Hnutu hvort um annað á þjóðhátíð í Eyjum

Kiddi og Eyja á brúðkaupsdaginn sinn.
Kiddi og Eyja á brúðkaupsdaginn sinn. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Eyja Bryngeirsdóttir giftist ástinni sinni, Kristjáni Þór Jónssyni, eða Kidda Big Foot eins og hann er oft kallaður, síðasta sumar. Það var viðeigandi að brúðkaupið færi fram um verslunarmannahelgina í Vestmannaeyjum því hjónin kynntust einmitt á þjóðhátíð árið 2013. 

Eyja er leikskólakennari og stundar meistaranám í stjórnun við Háskóla Íslands en Kiddi starfar í Rekkjunni ásamt því að vera þekktur plötusnúður. Verslunarmannahelgin 2013 var örlagarík en þá hnutu þau hvort um annað og eftir það varð ekki aftur snúið.
Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

„Við kynntumst á þjóðhátíð Vestmannaeyja 2013, nánar tiltekið á föstudagskvöldinu, þegar honum (eins og hann segir sjálfur frá) var boðið af frænda sínum í minnsta hvíta tjaldið í dalnum, sem var tjaldið mitt. Þar sat ég og varð strax skotin í honum enda fallegur með eindæmum og mjög skemmtilegur. Við vorum bara saman upp frá því, hittumst aftur næsta kvöld og svo koll af kolli. Helgina eftir þjóðhátíð skellti ég mér upp á land til þess að hitta hann og þá varð ekki aftur snúið. Ég og Birta dóttir mín fluttum svo frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur í ágúst 2014 og þá fórum við Kiddi að búa saman,“ segir Eyja.

Hvenær ákváðuð þið að ganga í hjónaband?

„Á þjóðhátíðinni tveimur árum eftir að við hittumst bað hann mig að giftast sér og ég sagði já. Það var í brekkunni á kvölddagskránni og Sálin, sem er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum, var að spila þjóðhátíðarlagið það árið,“ segir hún.

Vissuð þið strax hvernig brúðkaup þið vilduð halda?

„Já, ég held það bara. Það kom aldrei annað til greina en að gifta sig á fallegu eyjunni minni og auðvitað á þjóðhátíð þar sem hátíðin tengir okkur sterkum böndum og við erum bæði mikið þjóðhátíðarfólk. Við vorum þó aðeins að vesenast með hvernig við ætluðum að hafa athöfnina og veisluna, og fórum í nokkra hringi með það. Flestir Vestmannaeyingar eru mikið þjóðhátíðarfólk og hafa ýmsar hefðir og venjur tengdar hátíðinni. Við vildum að sjálfsögðu ekki koma neinum í vandræði með því að vaða yfir hefðir fólks þannig að þetta fór svona fram og til baka í höfðinu á okkur áður en við tókum endanlega ákvörðun.“

Eyja og Kiddi byrjuðu að skipuleggja brúðkaupið tveimur árum áður en það varð að veruleika og segir hún að það hafi verið gott að hafa nægan tíma.

„Ef ég á að segja eins og er þá er maðurinn minn mjög skipulagður og þar sem ég var á fullu í meistaranáminu mínu ásamt vinnu þá sá hann svolítið mikið um undirbúninginn. Hann elskar líka að undirbúa allskonar viðburði þannig að það hentaði bara vel,“ segir Eyja.

Eyja klæddist ákaflega fallegum kjól á brúðkaupsdaginn sinn.

Berglind Magnúsdóttir, klæðskera- og kjólameistari, eigandi Klæðskerahallarinnar, saumaði kjólinn.

„Berglind er móðursystir mín en svona meira eins og systir mín þar sem hún er bara þremur árum eldri en ég. Ég var alveg með ákveðnar hugmyndir um hvernig kjóllinn ætti að vera og úr varð þessi fallegi kjóll sem ég var ofboðslega ánægð með.“

Eyja og Kiddi giftu sig í Landakirkju í Vestmannaeyjum og séra Guðmundur Örn Jónsson gaf þau saman. „Athöfnin var æðisleg, létt og skemmtileg, það var mikið hlegið og svo söng dóttir okkar tvö lög í athöfninni.“

Eftir brúðkaupið var slegið upp veislu í garðinum heima hjá foreldrum Eyju í Dverghamrinum þar sem hún er alin upp.

„Við vorum með veislutjald í garðinum, notuðum svo pallinn, bílskúrinn og fallegu lóðina þar sem náttúran fékk að njóta sín.“

Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Þegar Eyja er beðin um að lýsa brúðkaupsdeginum lifnar yfir henni.

„Hann var frábær. Rómantískur, skemmtilegur og heppnaðist í alla staði mjög vel. Ég held að ég hafi brosað hringinn allan daginn. Um morguninn fór ég í þetta hefðbundna, förðun og greiðslu. Ég fór svo til systur minnar þar sem Berglind frænka, sem saumaði kjólinn, var og hjálpaði mér í kjólinn og fínpússaði. Við systur og frænkur fengum okkur svo einn hristan Baileys og slökuðum á. Við pabbi fórum í kirkjuna og athöfnin var kl. 12:00. Eftir athöfnina fórum við í myndatökuna og veislan byrjaði svo kl. 17:30. Við ákváðum að hafa veisluna kl. 17:30 þar sem setning þjóðhátíðar er á föstudeginum kl. 14:30. Með því móti gátu þeir sem vildu farið á setninguna og notið sín þar áður en þeir komu í veisluna. Það var auðvitað smá áhætta að vera með veisluna úti fram eftir nóttu en veðrið var yndislegt og eyjarnar skörtuðu sínu fegursta. Auðvitað vorum við með plan B ef það yrði rok og rigning, en sem betur fer þurftum við ekki að nota það. Við vorum svo ánægð hversu margir gáfu sér tíma til þess að mæta en það var eiginlega 100% mæting. Það er ekki auðvelt að halda brúðkaup á þjóðhátíð þar sem allir þurftu að vera búnir að panta með Herjólfi í mars svo þeir fengju nú örugglega far og það er einnig mjög erfitt að fá gistingu í Eyjum á þessum tíma. En allt heppnaðist þetta nú. Við ætluðum reyndar að gifta okkur ári fyrr en seinkuðum því vegna þess að við vorum svo sein að senda út boðskort með tilliti til alls þessa. Þó svo að brúðkaupsdagurinn hafi verið á föstudeginum 4. ágúst vorum við með veislu alla helgina. Á laugardeginum buðum við upp á kjötsúpu. Þá stjórnaði vinur okkar spurningaleik í anda pub quis og margir sem höfðu verið í veislunni deginum áður komu og skemmtu sér með okkur. Á sunnudeginum vorum við með sameiginlegt grill. Þá var einnig margt um manninn, við vorum með tvö tunnugrill þannig að hver og einn kom með sitt kjöt og grillaði fyrir sína fjölskyldu. Við fengum gítarleikara til þess að koma, syngja fyrir okkur og stjórna fjöldasöng. Það má því segja að þetta hafi verið þriggja daga brúðkaupsveisla þar sem var mikið fjör og gaman. Hvert kvöld var svo toppað með skemmtun í dalnum.“

Ljósmyndarinn Sigurjón Ragnar, vinur hjónanna, myndaði þau um alla eyju og eiga hjónin því ákaflega fallegar brúðkaupsmyndir.

Þegar Eyja er spurð út í veitingarnar, segir hún að Guðjón, bróðir Kidda, sé kokkur í Svíþjóð og hafi eldað matinn.

„Hann planaði og sá um matinn ásamt góðum vinum í samráði við okkur. Eins og í öllu sem viðkom brúðkaupinu okkar voru yndislegir vinir og ættingjar sem hjálpuðu okkur að bera fram matinn. Þetta voru allskonar smáréttir sem fólk gat borðað af servéttu. Þar sem við vorum með veisluna úti og þetta var ekki veisla þar sem boðið var til borðs, sáum við fram á að erfitt yrði að vera með diska og hnífapör. Í eftirrétt voru svo þrjár tegundir af kökum sem vinir og ættingjar höfðu bakað. Við buðum upp á rautt, hvítt og bjór alla dagana. Við vorum með það sem við kölluðum bar-bar. Þar vorum við með allt sem viðkemur kokteilblöndun en fólk kom með sitt sterka vín sjálft til þess að blanda sér kokteila. Seinna um kvöldið var boðið upp á kakó og Stroh,“ segir Eyja.

Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Hvað fenguð þið í brúðargjöf?

„Við báðum fólk um að vera ekkert að gefa okkur gjafir. Okkur þætti bara vænt um að fólkið kæmi og væri með okkur alla helgina. Það er mikill kostnaður að fara á þjóðhátíð með heila fjölskyldu og við vissum að fyrst fólk var að koma á annað borð mundi það vera alla helgina. Okkur fannst það frábært. En fólk hlýddi okkur nú ekki alveg þannig að við fengum nokkrar yndislegar gjafir,“ segir hún.

Hvað stóð upp úr á stóra deginum?

„Að Kiddi minn sagði já,“ segir hún og hlær og bætir við: „En einnig allir yndislegu vinirnir og ættingjarnir sem hjálpuðu okkur að láta þetta verða að veruleika. Á meðan við vorum í myndatöku eftir athöfnina fóru margir heim og lögðu lokahönd á veislusvæðið. Þegar maður er með útiveislu er hellingur sem þarf að gerast samdægurs og þar sem athöfnin var snemma þurfti að gera margt að henni lokinni. Góða veðrið var líka hluti af því að þetta fór allt eins og við vorum búin að skipuleggja.“

Hvers vegna skiptir máli að vera í hjónabandi?

„Frá mínum bæjardyrum séð þá er það þessi tilfinning að tilheyra einhverjum, hann er maðurinn minn og ég get stólað 100% á hann. Við höfðum hvorugt verið gift áður og bara vissum að þetta var eitthvað sem við vildum gera. Mér finnst æðislegt að vera konan hans Kidda og segi með stolti að hann sé eiginmaðurinn minn. Svo má líka tala um peninga og eignir... það er bara ekki eins rómantískt. En þegar maður blandar saman tveimur fjölskyldum þar sem börn og eignir koma við sögu er mikilvægt að hafa allt á hreinu,“ segir hún.

Ertu með einhver ráð fyrir verðandi brúðhjón?

„Njótið dagsins, hann er svo fljótur að líða. Allur þessi undirbúningur og svo er þetta búið á nokkrum tímum. Þó svo að eitthvað klikki þá er það bara allt í lagi. Í veislunni eru bara vinir og ættingjar sem eru að fagna deginum með ykkur en ekki að spá í hvort það vanti eitthvað af skrauti eða eitthvað á veisluborðið. Og fyrir framtíðina, hlæið saman. Það er svo mikilvægt að hafa gaman af lífinu og geta hlegið að því sem er skemmtilegt en einnig að því sem miður fer. Það er eitt sem við Kiddi höfum talað um að við sjáum eftir varðandi brúkaupsdaginn. Það er að við hefðum viljað láta taka athöfnina og veisluna upp þannig að við gætum horft á það seinna.“

Ljósmynd/Sigurjón Ragnar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál