Hvernig á að treysta eftir framhjáhald?

Íslensk kona treystir ekki maka sínum eftir framhjáhald hans í …
Íslensk kona treystir ekki maka sínum eftir framhjáhald hans í fortíðinni. mbl.is/Getty

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningu íslenskrar konu sem óttast að eiginmaðurinn sé ennþá ótrúr. 

Hæ!

Ég er að velta einu fyrir mér. Maðurinn minn hélt mikið framhjá mér fyrir nokkrum árum og þurfti ég að setja mig í stellingar til þess að láta sambandið ganga upp. Ég stóð frammi fyrir þeim ótta að þora ekki að vera ein. Það væri skárra að vera með honum en að takast ein á við lífið. Sem er í sjálfu sér furðulegt því ég er í góðu starfi og börnin orðin það fullorðin að það hefði ekki átt að vera neitt mál. Eftir að við ákváðum að reyna að gera gott úr þessu öllu þá stend ég sjálfa mig af því að lifa í stöðugum ótta við að þetta gerist aftur. Ef hann er korter of seinn heim er ég viss um að hann hafi verið með „henni“ og þetta sé ennþá í gangi. Ég stend mig líka að því að vakta hann og allt sem hann gerir. Ef hann sofnar á undan mér fer ég í símann hans og grandskoða allt. Ég var búin að ákveða að verða gömul með þessum manni og á erfitt með að sætta mig við að það sé ekki allt eftir mínu höfði.

Kveðja, K

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir þessa fyrirspurn.

Þetta eru mjög einlægar hugleiðingar hjá þér og skiljanlegt að óttinn sé til staðar þar sem þú hefur þessa reynslu að baki. Að sama skapi má gera ráð fyrir því að þú þekkir það af eigin raun hversu heftandi það er fyrir ykkur bæði að þessi ótti sé til staðar. Í hvert sinn sem þú ferð án hans samþykkis að skoða síma hans og fleira, þá eykur þú eigin vanlíðan. Það mun ekki sefa óttann þinn og þú ferð sjálf að upplifa óheiðarleika gagnvart honum, sem gerir málið enn flóknara.

Lífið er þannig að hver og einn þarf að taka ákvarðanir hverjum hann treystir og hverjum ekki. Við erum alltaf að taka ákveðna áhættu þegar við treystum. Stundum er fólk traustsins vert og stundum ekki, það mun tíminn leiða í ljós. Að treysta er því bæði ákvörðun og ferli. Það þarf að taka meðvitaða ákvörðun að treysta einhverjum, ef maður ætlar að gera það, og svo tekur tíminn við þar sem það kemur einfaldlega í ljós hvort viðkomandi er traustsins verður. Þú hefur tekið ákvörðun um að vera áfram með manninum og því mikilvægt að þú takir meðvitaða ákvörðun um að treysta honum. Svo verður tíminn einfaldlega að leiða það í ljós hvort hann er traustsins verður. Í framhaldinu getur þú farið að vinna að því að sleppa takinu á óttanum við að upplifa fyrri áföll. Þetta er verkefni sem þú getur unnið að mestu sjálf, en það er enn áhrifaríkara ef þið getið unnið úr því saman.

Fyrsta skrefið er að ræða óttann, tala saman um að hann sé til staðar og koma orkunni sem hann býr til í heilbrigðan farveg. Þetta er gott að gera í viðtalstímum hjá sambandsráðgjafa til þess að hægt sé að tjá sig á opinskáan hátt og fá uppbyggilega speglun í leiðinni. Með því að færa umræðuna upp á borðið minnkar álagið af því að þú sért fyrst og fremst ein að hugsa þessa hluti. Ef maðurinn þinn treystir sér ekki til að taka þátt í slíkum viðtölum getur þú engu að síður farið sjálf og rætt þínar tilfinningar og losað þannig um þær. Með þessu móti getur þú hætt að burðast ein með þessar hugsanir og tilfinningar. Eins mæli ég með því að nýta dagbók, skrifa niður hugleiðingar þínar og hvernig þér líður hverju sinni. Það hjálpar við að koma tilfinningum í farveg. Þetta eru mikilvæg fyrstu skref í þessari vinnu. Með því að ræða hreinskilningslega um þína líðan þá ert þú að styrkja sjálfa þig, sem á endanum er markmiðið til þess að fyrirbyggja að þessi vonda líðan yfirtaki lífið þitt.

Gangi þér allt í haginn.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál