Á ég að loka á gifta manninn?

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni hjálpar íslenskri konu að fóta sig en hún hefur verið í sambandi við giftan mann. 

Sæll Valdimar

Ég kynntist manni sem á konu. Hann er rosalega ljúfur og góður og við svakalega góðir vinir. Samband okkar þróaðist úr vináttu og í eitthvað meira. Hann og konan hafa átt í miklum vandræðum og er samband þeirra mjög slæmt og augljóst að hann ber litlar sem engar tilfinningar til hennar. Hann byrjaði að segja henni að hann vildi skilja og hún tók mjög illa í það og vældi í honum. Hann ákvað því á endanum að segja henni bara hvernig væri, hann væri ástfanginn af annarri og vildi skilja.

Allt kom fyrir ekki og hún brjálaðist og hótaði honum öllu illu og hann ákvað að reyna aftur, og það í 5. skiptið. Ég ákvað að loka bara á hann þrátt fyrir að hann væri að grátbiðja mig um að gera það ekki. Mér gekk það vel og ég hélt að hann væri bara ánægður og lífið gengi bara vel hjá honum, þangað til hann heyrði í mér aftur og þá var allt vonlaust, þau alltaf að rífast en hún samt ekki tilbúin að sleppa honum. Ég talaði við hann í 2 mánuði aftur en ákvað svo að ég gæti ekki staðið í þessu með honum og hætti að svara honum.

Er það ekki rétt hjá mér að gera það? Eða á ég að vera til staðar fyrir hann eins og hann er að biðja um? Mér þykir alveg vænt um hann og veit að líf hans með henni er mjög erfitt og hann getur ekki talað við hana. En veit bara ekki hvort við getum verið bara vinir eftir það sem gekk á eða hvort við eigum að fara á bak við hana fyrir þessa vináttu.

Kveðja,

X

 

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir að senda þessar spurningar.

Þegar við verðum hrifin af öðrum manneskjum fara mjög sterk efnahvörf í gang, dópamínmagn eykst til muna og það hefur mikil áhrif á okkur og hvernig okkur líður. Við upplifum sælutilfinningu, innri hvatir aukast og dapurleiki minnkar. Fleiri boðefni aukast sem leiðir meðal annars til aukins trausts og minni ótta. Það má segja að þessi boðefni rugli okkur svolítið í rýminu og oft á tíðum göngum við langt í að halda í upplifunina sem þau veita okkur, stundum þvert á eðlilega skynsemi. Þegar ég les yfir það sem þú ert að segja þá koma einföld svör upp í hugann, en þau svör byggjast meira á skynsemi og rökum heldur en tillitssemi, skilningi og tilfinningunum sem koma upp við svona aðstæður. Eftirfarandi svör gætu því virkað frekar snubbótt eða jafnvel eins og skammir en það er alls ekki illa meint. Þau byggjast á því sem almennt mætti telja að væri siðferðislega rétt í þeim viðkvæmu aðstæðum sem framhjáhald er og stundum er gott að fá hlutina svolítið umbúðalausa.

  1. Þú veltir fyrir þér hvort þú eigir að bjarga honum vegna erfiðra samskipta hans við konuna sína. Þessi samskipti þeirra koma þér alls ekkert við. Það er alfarið þeirra persónulega mál og eðlilegast væri að þau gerðu það sem þarf til að vinna úr því.
  2. Ef manninum líður illa í sínu sambandi þá væri réttast og heiðarlegast hjá honum að bera ábyrgð á því. Það er gert með því að ræða þá hluti við maka sinn og annaðhvort vinna að því að styrkja hjónabandið, eða fara fram á skilnað áður en farið er að stofna nýtt samband. Aftur er þetta eitthvað sem þig varðar ekki um og í raun fátt sem særir fólk meira en að vita að trúnaðartraust sé brotið með því að segja viðhaldi frá persónulegum þáttum hjónabandsins. Þú gerðir því vel með því að taka ekki þátt í slíkum umræðum.
  3. Að lokum veltir þú því fyrir þér hvort þið eigið að fara á bak við konuna hans vegna vináttu ykkar? Ég vil hrósa þér fyrir að hafa lokað á samskiptin á einhverjum tímapunkti, þrátt fyrir að hann hafi viljað eitthvað annað. Það bendir til þess að þú hafir tengt við innsæið þitt og tekið ákvörðun byggða á góðum gildum. Ef þú heldur því áfram ættir þú að finna svarið við þessari spurningu.

Eins og ég nefndi þá eru þetta að mínu mati rökrétt svör en þau taka ekki tillit til þess að á milli ykkar eru tilfinningar og samband sem hefur fengið að þróast. Það gerist víða að tilfinningar þróist gagnvart öðru fólki en maka okkar og í sumum tilvikum leiðir það til framhjáhalds. Hvað þetta varðar er mikilvægt að hafa í huga að enginn er fullkominn og allir geta gert mistök. Það sem skiptir hinsvegar máli er hvað við gerum í slíkum aðstæðum, hvort við gerum okkar besta til að setja okkur og öðrum heilbrigð mörk, erum heiðarleg við okkur sjálf og maka okkar og sýnum öðrum virðingu.

Með þessi atriði að leiðarljós koma rétt svör við spurningunum.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál