Erum við á föstu?

Erum við þá saman á föstu?
Erum við þá saman á föstu? mbl.is/Thinkstockphotos

Að vera á markaðnum, á lausu eins og það kallast oft, getur verið heljarinnar áskorun. Hvað gerir maður hvenær? Hvenær er maður byrjaður saman? Hvað má á fyrsta stefnumóti? Við förum yfir helstu samkvæmisreglurnar í dag.

Fólk nálgast samkvæmislífið á mismunandi hátt í dag. Þeir sem eru á markaðnum, að leita sér að maka upplifa sama markaðinn ólíkt. Sumir eru mikið á stefnumótum, aðrir að prófa sig áfram á óhefðbundnari hátt og svo eru þeir sem eru á markaðnum, en ekki svo mikið að fara út eða prófa sig áfram.

Hér koma nokkur ráð sem gott er að hafa að leiðarljósi ef þig langar að hitta hina/hinn eina rétta og fara á fast.

1. Kynntu þér hvað virkar og hvað virkar ekki

Þegar maður er á þeim tímamótum að mann langar í samband er gott að skoða hvaða sambönd ganga upp og hvaða sambönd ganga ekki upp í dag.

Rannsóknir sýna að aldamótakynslóðin sé mun betri en aðrar kynslóðir í samböndum og má rekja það til þess að þessi kynslóð er ekki að flýta sér, hún tekur sér tíma til að kynnast og fer óhefðbundnar leiðir til að finna sér maka.

Jafnframt eru margir sambandsráðgjafar sammála um að þau sambönd sem ganga síður upp eru þau sambönd þar sem aðilar drógu sig saman án þess að þekkjast nægilega vel.

Það sem virkar best er því að gefa sér góða tíma til að kynnast væntanlegum maka, talaðu af hreinskilni um hver þú ert og hvað þú vilt og skoðaðu hvort hinn aðilinn passi raunverulega við þig. 

2. Kynntu þig strax inn í vinskapinn

Það sem mælt er með er að fólk sleppi öllum samkvæmisleikjum. Auðvitað á að hafa gaman og kynnast, en sambönd þar sem bara leikir og daður eru í gangi geta haldið þannig áfram í mörg ár og skapað mikla vanlíðan hjá öðrum eða báðum aðilum þegar á líður.

Ef þú kynnir þig strax inn í sambandið, ertu einnig að setja inn þín gildi og í raun reglur fyrir samskiptin. Þannig þarftu ekki að hafa áhyggjur af því að hinn aðilinn sé að hitta fleiri aðila, með því t.d. að kynna strax að þú sért raunverulega að leita þér að maka og langar að skoða hvort hann/hún gæti verið sá/sú.

Það er ekki til nein ein leið sem virkar í þessu. En besta leiðin er auðvitað að vera í einhverri sjálfsvinnu á þessum tíma, að gera upp eldri sambönd og kynnast hvað þú raunverulega vilt sjálf/sjálfur.

3. Settu mörk

Það sem sterkir aðilar gera sem hafa lagt vinnu í að rækta sig, er að setja mörk gagnvart sér sjálfum og öðrum. Ef þú hefur sterk innri mörk þá þarftu varla að ræða þau. Þú munt draga til þín fólk á svipuðum stað og þú ert á, og fæla frá fólk sem er á öðrum stað í lífinu.

Þú þarft hins vegar ekki að vera með mörk gagnvart öllu, og þau geta komið hægt og rólega, en ekki gefa afslátt af þínum gildum. Eftir því sem þú ert meira að sinna þér og þínum frístundum, muntu finna fljótt hver passar inn í það og hver ekki.

4. Ekki týna þér

Sumir falla stöðugt í þann pytt að týna sjálfum sér við hvert samband sem það skoðar að fara inn í. Ekki gera það. Það bitnar mest á þér sjálfum/sjálfri seinna. Samband þitt við þig er það sem mestu máli skiptir. Er það heilbrigt? Uppbyggilegt? Mundu að það þarf heilt þorp til að láta samband ganga, svo ekki setja alla þína hamingju á einn aðila.

5. Margir týndir?

Ef þú ert á þeim stað þar sem eina fólkið sem þú hittir er fólk sem er ekki tilbúið að skuldbinda sig. Skoðaðu þá hvað þú ert að laða að þér. Skoðaðu staðina sem þú ferð á og hvaða strauma þú ert að senda frá þér.

Þegar við erum á þessum stað, þá er það vanalega af því maður er ekki sjálfur tilbúinn að skuldbinda sig. Við hvað ertu hrædd/hræddur? Ræddu það við ráðgjafa eða einhvern fagaðila. Það er ótrúlegt hvað hægt er að vinna í mörgum tilfinningum og oftast er eitthvað undirliggjandi sem þarf að vinna í þegar maður er fastur á sama staðnum.

6. Mér líður vel einum/einni

Ef þú hefur áhyggjur af því að þér líði bara svo vel á eigin forsendum að þig langar ekki að skuldbindast öðrum getur það verið frábær staður fyrir sambönd seinna meir.

Í raun er sagt að þannig þurfi manni að líða til að ná raunverulegri hamingju í sambandi. Það þurfa heldur ekki allir að vera í sambandi, mundu það.

Hins vegar þarf maður alltaf að passa að vera ekki í sjálfsblekkingu þarna. Getur verið að þú sért að gera eitthvað sem þú veist að enginn maki sætti sig við? Ertu í sjálfskaða og þannig tilfinningalega ekki til staðar fyrir þig eða aðra? Það er verðugt verkefni að skoða alla hluti í lífinu ef maður er ekki á þeim stað sem manni dreymir um.

7. Taktu þér tíma

Það sem er mikilvægt að muna er að til þess að lifa góðu lífi, þá verður manni að líða vel í sambandinu sem maður er í og einnig í vinnunni. Þessir tveir hlutir skipta miklu máli. Það er sjaldnast snjallt að fara í samband bara til að vera í sambandi. Ef þú veist að flest sambönd ganga illa þar sem báðir aðilar hafa farið of fljótt í samband án þess að kynnast nógu vel, gefðu þér þá tíma til að kynnast. Njóttu tilhugalífsins og ef eitthvað er að trufla þig, ræddu það þá bara við þann sem þú ert að hitta. Það getur verið kjörið tækifæri til að halda áfram á næsta stig í sambandinu. Ef þú óttast að fæla hinn aðilann frá, skoðaðu þá hvort þessar tilfinningar geta verið á réttu byggðar. Kannski er hinn aðilinn bara að leika sér? Þú skaðar ekkert með því að komast að því.

Þeir sem eru mikið að leika sér í samkvæmisleikjum eru svolítið týndir og eiga allt gott skilið. Ekki vera fórnarlamb þannig fólks samt. Það er óþarfi að fara niður á eitthvert plan sem aðrir eru á. Ef þig grunar að þú sért í þannig, taktu þá bara á því af kærleika. Settu mörk, vertu ljúf/ljúfur og haltu áfram.

Er þetta samband?

Ef þú hefur verið að hitta einhvern aðila og ert óviss hvar þið standið og þig langar að taka sambandið áfram. Sestu niður og ræddu það af hreinskilni. Það getur ekki skaðað neitt. Sterkasta fólkið upplifir tilfinningar sama hvað hinn er að fara í gegnum. Þú getur bara staðið með þér og sambandinu að þessu leyti. Ekki vera meðvirkur og bíða eftir besta tímanum. Hann gæti aldrei komið nema að þú takir af skarið og talir um hlutina. Fólk getur talað um þessa hluti, einungis nokkrum vikum eftir að það byrjar að hittast. En reynslan segir okkur að eftir því sem lengri tími líður, þeim mun erfiðari verða svona samtöl.

Gangi þér vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál