Ógleymanlegt vetrarbrúðkaup

Telma Halldórsdóttir og Eiríkur Vigfússon.
Telma Halldórsdóttir og Eiríkur Vigfússon.

Telma Halldórsdóttir er lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Eiginmaður hennar Eiríkur Vigfússon sem er efnafræðingur með MBA-gráðu er með ólæknandi áhuga á hjólreiðum að hennar mati og starfar sem verslunarstjóri hjá GÁP. Hjónin kynntust seint í lífinu en vissu frá upphafi að þeim var ætlað að vera saman. 

Hvenær var brúðkaupið ykkar hjóna haldið?

„Við giftum okkur hjá Sýslumanninum í Reykjavík 23. desember 2015 með okkar allra nánustu og héldum svo veislu 26. desember þar sem við vorum með brúðkaupsathöfn sem vinir okkar stýrðu. Þetta voru því eiginlega tvö brúðkaup hjá okkur.“

Stjúpsonurinn í stóru hlutverki

Hvernig var undirbúningurinn?

„Undirbúningurinn var skemmtilegur og afslappaður. Við ákváðum dagsetninguna með um árs fyrirvara eftir afar rómantískt bónorð hjá manninum mínum. Við vorum sammála um að Skíðaskálinn í Hveradölum væri hinn full-

komni staður fyrir vetrarbrúðkaup og eftir að hafa heimsótt hann þá skoðuðum við ekki einu sinni aðra staði. Við ákváðum fljótt að hafa vini okkar og Vigfús stjúpson minn sem hluta af athöfn sem var yndislegt. Þannig spilaði stjúpsonur minn á gítar lagið „Cant help falling in love with you“ þegar ég gekk inn gólfið með pabba og vinir okkar sáu um athafnastjórn, veislustjórn og að mestu um tónlistaratriði og var athöfnin og dagurinn enn ógleymanlegri fyrir vikið. Við vildum hafa þetta afslappað en elegant og það tókst fullkomlega.“

Varstu lengi að undirbúa?

„Ég get verið ansi skipulagsglöð og vorum við komin með gott excel-skjal yfir það sem þurfti að gera snemma í ferlinu. Þetta gekk því mjög áreynslulaust fyrir sig og var brúðkaupið nánast fullskipulagt hálfu ári áður en við héldum það. Við vorum dugleg að skipta með okkur verkum, þannig sá maðurinn minn alfarið um gestalistann og brúðkaupsbjór meðan ég sá um skreytingar og samskipti við þjónustuaðila svo ákváðum við saman vín, matseðil, tónlist og þess háttar.“

Var eitthvað sem kom á óvart?

„Þetta var enn skemmtilegra en ég hafði ímyndað mér og í minningunni eru þetta tveir mjög ólíkir en algjörlega ógleymanlegir dagar.“

Var í tveimur kjólum

Var vandasamt að finna þennan fallega kjól sem þú varst í?

„Mér tókst reyndar að kaupa mér tvo kjóla fyrir bæði brúðkaupin. Ég lagðist í heilmikla skoðun eins og flestar brúðir gera og ákvað að nota ferð til Seattle til þess að byrja að skoða kjóla. Þar hafði vinkona mín bent mér á heimasíðuna www.blueskybridal.com sem selur hönnunarkjóla sem hafa verið sýnishorn eða notaðir einu sinni með miklum afslætti. Þetta fannst mér alveg frábært enda bæði umhverfisvænt og gerði mér kleift að kaupa einstakan kjól sem er sá sem ég var í í Skíðaskálanum. Þetta var annar kjóllinn sem ég mátaði þar og ég var það hrifin að ég mætti í eina enn mátun en afboðaði aðrar þar sem ég gat ekki hætt að hugsa um hann. Kjólinn sem ég var í hjá sýslumani keypti ég á heimasíðunniwww.bhldn.com á útsölu, með því að sannfæra sjálfa mig um að ég hefði mikil not fyrir hann sem kokteil/veislukjól í framtíðinni. Hann hefur ekki verið notaður síðan. Það er reyndar gaman að segja frá því að þegar ég ákvað þennan mátunardag með vinkonu minni þá var hann óvart á afmælisdegi mannsins míns og er mér enn strítt á því.“

Gestirnir ógleymanlegir

Hvað lifir ennþá í minningunni frá brúðkaupsdeginum?

„Að vera umkringd svona miklum kærleika með okkar nánustu var hreint ógleymanleg stund. Á einu augnablikinu í athöfn í Skíðaskálanum þegar Selma vinkona söng lagið „Kærleikurinn“ með Unni Birnu Bassadóttur þá slokknuðu öll ljósin í salnum og allir gestirnir kveiktu á kveikjurum. Þessi stund myndaði ansi mikið ryk í augunum á mér. Vinur okkar náði líka æðislegu myndbandi af þessu sem ég hef horft ansi oft á.“

Er mikill munur að fara í gegnum lífið í heilögu hjónabandi að þínu mati?

„Kannski ekki í hversdagsleikanum, en mér finnst ofboðslega gaman að vera gift manninum mínum og hafa tekið þetta skref í okkar sambandi. Ég er líka lögfræðingur og meðvituð um að það eru ólík réttindi tengd sambúð og hjónabandi sem skipta máli.“

Trúir þú á æðri mátt?

„Já, ég geri það.“

Fókusera á það sem við kunnum að meta

Skipar hann sess í lífi ykkar hjóna?

„Maðurinn minn er ekki trúaður þannig að ég get ekki sagt það, en við erum þó sammála um grunngildin í lífinu, eins og þakklæti, virðingu og kærleik sem skipa stórt hlutverk í okkar lífi.“

Áttu góð ráð til að lifa í hamingjusömu hjónabandi?

„Mér finnst afar mikilvægt að fókusera á það sem við kunnum að meta í fari hvort annars í staðinn fyrir litla hluti sem engu máli skipta og kunna að fara í taugarnar á okkur. Að tala saman er líka lykilatriði. Við nálgumst líka allt sem teymi sem hefur gert okkur mjög sterk og komið okkur í gegnum erfiðleika. Eins erum við meðvituð um að gefa hvort öðru rými og fá að stunda eigin áhugamál og sinna vinunum. Við höfum bæði mikinn húmor og notum hann óspart í að stríða hvort öðru sem hjálpar að viðhalda neistanum. Svo bara að vera dugleg að vera góð við hvort annað og segja makanum hvað maður er alltaf skotinn í honum.“

Ljósmyndun mikilvæg

Eitthvað sem þú reynir að forðast?

„Að láta litla hluti fara í taugarnar á mér og að láta vandamál byggjast upp.“

Hvaða ráð gefur þú þeim sem eru í brúðkaupshugleiðingum?

„Látið af því verða og gerið þetta eins og þið viljið hafa þetta. Ekki spara í ljósmyndara eða brúðkaupsmyndband. Tíminn líður svo hratt að það er ómetanlegt að geta rifjað upp með þessum hætti.“

Eitthvað að lokum?

„Það er mjög mikilvægt að muna að njóta í öllu ferlinu og sérstaklega á brúðkaupsdaginn og muna að ef eitthvað klikkar þá er það bara krúttlegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál