Eru áhyggjur og kvíði að „drepa þig“?

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Árni Sæberg

„Fyrir nokkrum mánuðum átti ég samtal við lækni sem sagði við mig að það streymdi að fólk sem væri útbrennt, komið með alvarlegan kvíða og í svokallað kulnunarástand. Hann vildi meina að veruleg aukning væri á slíkum tilfellum og ekki síst hjá konum sem mætti rekja til aukins álags og streitu. Þetta kallast á við upplifun mína við ráðgjafastörf, margt fólk er komið fram á brún sökum mikils álags og streitu. Kulnun eða útbrennsla er alvarlegt ástand sem tekur langan tíma að vinna sig frá. Að hafa áhyggjur og að kvíða einhverju er eðlilegt ástand, það eru líklega mjög fáir sem hafa enga reynslu af því. Kvíði getur verið aðstæðubundin, til dæmis kvíða því margir að fara í flugvél, að komast í tæri við köngulær eða að vera stungnir með sprautunál svo dæmi séu tekin. Meðferð við slíkum aðstæðubundnum kvíða felst meðal annars í því að takast hægt og rólega á við þær aðstæður sem valda kvíðanum,“ segir Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, í sínum nýjasta pistli: 

Þegar við höfum of miklar áhyggjur í of mikinn tíma getur það þróast í alvarleg einkenni af kvíða, sjúklegum eða óeðlilegum kvíða sem hefur verulega hamlandi áhrif á líf viðkomandi. Máltækið „dropinn holar steininn“ á vel við í þessu samhengi. Kvíði af þessu tagi verður í mörgum tilfellum viðvarandi tilfinning, fólk vaknar og sofnar með svokallaðan kvíðahnút og finnur fyrir honum yfir mestallan daginn. Þessi tilfinning dregur mátt úr fólki, virðist soga til sín orku líkamans og gerir lífið í alla staði erfiðara. Í sumum tilvikum fá einstaklingar kvíðaköst sem geta virkað nánast lamandi, margir finna fyrir máttleysi í útlimum, öndunarerfiðleikum, hraðari hjartslætti, svitna óhóflega meðal annars í lófum, upplifa sig vera í frjálsu falli og vonleysistilfinning hellist yfir. Það er augljóst að upplifun sem þessi er alvarlegt ástand og mikilvægt að gera það sem hægt er til þess að sporna við því að það haldi áfram eða aukist.

Ef ekki er tekist á við langvarandi kvíða getur það leitt til ýmissa alvarlegra líkamlegra og andlegra vandamála, meðal annars þunglyndis. Fyrir marga er erfitt að viðurkenna ástandið sem þeir eru að upplifa, ekki síst vegna þess að hugmyndir okkar byggja mjög gjarnan á því að sterkir einstaklingar eigi að geta tekist á við hvað sem er og það sé því veikleiki að komast að þeirri niðurstöðu að maður ráði ekki við verkefni hversdagsleikans. Það er ranghugmynd sem mikilvægt er að leggja til hliðar. Það er styrkleiki að leita sér aðstoðar og gera það sem hægt er til þess að lifa hamingjusömu lífi. Með því að skoða mismunandi hliðar þessara mála, hvaða atriði það eru sem helst hafa áhrif í daglegu lífi og hvað við getum gert til þess að draga úr áhyggjum og kvíða, geta lífsgæðin aukist verulega, jafnvel á skömmum tíma.

Á námskeiðinu Áhyggjur og kvíði – leiðir til lausna verður rætt á mannlegum nótum um áhyggjur, streitu og kvíða frá ýmsum hliðum og hvaða leiðir eru taldar góðar til þess að vinna úr vandanum.

Þú getur skoðað námskeiðið betur hér http://www.lausnin.is/ahyggjur-og-kvidi-leidir-til-lausna/

Valdimar Þór Svavarsson - ráðgjafi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál