Íslenskur karl berst við einmanaleika

Íslenskur maður berst við einmanaleika.
Íslenskur maður berst við einmanaleika. mbl.is/Getty

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá einmana manni sem þráir að tengjast annarri manneskju en án árangurs. 

Sæll Valdimar.

Er rúmlega þrítugur og aldrei verið í sambandi og hef verið að berjast við gífurlegan einmanaleika. Ég hef reynt allnokkrum sinnum að tengjast einhverjum en fæ höfnun á eftir höfnun. Ég reyni að halda höfði en það er farið að reynast erfitt.

Er þetta eitthvað sem ég þarf að reyna sætta mig við, eða er eitthvað sem ég gæti gert?

Kveðja, JJ

 

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir að senda þessa fyrirspurn.

Ef það er eitthvað eitt sem allir vilja upplifa, þá er það að vera viðurkenndur og finna að maður skipti máli. Þess vegna njótum við þess þegar aðrir muna nafnið okkar, hlusta á okkur og sýna okkur athygli og virðingu. Þetta eru allt mikilvægir þættir en að sama skapi er mikilvægt að manni geti liðið vel með sjálfan sig, fundið væntumþykju og kærleika til sjálfs sín og upplifa sjálfur að maður skipti máli og að maður sé nóg. Þetta eru þættir sem snúa að sjálfsvirðingunni, hversu mikils virði manni finnst maður sjálfur vera. Þetta getur því bæði verið eitthvað sem kemur utan frá en mikilvægara er það sem kemur innan frá. Kosturinn við það er að maður getur mjög auðveldlega unnið með það sem kemur innan frá því sú vinna byggir ekki á neinum nema manni sjálfum. Með því að styrkja sjálfan þig fer þér að líða betur með þig og það smitar út frá sér í samskiptum við aðra.

Ef þú skoðar hvernig þér líður gagnvart sjálfum þér, hvað kemur upp í hugann? Eru einhver atriði sem þér finnst að mætti bæta eða vinna með? Hvaða skref gætir þú tekið í þá átt? Hvaða hæfileika hefur þú? Ertu að nota þessa hæfileika? Ég hvet þig til að skoða vel hvað það er sem þú telur sjálfur að gæti bætt þína eigin sjálfsvirðingu og gera það sem þú getur til þess að ná þeim markmiðum. Það er oft góð en einföld byrjun að sinna þörfum sínum, huga að hreyfingu, mataræði og svefni.

Það getur verið mjög gagnlegt að leita til ráðgjafa eða markþjálfa til stuðnings við þetta ferli. Eins eru ýmsar bækur, myndbönd og fleira efni sem fjalla um innri styrk, jákvætt hugarfar og hvatningu sem ég mæli með að skoða. Þú getur hafist handa við að leita á netinu eftir Zig Ziglar, Tony Robbins og Brendon Burchard sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Eins er óhætt að mæla með námskeiðum á vegum Dale Carnegie sem hafa gert mörgum gott.

Gangi þér vel í þessu ferðalagi.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál