Lovísa fann ástina á Tinder

Lovísa kynntist Joey á Tinder.
Lovísa kynntist Joey á Tinder.

Lovísa Kelly var búin að kaupa flugmiða aðra leið heim til Íslands frá Kanada þegar hún kynntist Joseph Kelly í gegnum Tinder. Lovísa er ekki enn flutt heim til Íslands enda þau Joseph eða Joey eins og hann er kallaður búin að gifta sig og eiga von á barni í sumar.

Lovísa fór í nám í tískumarkaðssetningu til Vancouver í Kanada árið 2015 ásamt þáverandi kærasta sínum, eftir námið fékk hún svo atvinnuleyfi í eitt ár og var verslunarstjóri yfir tveimur búðum. Framtíðarplön Lovísu breyttust töluvert í Kanda. „Ég flutti hingað með fyrrverandi, við vorum saman í næstum sjö ár og okkur langaði að vera hér eins lengi og við gætum. Ég þroskaðist mjög mikið við þessa flutninga og sá að við vorum búin að vaxa í sundur. Svo hann flutti heim og ég varð hér ein eftir. Eftir að hann fór sá ég ekki fram á að fá áframhaldandi atvinnuleyfi hér og planaði að flytja heim. Ég sagði upp vinnunni, keypti flugmiða heim í ágúst og ætlaði að eyða sumrinu í að slaka á hérna áður en ég flytti heim,“ segir Lovísa.

Kynntust á Tinder

Örlögin gripu þá inn í á Tinder þar sem Lovísa hafði stofnað reikning með ekkert alvarlegt í huga. Lovísa og eiginmaður hennar fóru út að borða eftir að hafa „matchað“ á Tinder. „Hann var voða hneykslaður að ég hefði ekkert skoðað mig um hérna í kringum borgina og ég væri að fara eftir nokkra mánuði. Svo hann planaði heilan dag fyrir mig á sunnudeginum, sótti mig um morguninn og við eyddum deginum við vatn sem var rúmlega eins og hálfs tíma akstur fyrir utan borgina. Þegar hann var að keyra mig heim spurði hann hvort hann mætti bjóða mér út að borða um kvöldið, og við enduðum á að eyða kvöldinu saman líka. Þarna var ég ekki einu sinni viss um að hann hefði áhuga á mér, hann var algjör herramaður og á þriðja stefnumóti hafði hann ekki reynt að kyssa mig.“

Á staðnum sem Joey bað Lovísu, bæði skítug eftir fjórhjólaferð.
Á staðnum sem Joey bað Lovísu, bæði skítug eftir fjórhjólaferð.

„Hann sagði mér að eftir þennan dag hefði hann farið að spá hvernig hann gæti haldið mér hér svo ég myndi ekki fara heim. Fljótlega eyddum við hverjum degi saman, hann gisti yfirleitt hjá mér þó það þýddi auka klukkutíma akstur fyrir hann í vinnuna á morgnana,“ segir Lovísa sem ákvað að fresta heimkomunni um hálft ár þar sem hún gat verið lengur í landinu sem ferðamaður.

„Mér finnst Tinder frábært, leyfir manni að kynnast alls konar fólki sem maður myndi annars aldrei hitta. Ég mæli með því að prufa þetta og gefa því séns,“ segir Lovísa spurð út í reynsluna af Tinder. „Upplifun mín hefur verið mjög upp og niður. Ég fór á nokkur stefnumót áður en ég kynntist Joey og var í hreinskilni sagt næstum því búin að hætta við stefnumótið með honum því ég var ekki að nenna þessu lengur. Ég fór út með einum sem sagði eftir fimm mínútur að ég ætti að flytja inn til hans, annar fór að tala um hvað hann ætlaði að kaupa handa mér dýran trúlofunarhring, og nokkrir sem ég átti enga samleið með,“ segir Lovísa og bætir því við að það sé um að gera að passa upp á öryggið. 

Giftu sig eftir fjögurra mánaða samband

Lovísa segir að þau Joey hafi fljótlega áttað sig á því að sambandið væri meira en hvert annað sumarskot. „Pabbi hans sagði að hann hafði aldrei séð son sinn svona áður yfir neinni stelpu og Joey sagði pabba sínum að hann hefði vitað að hann vildi giftast mér eftir þriðja stefnumótið,“ segir Lovísa sem flutti inn til Joey eftir tveggja og hálfs mánaðar samband. Eftir fjögurra mánaða samband giftu þau sig síðan.

Lovísa og Joey giftu sig við látlausa athöfn.
Lovísa og Joey giftu sig við látlausa athöfn.

„Til að byrja með var planið að ég færi heim í apríl, og við ætluðum að fljúga á milli og sjá hvernig þetta þróaðist. Það breyttist þegar ég varð ólétt og átti þá að eiga í apríl. Við sáum að það væri ekki alveg að ganga upp. Þetta er auðvitað mjög stór ákvörðun og við hefðum ekki gert þetta í svona miklum flýti ef ég hefði ekki orðið ólétt, en við vissum svo bæði að þetta væri rétt ákvörðun. Við giftum okkur í september, og ég missti fóstrið komin næstum 12 vikur á leið,“ segir Lovísa en þau mættu miklum skilningi hjá fólkinu í kringum þau og þá kannski sérstaklega tengdaforeldrunum sem giftu sig á sínum tíma eftir þriggja mánaða samband.

Brúðkaupið var smátt í sniðum en hjónin stefna á að halda annað og stærra brúðkaup eftir eitt og hálft ár en fyrst á dagskrá er að koma væntanlegum erfingja í heiminn í sumar. „Þetta er ekki eins og að vera á Englandi eða í Danmörku þar sem maður getur fengið ódýr flug og stutt heim. Ég er búin að vera hér í tvö og hálft ár og ekkert farið heim eða hitt neinn af fjölskyldunni. Frænka mín er að fara að heimsækja mig eftir nokkra daga, ég get ekki beðið,“ segir Lovísa þegar hún er spurð að því hvernig það sé að stofna fjölskyldu svo fjarri Íslandi.

Ánægð með lífið í Kanada

Það er níu ára aldursmunur á ykkur, truflaði það einhvern tímann?

„Ég sá mig aldrei fyrir mér með einhverjum yngri, öll mín sambönd hafa verið með eldri. Mér hefur oft fundist spes þegar sambönd eru með aldursmun þar sem konan er eldri en þetta er allt spurning um þroska, ég tek nánast ekkert eftir því að það sé aldursmunur á okkur. Sumum vinkonum mínum fannst hann of ungur fyrir mig, en ég held að það séu kannski bara smá fordómar yfir aldursmuninum. Tengdamamma var ekki alveg sátt til að byrja með, hvað ég væri eiginlega að gera með honum og hvort ég væri bara á eftir peningunum hans. Tengdapabbi hló víst mikið að því og spurði hvaða peninga en hann er alls ekki ríkur.“

Lovísa er ánægð með lífið í Kanada og er ekki á leið til Íslands á næstunni. Þegar hún var á leið til Íslands áður en hún kynntist manni sínum átti það bara vera tímabundið. Þrátt fyrir mikla misskiptingu segir hún að lifið sé afslappaðra úti. Veðrið sé gott og umferðin er töluvert skipulagðari á Íslandi auk þess sem að heilbrigðiskerfið sé mjög gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál