Er sambandið búið ef það er ekkert kynlíf?

mbl.is/Getty

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá íslenskri konu sem veltir því fyrir sér hvort hægt sé að laga ástarsamband hennar eða hvort það sé bara búið. 

Sæll

Ég er búin að vera í sambandi með kærastanum mínum í 5 ár og eigum við eitt barn saman. Við erum mjög ólík í sambandi við nánast allt, þar með talið hversu mikinn tíma við eigum að taka frá til að sinna hvort öðru. Ég þarf nánd og umhyggju á meðan hann segist ekki þurfa á því að halda. Við erum líka nánast alveg hætt að sofa saman og mér er eiginlega orðið sama.

Ég finn að ég er farin að leita annað og finnst gaman þegar aðrir karlmenn sýna mér áhuga. Og ég er orðin hrædd um að það sé of seint að laga sambandið núna.

Við rífumst nánast daglega og ég er mjög hrædd um að það sé að hafa áhrif á barnið okkar sem er það lítið ennþá að það skilur ekki hvað er í gangi.

Er alltaf hægt að laga hlutina?

Kveðja, BB

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir að senda þessar hugleiðingar.

Í stuttu máli mætti segja að það séu töluverðar líkur á að hægt sé að laga hlutina, svo lengi sem báðir aðilar vilja leggja sitt af mörkum til þess. Það er ekki óalgengt að þegar sambönd hafa þróast í einhvern tíma að fólk kemst að þeirri niðurstöðu að það er ekki sammála um mikilvæg atriði í lífinu. Það er ekkert að því að vera ekki alltaf sammála og þarf alls ekki að vera ókostur að einstaklingar í parasambandi séu ólíkir. Það skiptir hinsvegar miklu máli að gagnvart stóru atriðunum séu pör með svipaða sýn og vilja til að sinna þörfum sambandsins ásamt sínum persónulegu þörfum.

Samböndin vaxa ekki af sjálfu sér og því þarf að gefa þeim ákveðinn tíma og athygli til þess að þau nái að dafna. Nándarvandi er algengur í parasamböndum, það sem einum finnst of lítið þykir öðrum nægilega mikið og svo framvegis. Þörfin fyrir nánd er eitt af þessum stóru atriðum sem þarf að ræða og leita leiða til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvað uppfyllir þarfir ykkar á því sviði.  

Fyrsta skrefið væri að tala saman um þessi mál. Margir finna mikinn hag af því að gera það með þriðja aðila sem getur aðstoðað með spurningum og mögulega komið með hugmyndir inn í vinnuna. Með því að gera það getið þið í það minnsta séð hvort þarfir ykkar og langanir eru svo langt í burtu að ekki verði hægt að samræma þær eða hvort það er vilji og von um að hægt sé að ná betur saman. Það hjálpar ykkur að taka ákvörðun um næstu skref í ykkar sambandi.

Þú nefnir barnið ykkar og gott að heyra að þú hefur hag þess í huga. Börn eru mjög ung farin að skynja streitu í samskiptum foreldra og geta upplifað ótta og óvissu því tengda. Það er ekkert óeðlilegt að rökræða öðru hverju en stigsmunur er á því og að vera að rífast, jafnvel með háreysti og niðrandi orðum fyrir framan börn. Það er því gott markmið að forðast að valda þeim uppnámi með samskiptum okkar og vinna að því að samskiptin geti verið í jafnvægi og af virðingu. Aðalatriðið er að þið ræðið saman um það sem liggur ykkur á hjarta og ef þær umræður fara alltaf í gömul hjólför og skila engu góðu, þá er um að gera að leita til ráðgjafa til þess að fá nýjar hugmyndir.

Gangi ykkur vel á þessari vegferð.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál