Það kostar vilja og staðfestu að vera trúr

„Traust og trúnaður eru grundvallaratriði í hverju sambandi. Samt vitum við að bæði karlar og konur brjóta þennan trúnað. Kannanir sýna að ákveðinn hluti karla og kvenna hafa átt í ástarsamböndum samhliða sambúð eða hjónabandi. Fæstir í sambúð eru kannski hissa á þessu. Það kostar bæði vilja og staðfestu að vera trúr,“ segir séra Þórhallur Heimisson í sínum nýjasta pistli:

Og þó að bæði vilji og staðfesta séu fyrir hendi, þá dragast bæði karlar og konur að öðrum en maka sínum, gefa öðrum auga, daðra, „svona í mesta sakleysi“. Það væri kannski allt í lagi að viðurkenna þessa staðreynd, það eitt og sér myndi fyrirbyggja framhjáhald. Því oft er það einhver óljós spenningur sem er kveikjan að framhjáhaldinu, spenningur sem aftur breytist í samviskubit og vanlíðan hjá mörgum eftir að framhjáhaldið hefur átt sér stað. Á ýmsum tímabilum lífsins þramma margir í gegnum sprengjusvæði hvað þetta varðar, meðvitað og ómeðvitað. Freistingarnar leynast víða. Og margir framkvæma þá þvert á fyrri heit. Framhjáhald er eitt það versta sem komið getur fyrir samband og leiðir margt illt af sér. Það ætti enginn að hafa framhjáhald í flimtingum. Framhjáhald hefur eyðilagt allt of mikið bæði fyrir einstaklingum og heilu fjölskyldunum til þess.

Stundum halda menn því fram að hliðarspor í hjónabandinu sé nú bara ágætt og til þess fólgið að hleypa nýjum eldi í kulnaðar glæður. Aðrir segja að það sé jafnvel hollt og til marks um sjálfstæði parsins í sambandinu og umburðarlyndi. En þau pör sem hafa upplifað framhjáhald í sínu eigin sambandi myndu ekki lýsa því svona fjálglega. Framhjáhald er rótin að gagnkvæmri vantrú, afbrýðisemi og biturleika. Þegar traustið er rofið eiga flestir erfitt með að vinna sig út úr ástandinu sem skapast. Að halda áfram í sambandinu krefst gríðarlegrar vinnu.

Öll berum við ákveðnar væntingar til hjónabands og sambúðar. Við væntum þess t.d. að í hjónabandinu okkar munum við eignast maka sem elskar okkur og sýnir okkur vináttu. Við vonumst eftir tryggð og trúnaði í sambandinu okkar og eftir fullnægjandi kynlífi. En lífið verður sjaldan eins og væntingarnar sem við gerum okkur til þess. Og iðulega er það svo að þó að við komum inn í samband með okkar drauma og vonir, þá þekkjum við ekki til væntinga og drauma maka okkar.

Ástarbríminn og spenningurinn sem við fundum fyrir í upphafi sambúðarinnar eða þegar við fyrst urðum ástfangin minnkar með tímanum. Vaninn og grámygla hversdagsins fyllir dagana og næturnar með. Og flestir hafa í nægu að snúast. Börnin, vinnan, áhugamálin og heimilishaldið tekur allan tímann frá okkur og lítill tími er aflögu fyrir ástarsambandið. Þannig líður flestum á vissum tímabilum lífsins. En við getum vanist flestu og reynt að lifa af þessi erfiðu tímabil sem allir ganga í gegnum, meira að segja þó að það þýði að draumar okkar rætist ekki eins og við hefðum þó viljað. Þannig lifa margir lífi sínu, áfallalaust að mestu, við kaffiþamb og sjónvarpsafþreyingu. Kynlífið er slappt þegar best lætur en ekkert þess á milli. Hrynjandi hversdagsins gefur okkur öryggiskennd og tilgang með lífinu og það er okkur og börnunum okkar mikilvægt.

En eitthvað vantar…………..

Bæði konur og karlar geta meðvitað og ómeðvitað óskað sér innst inni annarrar tilveru en þeirrar sem hér var dregin upp. Hversdagslífið nægir ekki. Þau vilja lifa fjölbreyttara lífi, vilja hafa spennu og eftirvæntingu í tilverunni og spyrja sig efalaust oft yfir uppvaskinu, í röðinni í bankanum eða þegar börnin halda fyrir þeim vöku með gráti: „Var þetta allt og sumt sem lífið hafði upp á að bjóða?“

Lífsgildi mælast ekki aðeins í peningum heldur einnig í hamingju sambúðar. Hamingjuleitin er drifkraftur lífsins. Áhrif frá fjölmiðlum og auglýsingum ýta undir óánægjuna og trúna á að til sé eilíf hamingja og eilífur ástarbrími. Margir gefast upp á því að finna það sem þeir eru að leita að í því sambandi sem þeir eru í. Þeir upplifa þar aðeins bæði tilbreytingarleysi, einmanaleika og skort á skilningi leita því uppi annan félaga. Og þar með er framhjáhaldið staðreynd. Þráin eftir hlýju og spennu hrekur mann burt frá þeim sem ætti að vera manni næstur. Þannig hefur samfélag við vinnufélaga af gagnstæðu kyni orðið mörgum hjónaböndum ógnun, sérstaklega þar sem haldin eru makalaus vinnustaðapartý og veislur. Vinnufélaginn er alltaf hress og spennandi og gerir ekki þær kröfur sem heimilið gerir. Framhjáhald verður síðan að veruleika án þess að viðkomandi endilega hafi ætlað sér það. Eða hvað?

Það eru aftur til þeir sem í samtölum við prest segja að þeir hafi fyrst uppgötvað hvað það var sem þeir söknuðu í sambúð sinni þegar þeir héldu fram hjá. Þess vegna eru þeir í raun hissa á eigin framkomu. Um leið kenna þeir maka sínum um hvernig komið er, alla vega að hluta til, og segja: „Ég hef ekki fengið það út úr sambandi mínu við maka minn sem ég vildi. Þess vegna tók ég þetta hliðarspor.“

Hjónaband og sambúð getur orðið svo hversdagslegt fyrirbæri að makarnir fara að líta á hvor annan eins og hluta af innréttingunni. Allir hafa þörf fyrir að vera einhvers virði, að vera einhvers metnir, að eftir þeim sé tekið. Að hitta einhvern annan en makann sem hefur áhuga fyrir manni og hefur e.t.v. sömu áhugamál, getur verið spennandi og kitlandi. Þá getur maður líka talað um vandamálin heima fyrir án skuldbindinga, orðað það sem maður leggur ekki í að segja við maka sinn. Ef úr verður ástarsamband við þennan þriðja aðila, þá er makinn bara orðinn að enn stærra vandamáli, því þá bætist pukur og samviskubit við vandamálin sem voru fyrir í sambúðinni. Og þá er stutt í skilnaðinn og upplausn gömlu fjölskyldunnar.

Sú trú að makinn eigi að uppfylla alla drauma og vonir manns eyðileggur mörg sambönd. Margir segja aldrei frá væntingum sínum í sambúðinni en loka sig bara inni í skel þegar þessar óorðuðu væntingar uppfyllast ekki. Og þar með er parið læst í tilveru sem er ófullnægjandi fyrir báða aðila. Hvorugur þorir að orða hugsanir sínar af ótta við upplausn og deilur. Í staðinn leita menn út fyrir sambúðina í þeirri vissu að þar sé grasið grænna. Og það á við bæði í rúminu og á öðrum sviðum.

Þau eru ekki svo fá samböndin sem lenda í erfiðleikum vegna framhjáhalds þegar komið er fram á „miðjan aldur“. Þá er eins og vakni einhver þörf hjá sumum fyrir að fá staðfestingu á því að maður sé nú enn ungur og gjaldgengur. Þetta hefur verið kallað „grái fiðringurinn“ í gríni. Margir eiga erfitt með að sætta sig við að hrukkunum fjölgar, hárunum á höfðinu fækkar eða þau grána og bílhringir taka að hlaðast upp á vissum stöðum líkamans. Þetta á við um bæði konur og karla. Æskudýrkun samtímans ýtir undir þessa sjálfsmyndarkreppu hins miðaldra. Allir eiga að vera ungir, fallegir og eftirsóknarverðir. Auglýsingar skapa þá mynd af raunveruleikanum að verðleiki einstaklingsins miðist við útlit.

Ef síðan yngri karl eða kona gefur hinum miðaldra undir fótinn styrkist sá hinn sami í þeirri trú að „maður sé nú enn gjaldgengur“, einhvers virði. Það eru ófáir sem vilja sanna sjálfan sig með því að taka hliðarspor í hjónabandinu. En oftast kemur fljótlega í ljós að það er erfitt að lifa í einhverri ímynd sem ekki er maður sjálfur. Margir hafa þannig glatað blæði maka sínum og sjálfum sér þegar glansmyndin og nýjabrumið fer af sambandinu við ástkonu eða ástmann. Þá rennur upp það ljós að aldur segir ekki allt og útliðið ekki heldur og að makinn fyrrverandi var það sem í raun og veru gaf lífinu gildi. Því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Ýmsir upplifa hjónaband og sambúð sem bindingu er þeir telja að útiloki sig frá bjartari hliðum tilverunnar. Þessir hinir sömu óttast að verða háðir maka sínum og þar með auðsæranlegir og ósjálfstæðir. Að gefa sig þannig ástinni á vald veldur kvíða gagnvart afleiðingunum. Kannski hafa þeir áður farið illa út úr ástarsambandi. Svo eru líka þeir einstaklingar sem vilja ráða sér sjálfir í einu og öllu og hafa ekki áhuga á að gefa af sér í sambandinu. Þeir vilja aðeins njóta, fá eitthvað fyrir sinn snúð en vilja ekkert leggja af mörkum á móti. Samt hafa þeir ekki styrk til þess að taka frumkvæðið og slíta sambúðinni eða hjónabandinu. Hvað sem veldur, þá nota þeir þriðja aðila til þess að svíkja heit sín og brjótast þannig út úr sambandi sem þeir vilja ekki lengur vera þátttakendur í. Framhjáhaldið verður þá eins konar tæki, aðferð til að losa sig við maka sinn, fjölskyldu og skuldbindingar. Það versta sem þessir aðilar vita er sú staða sem kemur upp, þegar makinn þrátt fyrir allt vill „reyna áfram“.

Það er reyndar ekki hægt að vera í ástarsambandi og búa saman sem par án þess að verða háður maka sínum á einhvern hátt. Og það er reyndar alls ekki neikvætt, heldur getur það þvert á móti verið af hinu góða. Að elska er að gefa sig öðrum á vald. Þar með verður maður líka auðsæranlegur. Að elska er að treysta öðrum fyrir tilfinningum sínum. Það er ekki hægt að elska með skilyrðum.

En málin eru sjaldan eins einföld og sú mynd sem hér hefur verið dreginn upp af þeim sem ekki vill binda sig. Margir sem hafa haldið fram hjá maka sínum, bera þá reynslu með sér í gegnum tilveruna sem þunga byrði. Vonbrigðin með sjálfan sig og samviskubit gagnvart makanum verður að sári sem seint grær. Og framhjáhaldið verður sjaldan til þess að einfalda hlutina heldur þvert á móti magnar það upp þann vanda sem fyrir var. Og nú er auk þess kominn nýr aðili, jafnvel ný fjölskylda til sögunnar, þ.e. sá sem haldið var fram hjá með og öll hans mál.

Trúnaður er grundvallaratriði í hverri sambúð og hverju hjónaband eins og í öðrum samskiptum í lífinu. Ef við gerum okkur grein fyrir því, þá getur það gefið okkur tækifæri til að upplifa ríkt og heitt ástarsamband með þeim sem við höfum kosið að tilheyra og lifa lífinu með. Þannig getur ástin styrkst og staðist erfiðleikana sem enginn sleppur við. Og þá getum við auðveldlega staðist allar freistingar þegar þriðji aðili kitlar hégómagirndina. Þá fáum við líka kraft til þess að láta okkar eigin ákvarðanir ráða vali okkar í lífinu, líka ef við erum að því komin að missa stjórnina. Því þá veljum við að halda fast í það sem við eigum.

Og við gerum það fyrir okkur sjálf, fyrir maka okkar og fyrir fjölskyldu okkar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál