Keyrðu upp gleðina í barnaafmælum!

Að ná til barna í barnaafmælum getur verið áskorun. En …
Að ná til barna í barnaafmælum getur verið áskorun. En öll viljum við að börnin hafi það sem best í afmælum sem við höldum. Rawpixel,Thinkstockphotos

Þjálfarinn og fyrirlesarinn Pálmar Ragnarsson er mörgum kunnur. Hann hefur í gegnum árin verið kallaður barnahvíslari, svo vel virðast börnin bregðast við þjálfun hans. Hann hefur einstakan áhuga og virðingu fyrir börnum og þykir hafa betra lag á þeim, en flestir. Pálmar er með BS gráðu í sálfræði og meistaragráðu í viðskiptum. Hann er vinsæll fyrirlesari þar sem hann fjallar um samskipti í hópum og yfirfærir íþróttaþjálfun yfir á vinnustaði. 

Aðspurður hvað liggur að baki því að hann nær svona vel til barnanna segir hann að það hafi komið með reynslunni. „Það sem ég geri er að ég prófa mig áfram, þannig að smám saman hef ég fundið leiðir sem gefa af sér þann árangur sem ég vil sjá. Ég hef haldið áfram að nota það sem virkar en hætt að nota það sem virkar ekki.“
Pálmar Ragnarsson talar um áreynslulausan aga í viðtalinu.
Pálmar Ragnarsson talar um áreynslulausan aga í viðtalinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skýr og kærleiksrík skilaboð

Pálmar segir að sú aðferð sem hann leitast við að nota sé áreynslulaus agi. „Ég kalla það áreynslulausan aga þegar maður nær að fá börnin til að hlusta og hlýða án þess að maður hafi mikið fyrir því, hækki röddina eða skammi.“

Pálmar segir nokkra hluti þurfa að hafa í huga þegar kemur að áreynslulausum aga. „Í fyrsta lagi þá mega börn aldrei sjá að þau nái að slá þig út af laginu. Þegar þau sjá að þú ert alltaf rólegur sama hvað, þá oft hætta þau að reyna á þig. Það sem ég hef hugfast í þessu er að ég sest bara niður og tala við börnin, reyni að skilja þau. Af hverju er þetta að gerast? Hvernig líður þeim? Hvað gerðist og svo framvegis. Frá byrjun leitast ég við að ræða málin fallega í stað þess að hækka róminn eða skamma. Í öðru lagi þá tel ég mikilvægt að hafa skilaboðin alltaf skýr og ákveðin. Ég leitast við að hafa eins fá „ef“ og „kannski“ og mögulegt er. Í þriðja lagi og þetta atriði er jafnvel það mikilvægasta er að vinna með þau vandamál sem upp koma um leið og þau gerast í stað þess að ætla að taka á þeim seinna eða í næstu viku. Óviðeigandi hegðun verður að fá svörun strax. Því reynslan hefur sýnt mér að hlutirnir verða ekki betri með tímanum. Frá fyrstu sekúndu hef ég einfaldar réttlátar reglur sem allir skilja og hafa áhuga á að fylgja.“

Virðing fyrir börnum mikilvæg

Hvaða máli skiptir virðing fyrir börnum? „Virðing er lykilatriðið að mínu mati. Við eigum að bera virðingu fyrir börnum og þá bera þau virðingu fyrir þér. Ef þú ert skemmtilegur við börn, þá vilja þau vera skemmtileg á móti.“

Hvað eigum við að hafa í huga þegar við erum að halda barnaafmæli fyrir hóp af börnum sem við þekkjum misvel?

„Ég hef einmitt verið að hugsa nokkur einföld atriði sem vert er að hafa í huga þessu tengt. Hvernig hægt er að gera spennandi og skemmtilega hluti með hóp af börnum á einfaldan hátt. Ég tel mikilvægt að byrjað sé á því að ná athygli allra. Ekki byrja að tala fyrr en allir eru að hlusta. Ef einhver hefur ekki áhuga á að hlusta þá missir hann/hún úr fyrsta hluta leiksins. Síðan er mikilvægt að hafa öll fyrirmæli eins skýr og einföld og kostur er.“

Þátttaka fullorðna mikilvæg

„Mikilvægt er að útskýra hvað við ætlum að gera í afmælinu og setja það upp á spennandi hátt. Af hverju erum við að fara í þennan leik? Hvað er spennandi við hann? Best er að velja leik sem maður hefur raunverulegan áhuga á og reyna þannig að kveikja áhuga allra annarra á því sem þið eruð að fara að gera. Á meðan leikurinn eða starfstöðvarnar (þema-afmæli) eru í gangi, þá er skemmtilegt að gefa endurgjöf sem eykur á spennuna, hrósa eða benda á það sem vel er gert og hvað getur orðið. Svo finnst mér lykilatriðið í þessu öllu að hinir fullorðnu taki þátt með börnunum, því það gerir leikina skemmtilegri fyrir alla þegar fullorðnir taka þátt með.“

Pálmar segist margsinnis hafa upplifað það í þjálfun barna að þeim líkar betur við það sem þau eru að gera ef foreldrarnir hafa einnig áhuga á því sem þau eru að gera.

Mikilvægt að opna augun

Nú ert þú þekktur fyrir að ná vel til allra barna, ekki síst þeirra sem sumir myndu telja erfitt að ná til. Hvernig gerir þú það?

„Já ég reyni að gera mitt besta. Ég hef sérstaklega gaman af börnum sem sumum þykir áskorun, því ég hef gaman af áskoruninni og það fær mig til að prófa nýjar leiðir.“

Pálmar segist stundum verða vitni að því að hinir fullorðnu endurtaki sömu aðferðir á börn sem eiga erfitt með að hlýða fyrirmælum á ákveðinn hátt, þó að barnið sýni ekki þau viðbrögð sem ætlast er til af því. „Það er áhugavert að fylgjast með því og hef ég persónulega ekki ennþá orðið vitni að því að barn hlýði í 10 skiptið sem eitthvað er sagt við það á sama hátt, hafi það ekki hlýtt fyrstu 9 skiptin á undan. Við fullorðna fólkið þurfum að opna augun fyrir þessu síðasta skipti okkar sem virkaði ekki. Við gætum þá reynt að prófa aðra hluti og oft gæti skýr rammi, yfirvegaðar útskýringar og samtöl virkað betur en öskur og æsingur.“

Erfiðu börnin þau skemmtilegustu

Pálmar segir börnin með mestu hegðunarerfiðleikana í raun vera frábæra krakka. „Þetta eru oft og tíðum skemmtilegustu börnin, og þau sem ég hef persónulega hvað mest gaman af að vinna með. Ég hafna því ekki að þeim fylgir meiri vinna, en ánægjan þegar maður sér þau njóta sín í gleði og leik slær margt annað út.“

Hvernig tengir þú þessa samskiptahæfni þína í þjálfun yfir á okkur fullorðna fólkið í fyrirlestrum? ,,Ég er með fyrirlestra, bæði fyrir fullorðna í félagasamtökum og á vinnustöðum, þar sem ég fjalla á skemmtilegan hátt um samskipti á vinnustöðum og svo kem ég með dæmi úr íþróttum, segi meðfram því fyndnar sögur af samskiptum frá íþróttaæfingum barna sem ég yfirfæri á vinnustaðina.“

Aðferðir úr íþróttaþjálfun barna yfirfærð á vinnustaði

Og hvernig eru vinnustaðir í landinu, kannski eins og ein stór meðvirk fjölskylda? „Nei heldur betur ekki að mínu mati. Flestir vinnustaðir sem ég hef komið inn á innihalda góð samskipti enda er ég ekki kominn þangað til að lækna. Markmið mitt með fyrirlestrunum er að vera með skemmtileg og góð skilaboð og almennt bara að minna á mikilvægi jákvæðra samskipta á vinnustöðum.“ Pálmar segir nálgunina þá sömu og hann notar í þjálfun barna, að koma á jákvæðum samskiptum í hópum. Þess má geta að lokaritgerð Pálma í viðskiptafræði fjallaði um samskipti á vinnustöðum þar sem hann leitaðist við að svara hvort hægt væri að nota aðferðir úr íþróttaþjálfun barna á vinnustöðum fullorðinna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál