðuðum hugsunum í lausnamiðaðar hugsanir. Aðferðin virkar vel til að hjálpa fólki úr mikilli þröngsýni, eða lægð í líðan, í það að líða betur og hafa betri stjórn á lífinu. Þetta er það sem maður kallar hvetjandi samtalstækni.“

Þú hefur djúpa þekkingu á fíknivandamálum og ert margþjálfaður í þeim efnum. Hvernig nýtist það í þinni vinnu?

„Sá sem hefur mikla þekkingu á fíknisjúkdómum, hefur góða innsýn inn í brotnar fjölskyldur. Þannig getur þjálfaður fíkniráðgjafi auðveldlega séð hvort fíklar í fjölskyldunni séu að setja allt á hliðina. Og þannig veitt stuðning til að efla fjölskyldur í átt að bata og minni meðvirkni.“

Eru miklir fordómar í samfélaginu varðandi fíknisjúkdóma eða erum við á tímum vitundarvakningar?

„Fordómar eru að minnka að mínu mati og samfélagið að opnast mikið gagnvart því að á bakvið fíkn eða fíknihegðun eru mjög oft áföll sem þarf að vinna úr. Það er farið að vinna meira úr þessum málum samhliða en ekki sitt í hvoru lagi eins og áður var gert.“

Ráðgjafaskólinn í sífelldri sókn

Þú rekur Ráðgjafaskólann, hvað felur nám í þeim skóla í sér?

„Ráðgjafaskólinn býður upp á grunnnám sem er 150 klst og framhaldsnám sem er 120 klst. Skólinn er annarsvegar ætlaður fólki sem hefur áhuga á að fræðast um fíkn, fyrir sjálfsuppbyggingu og svo þá sem vilja vinna við ráðgjöf,“ segir Kári og að skólinn sé ákaflega vel sóttur á hverju ári. „Einstaklingar sem sækja skólann eru ýmist að stíga sín fyrstu skref í námi í langan tíma eða allt upp í háskólamenntað fólk sem sækir sér símenntun reglulega. Við erum einnig með nemendur sem hafa sjálfir átt við fíknivanda að stríða og hafa náð tökum á fíkn sinni og vilja aðstoða aðra í að ná bata.“

Kári segir alltaf einhverja stjórnendur á hverju ári í Ráðgjafaskólanum, enda sé sú þekking sem þar er kennd á fíknisjúkdómum að nýtast í fyrirtækjum víða.

„Samtalstæknin sem ég kenni, sem og hvetjandi samtöl nýtast á hinum ýmsu sviðum og svo vekur NLP (Neuro Linguisting Processing) aðferðafræðin athygli,“ segir Kári í lokin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál