Að gefast upp þýðir að þú færð eitthvað nýtt

mbl.is/Thinkstockphotos

Sumir hlutir í lífinu verða ekki betri sama hvað við reynum. Í raun má segja að flest brengluð mynstur sem við höfum myndað með okkur til að lifa af í óeðlilegum kringumstæðum séu þannig að án þess að stíga út úr þeim og fá aðstoð, er erfitt að stoppa. 

Þegar maður gefst upp fyrir einhverju, þá þýðir það ekki endilega að við séum hætt að reyna. Við gefumst upp fyrir því að reyna með aðferðum sem hafa ekki virkað.

Sem dæmi þá hafa hjónabandsráðgjafar tala um að þegar hjónabönd eru orðin mjög slæm, þá sé nauðsynlegt að segja þeim upp og byrja upp á nýtt. Ekki með nýjum aðila, heldur með sama aðila en nýjum hugmyndum. Það sama má segja um uppeldi barna okkar. Af hverju höldum við að ef við segjum hlutina í 10. skiptið þá verði einhver breyting, ef það virkaði ekki í öll níu skiptin þar á undan?

En af hverju erum við ekki alltaf að gefast upp reglulega? Ástæðan fyrir því er eflaust sú að í gegnum söguna hefur það að gefast upp táknað að hörfa eða lúta æðra valdi.

Hvað ef við gefumst upp fyrir betra lífi? Gefumst upp fyrir okkar æðri mætti, æðri tilgangi?

Að gefast upp og halda áfram að lifa í friði og ró í sálinni getur nefnilega verið verðugt verkefni. Við skoðum þetta nánar.

Að gefast upp þýðir að þú færð eitthvað nýtt

Að fá eitthvað nýtt getur verið góð hugmynd ef við erum fullviss um að þetta nýja sé betra en það sem við höfum. Þess vegna eigum við erfitt með að sleppa einhverju áður en það verður óþolandi. Þegar við erum komin á botninn, þá er í raun allt betra en við höfum og þess vegna fáum við hugrekkið til að prófa eitthvað nýtt.

Botninn þinn þarf ekki að vera í öskustónni. Þú getur fært hann ofar og ofar í lífinu með því að prófa að sleppa á einu sviði þar sem þú ert tilbúinn að prófa að gefast upp. Ef við tökum sem dæmi meðvirkni. Maður sér hana sjaldnast sjálfur, en ef mann grunar að sumt af því sem maður gerir í lífinu sé meira fyrir aðra en mann sjálfan er verðugt að skoða það. Flestir sem takast á við meðvirkni segja: Vá hvað þetta er skemmtilegt! Ég vildi að ég hefði gefist upp fyrr.

Að gefast upp krefst meira hugrekkis heldur en að halda áfram

Við erum vanaföst í eðli okkar og viljum gera það sem við erum vön ef það virkar. Að breyta til reynir á okkur og vanalega þurfum við að treysta öðrum í þessu ferli sem getur líka verið áskorun.

Þetta með orkuna fáum við vanalega þegar við erum komin á botninn og orðin verulega reið út í okkur sjálf, tja eða aðra. 

Prófaðu að hugsa um áskoranir þínar sem þínar eigin, taktu alla aðra út úr jöfnunni og sjáðu hvort þú fáir kraftinn til að skoða með sérfræðingi á því sviði. Mundu einnig að þeir sem hafa náð að vinna sig út úr áskorunum sem skipta máli, eru vanalega með þá köllun að gefa bata sinn áfram. Með þessa hugsun að leiðarljósi verður auðveldara að treysta fagmanni. 

Að gefast upp þýðir ekki að þú takir ekki ábyrgð!

Það að vera fórnalamb í einverjum aðstæðum er oft hindrun við að ná árangri. Sama á hvaða sviði það er þá hefur þú val. Sagan hefur sýnt okkur að til er fjöldi fólks sem hefur unnið sig út úr ýmiss konar aðstæðum og notað kraftinn og batann sinn til að hjálpa öðrum.

Ef þú ert til dæmis óánægður í vinnunni, mundu að taka ábyrgð og hugsa: Ég hef val! Hvað ætla ég að gera við það? Ef markmiðið er að breyta vinnustaðnum eða öðrum, þá mæli ég með að þú skoðir fleiri tækifæri í lífinu. Því það eina sem þú mátt vita er að þú berð ábyrgð á þér og einungis þér. Þitt er valið.

Að gefast upp getur verið það besta sem þú hefur gert

Það er algengt að við aðlögumst umhverfinu okkar vel. Svo vel að stundum erum við farin að gera hluti sem eru hreint og beint skaðlegir fyrir okkur án þess að átta okkur á því.

Sem dæmi komum við úr alls konar umhverfi, sum okkar eiga heilbrigðar fjölskyldur önnur okkar ekki. Það er samt ekkert sem hindrar okkur í að stíga út úr mynstri sem er ekki að færa okkur það sem við óskum. Ef þig til dæmis dreymir um heilbrigða sál í hraustum líkama en fjölskyldan er með það fyrir vana að borða sætindi öll kvöld, þá verður þú að átta þig á að þú verður ekkert meira en þú velur. Leitaðu aðstoðar og gerðu þitt plan, það getur meira að segja orðið til þess að hinir fylgja á eftir, þó að það eigi alls ekki að vera markmiðið í sjálfu sér.

Að sama skapi getur manneskja, sem alin er upp við að eðlilegt sé að drekka vín á hverju kvöldi, stígið út úr því ef drykkurinn er að hafa slæm áhrif á miðtaugakerfið.

Ekki halda áfram að gera eitthvað sem skaðar þig bara af því það er vaninn. 

Lífið er dýrmætt og þú átt skilið að gera sem mest úr því! Gangi þér vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál