Varnarleysi í ástarsamböndum  

Theodór Francis Birgisson er klinískur félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur. Hann starfar …
Theodór Francis Birgisson er klinískur félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur. Hann starfar sem ráðgjafi hjá Lausninni.

„Sumir telja að ástin sé ofmetin, aðrir að hún sé tímaskekkja og enn aðrir að hún sé órökrétt viðbrögð við losta. Ég tel hana vera ómetanlega gjöf sem ég vildi ekki vera án. Hún er vissulega ekki alltaf rökrétt og ekki alltaf auðskiljanleg, en það er samt ekkert betra til í veröldinni að mínu mati en að fá að elska og að vera elskaður. Í þessari grein ætla ég í örfáum orðum að fjalla um mikilvægi þess að vera varnarlaus þegar við byggjum upp og njótum þess að vera í góðu og nærandi ástarsambandi,“ segir Theódór Francis Birgisson, ráðgjafi hjá Lausninni, í nýjum pistli: 

Varnarleysi (e. Vulnarability) er samkvæmt gagnreyndum rannsóknum eitt af lykilatriðum í ástarsamböndum. Maðurinn er í eðli sínu varnarlaus en í okkar vestræna heimi er okkur kennt frá blautu barnsbeini að það sé hættulegt að vera varnarlaus svo að við lærum flest ung að setja upp alls konar varnir. Það er mín reynsla sem þerapisti til margra ára að pör sem leita til mín eru með allar varnir á lofti þegar þau koma í fyrsta tíma. Þau eru líka yfirleitt bæði særð eftir hvort annað og líður einnig illa yfir að hafa sært maka sinn.  

Vísindamenn hafa í langan tíma rannsakað atferli og líðan einstaklinga í parsamböndum. Gottman-hjónin, sem eru heimsþekkt og margverðlaunuð fyrir sín störf,  hafa verið þar afkastamikil sem og dr. Sue Johnson og dr. Les Greenberg en þau þróuðu saman aðferð sem kallast tilfinningamiðuð nálgun (e. Emotional Focused Therepy / EFT ). Það er sú aðferð sem ég  og fleiri meðferðaraðilar Lausnarinnar notum í okkar starfi. Í þeirri aðferð er kappkostað að líta á undirliggjandi tilfinningar en ekki einungis yfirborðstilfinningar.  Án varnarleysis parsins verður aldrei hægt að sjá hver er undirliggjandi tilfinning og því næst aldrei sami árangur og annars gæti náðst.

Varnarleysið er svo mikilvægt að í sálfræðideild hins virta skóla Harward í Boston (BNA) er kennt námskeið sem heitir „Heilbrigður maður er varnarlaus maður“.  En það að vera varnarlaus er líka hættulegt, maður nefnilega meiðir sig þegar maður stendur varnarlaus. Félagsráðgjafinn dr. Brené Brown hefur í áraráðir rannsakað mikilvægi varnarleysis og hennar niðurstaða er í samhljóm við það sem kennt er í Harward, þú verður ekki þú sjálfur nema þú náir að fella allar varnir.

Varnarleysi er langt frá því að vera í tísku í dag. Þvert á móti þá reyna margir að herða sig upp og sýna sjaldan raunverulegar tilfinningar, enn síður raunverulegan veikleika. Sá góði Selfyssingur Einar Bárðarson átti frábæra stöðufærslu á Facebook um daginn þar sem hann sagði meðal annars að „fullkomnun væri ódýr filter á Instagram“. Mikið var ég sammála Einari í þessum orðum sem og allri færslunni hans. Það er svo óekta að vera fullkominn enda ekki nokkur lifandi maður sem er það (ekki einu sinni mamma).  Krafa rafræna samfélagsins er samt sem áður sú að við séum eitthvað sem við erum ekki. Það skilar sér síðan einnig inn í samskipti okkar og parsambönd. Í því ástandi eru auknar líkur á því að við túlkum það sem sagt er eins og persónulega árás og viðbrögð okkar við því er andstæðan við varnarleysi. Stundum er sagt að sókn sé besta vörnin og það getur vel verið að það gildi í allskonar aðstæðum, en það gildir alls ekki í nánum samskiptum. Þar er varnarleysi eina raunverulega svarið, eina svarið sem virkar til lausnar og árangurs.

Flest vandamál sem koma upp í parsamböndum stafa af því að einstaklingar sem jafnvel tala sama móðurmál geta lesið eitthvað allt annað úr samtölum við maka sinn en viðkomandi er raunverulega að segja. Allir menn eru þó fæddir með innbyggða þörf fyrir tengsl og hafa því þörf á að vera meðteknir af sínum nánustu. Einstaklingur sem ekki nær að standa varnarlaus getur ekki tjáð maka sínum hvers hann þarfnast frá honum, umfram yfirborðskenndar þarfir. Allar djúpar tilfinningar eins og þörfin fyrir að vera elskaður, þörfin fyrir að vera umvafinn og fá að standa öruggur í skjóli makans krefjast þess að viðkomandi geti staðið varnarlaus gagnavart maka sínum.  Dr. Sue Johnson á skemmtilegan frasa sem hljómar svona á ensku „No asky – no getty“ sem snara má á íslensku sem svo  að sá einn fær sem biður um. Það segir sig því sjálft að varnarleysi er eini möguleikinn á að geta notið þess að vera í djúpu og næringarríku sambandi.

Hvernig náum við þessu markmiði að vera varnarlaus? Stutta svarið er að læra að meta og meðtaka okkur sjálf með veikleikum okkar og styrkleikum. Sá sem þorir að vera hann sjálfur þarf ekki að vera með neinar varnir á lofti. Lengra svarið snýst einmitt um þetta – til að geta verið þú sjálfur þarftu að vita hver þú ert og hvers virði þú ert. Aftur er það mín reynsla að margir þeirra sem leita til okkar í þerapíu eru ómeðvitaðir um hverjir þeir í raun og veru eru og hvers virði þeir eru þegar allt annað (eins og eignir, samfélagsleg staða, menntun og starfsframi) er tekið frá þeim. Oft á tíðum þurfa einstaklingar á djúpri samtalsvinnu að halda til að komast að niðurstöðu um það.

Um síðustu jól varð ég fimmtugur og er því um það bil hálfnaður með lífshlaup mitt. Vitandi það að bestu árin mín eru eftir þá hef ég á lífsgöngu minni lært að lifa í stöðu varnarleysis. Mér tekst það að sjálfsögðu ekki alltaf en eftir því sem ég verð eldri verður það mér auðveldara.  Í varnarlausri stöðu tekst mér að vera betri maki, betri pabbi og betri afi. Ég hvet þig sem lest þessar línur að leyfa þér að taka varnirnar niður og ef þú þarft til þess faglega aðstoð þá eigum við Íslendingar marga mjög færa þerapista sem starfa á stofum úti um allt land. Hluti varnarleysisins er að þora að leita sér aðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál