„Er orðin þreytt á að detta í það“

Stundum getur djammið verið orðið gott.
Stundum getur djammið verið orðið gott. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Hæ hæ.

Ég er með eina spurningu sem snýr að félagslífi mínu. Þannig er mál með vexti að ég hef verið í sama félagsskapnum frá því ég var unglingur. Þetta eru frábærar stelpur sem mér þykir ótrúlega vænt um. Hins vegar hef ég tekið eftir því að við sem hópur erum bara að auka við djamm og drykkju í stað þess að hægja á okkur og skoða alls konar hluti. Sem dæmi þá erum við með það fast að hittast um helgar, fara á skemmtistaði og detta í það. Mér finnst það ótrúlega gaman á meðan á því stendur en er alltaf með bömmer eftir á og finnst það gera lítið fyrir mig þegar ég horfi á sunnudaginn. Ég er 25 ára og langar í kærasta og öðruvísi líf, en vil samt alls ekki missa af vinkonunum sem mér þykir ótrúlega vænt um. Eins hef ég tekið eftir því að strákarnir á þessum stöðum eru ekki eins og sá sem mig langar að eyða lífinu með. Ertu með ráð?

Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi, gefur lesendum Smartlands ráð.
Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi, gefur lesendum Smartlands ráð. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Sæl og takk fyrir frábæra spurningu.

Ég held að við göngum allar í gegnum það að breytast og þroskast og stundum fer maður fram úr vinahópnum sínum og stundum verður maður eftir á.

Það sem ég hef tekið eftir með vinahópa sem eru þéttir og hafa haldist í gegnum árin er að þar á maður félaga sem þekkja mann betur en margir aðrir. Þar getur maður verið maður sjálfur og treyst því að í þessum hópi njóti maður sannmælis og stuðnings.

Þegar ég les yfir bréfið frá þér finnst mér þú vera afar lánsöm, þar sem lífið hefur gefið þér ákveðinn karakter og þú virðist vera að rækta það með þér þrátt fyrir ungan aldur. Að langa í eitthvað meira út fyrir það samfélag sem við erum í hverju sinni er hollt að mínu mati, enda á hver og ein ykkar í þessum félagsskap að geta gert það sem hana langar og koma svo reglulega aftur inn í hópinn. Það hjálpar hópnum að vaxa í alls konar áttir.

Við erum sammála þegar kemur að því að velja sér maka. Ég er á því að þú getir fundið frábæran dansfélaga, vin og jafnvel tímabundinn kærasta á þeim stöðum sem fólk fer á reglulega. En hversu áhugavert er að hitta lífsförunaut á öðrum stöðum? Einhvern sem heimsækir sömu söfn og þú gerir, jafnvel einhvern sem drekkur ekki áfengi og er á sama máli og þú að nenna ekki að stunda staðina í náinni framtíð?

Það sem ég myndi ráðleggja þér að gera er að skoða öll mynstur sem þú ert í fyrir aðra. Sem dæmi, prófaðu að sleppa drykk þegar þú ferð út með stelpunum, til að koma í veg fyrir hausverkinn um helgar. Það að vera tímabundið í bindindi frá hlutum sem gera lítið fyrir mann er frábær áskorun. Ekki reyna að fá allan vinahópinn með þér í átakið, það er of tímafrekt. Byrjaðu á þér. Eins mæli ég með því að þú prófir að fara ekki út eina helgi, gerir nákvæmlega það sem þig langar og kynnist þér sjálfri betur. Þá verður þú tengdari þér og jafnvel færari í alls konar samskipti ef þú heldur áfram að þróa þennan hæfileika jafnt og þétt með árunum.

Ég sem dæmi prófaði að hætta að drekka í 4 vikur, bætti síðan við öðrum fjórum vikum og áður en langt um leið tók ég þá ávörðun að vín væri ekki fyrir mig. Það var ekkert dramatískt við þessa ákvörðun. Ekki frekar en þegar ég ákvað að hætta að borða sykur. En það sem ég komst að hægt og rólega er að ég var farin að standa í ljósinu og komst alltaf skrefinu nær því að verða besta útgáfan af mér. Hlutir hættu að stjórna mér í auknum mæli og  ég fékk margar klukkustundir af vellíðan í gjöf fyrir að þora að breyta til.

Skoðaðu allar tilfinningar sem koma upp þegar þú tekur þér tíma fyrir þig. Eins mæli ég með að lesa bækur, prófa nýja hluti eins og sjósund og fleira. Það sem mér fannst magnað í þessu ferðalagi hjá mér var hversu góður vinur ég varð fyrir gamla vinahópinn minn. Þótt ég væri ekki alltaf með þeim þá hafði ég eitthvað fram að færa þegar ég mætti reglulega aftur inn í hópinn. Eins fékk ég sömu tilfinningu þegar ég hætti að drekka og þegar ég hætti að borða sykur. Ég velti því fyrir mér: Verður lífið þess virði að lifa því ef ég fer ekki lengur út að dansa? Þegar ég hætti að borða kökur? Svarið var einfalt í mínu tilfelli. Lífið varð frábært! Miklu betra en áður. Vegna þess að ég þurfti að glíma við mig og gamlar hugmyndir sem ég hafði sem ég var að vaxa upp úr.

Gangi þér vel mín kæra og leyfðu okkur að fylgjast með þér á þinni vegferð. Ég vona að þú munir halda áfram að vaxa og dafna og gerir hlutina út frá þínum forsendum sem lengst í lífinu.

Lesendur eru hvattir til að senda spurningar á smartland@mbl.is. Fyllsta trúnaði er heitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál