Lét gamlan draum rætast

Jón Halldórsson segir að æfingin skapi meistarann, við lærum með …
Jón Halldórsson segir að æfingin skapi meistarann, við lærum með því að gera. mbl.is

Jón Halldórsson er einn stofnenda og eigenda KVAN, fyrirtækis sem sérhæfir sig í að styðja við ungt fólk og fullorðna til að virkja það sem í þeim býr með því að nota viðurkenndar aðferðir til að veita fólki aðgengi að styrkleikum sínum. Jón, sem er menntaður íþróttakennari, lögreglumaður og ACC-markþjálfi, starfar sem framkvæmdastjóri KVAN. Hann þjálfar sjálfur á námskeiðum þess, er stjórnendamarkþjálfi og vinsæll fyrirlesari. 

Tilurð þess að KVAN var stofnað er að Jón, ásamt eiginkonu sinni Önnu Steinsen, Jakobi Frímanni Þorsteinssyni og Vöndu Sigurgeirsdóttur, lét gamlan draum rætast um að stofna miðstöð mannræktar þar sem þau gætu sameinað krafta sína á mismunandi sviðum til að valdefla fólk til að nota hæfileika sína betur.

Jón segir að inntak KVAN-námskeiðanna sé það sama hvort heldur sem þau séu fyrir ungt fólk eða fullorðna. „Við erum stöðugt að skoða hvernig við getum fært fólki verkfæri til að verða besta útgáfan af sjálfu sér. Öðlast aðgengi að styrkleikum sínum og nýtt þá í lífinu.“

Við lærum með því að gera

Jón segir lykilinn að lærdómi vera í nýrri hugsun og hegðun. „Við fáum fólk til að mæta í tíma, kynnum því hugmyndafræði okkar og verkfærin, fáum það til að setja sér markmið og fara svo út og prófa. Við hittumst reglulega og förum yfir hvernig gekk, hvað gekk vel, hvað ekki og hverju mætti við bæta.“

Að styrkja sjálfsmyndina og sjálfstraustið er lykillinn að velgengni ungs fólks að mati Jóns. „Okkur er einnig umhugað um þennan nýja veruleika sem við búum í, þar sem öll snjalltækin okkar eru orðin áberandi hluti af lífinu. Við kennum fólki að skoða umhverfi sitt, setja mörk um hvað er eðlilegt og hvað ekki. Við ýtum undir sjálfstraust fólks til að segja já og nei eftir því hvað við á.“

Ástríða þeirra sem starfa á vegum KVAN er að starfa með fólki á öllum aldri, allt frá börnum til fullorðinna.

„Eitt af stærri verkefnum okkar þessa stundina er þjálfun 300 kennara víðsvegar um landið í gegnum Verkfærakistuna, sem er námskeið fyrir fagaðila sem starfa með ungu fólki. Þetta verkefni er m.a. unnið í samvinnu við Velferðarsjóð barna, en sjóðurinn veitti mjög góðan styrk til að niðurgreiða námskeiðið fyrir kennara og aðra fagaðila sem starfa með ungu fólki. Við erum þeim óendanlega þakklát fyrir stuðninginn og það er dýrmætt að hafa þennan sjóð, sem í gegnum tíðina hefur styrkt alls konar verkefni sem lúta að velferð barna á íslandi,“ segir hann.

Námskeiðið Verkfærakistan er byggt upp á sex skiptum þar sem þátttakendur fá ýmis verkfæri og kennsluáætlanir til að vinna með einstaklinga og hópa. „Í hverjum tíma námskeiðsins fá þátttakendur fræðslu og þjálfun í ákveðnum aðferðum, fara út í skólann sinn og prófa aðferðirnar, koma svo aftur á námskeið, fá handleiðslu, læra nýjar aðferðir og fara aftur út. Þannig öðlast þátttakendur öryggi í beitingu aðferðanna og eru líklegri til að nota þær í starfi. Þessi aðferðafræði er grundvöllur að árangri Verkfærakistunnar.“

Málefni er varða einelti hafa komið inn á borð KVAN enda er Vanda einn helsti sérfræðingur landsins í þeim málaflokki. „Við erum heppin með Vöndu, hún er einstakur leiðtogi á þessu sviði, með réttsýni sem ástríðu og mikla reynslu undir belti þegar þessi vandasami málaflokkur er annars vegar.“

Jón segir KVAN líta lífið jákvæðum augum; það sé fullt af tækifærum, þótt hann vilji ekki draga úr þeim breytingum sem hafa orðið á síðustu árum og áratugum, meðal annars vegna þróunar í upplýsingatækni. „Þegar kemur að samskiptamynstri barna er gott fyrir okkur að átta okkur á að það hefur margt breyst frá því við vorum börn. Börn í dag þurfa að hafa sterka sjálfsmynd, vita sín mörk og annarra og læra að standa með sér. Í dag ef þú ert mikið einn sem barn, þá er ekki svo að þú hafir einveruna fyrir þig eins og áður var þegar við vissum ekkert hvað aðrir voru að gera. Í dag gerast hlutirnir í beinni útsendingu á samskiptamiðlunum, sem hjálpar ekki ástandi þegar kvíði og einmanakennd grípa um sig.“

Kvíði algengur meðal barna

Jón segir ótrúlega mikið af börnum glíma við kvíða og ef hann vissi einfalda svarið við af hverju svo væri væri hann eflaust ekki að tala við blaðamann um það heldur skrifa um það bók þar sem málefnið væri ansi flókið.

„Það eru vísbendingar um að allar þær kröfur sem gerðar eru til lífsins sem og snjalltækin hafi áhrif, og þegar stór og flókin mál koma inn á borð til KVAN störfum við náið með fagaðilum, meðal annars Sálstofunni.“

Lykilatriðið að hans mati er að vera með skemmtileg námskeið. „Við hjá KVAN erum með skemmtileg námskeið og lausnir fyrir ungt fólk. Krakkarnir sem koma til okkar eiga það sameiginlegt að vera öll ótrúlega flott, hvert og eitt á sinn máta,“ segir hann að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál