Hvernig finn ég framtíðarmaka?

Það getur verið ótrúlega gaman saman í löngum samböndum þegar …
Það getur verið ótrúlega gaman saman í löngum samböndum þegar fólk öðlast hæfileikan til að falla fyrir hvort öðru aftur og aftur. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Á Smartlandi starfa nokkr­ir ráðgjaf­ar sem leit­ast við að gefa les­end­um góð ráð. Eft­ir­far­andi bréf barst á dög­un­um frá les­anda sem velt­ir fyr­ir sér hvernig hún geti fundið sér framtíðarmaka. Ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjaf­inn El­ín­rós Lín­dal gef­ur ráð.

Hæ hæ,

Mig langar svo að vita hvað er leyndarmálið á bakvið langtímasambönd? Ég er búin að vera ein lengi og svo hef ég kynnst nokkrum mjög áhugaverðum mönnum sem ég hefði verið til í að skoða að fara í samband með. En ég er ekki alveg að ná utan um hvað þeir eru að spá?  Þeir koma sterkir inn í fyrstu en svo er eins og þeir viti ekki alveg hvað þeir eigi að gera.

Ég er búin að prófa Tinder og þar er maður bara heppinn ef maður þekkir strákana af profile myndunum. Þeir eru voðalega sleipir í fyrstu, daðra og svo framvegis, en síðan þegar ég hitti þá geta þeir sumir varla talað. Ég hef farið á nokkur Tinder date og ég gæti skrifað um þau bók. Einn mætti örugglega búinn að drekka 7 glös fyrir stefnumótið. Annar mætti á svæðið til þess eins að tala um fyrrverandi kærustuna sem var að hætta með honum. Sá þriðji vildi taka einn drykk og fara svo bara í bólið, vildi vita hvort við pössuðum saman þar áður en sambandið færi lengra! Hvaða samband spurði ég?

Ég held ég líti bara ágætlega vel út, hef reyndar alltaf elskað að búa ein og var ung búin að átta mig á því að mig langaði að láta ferilinn og mig ganga fyrir í lífinu. En hvert er leyndarmálið við langtímasambönd? Er ég að gera eitthvað rangt að vilja kynnast mönnum áður en ég stofna til sambands eða sef hjá þeim? Hvernig er þetta stefnumótadæmi að virka hér?

Kær kveðja, ein sem er tilbúin í samband en ekki hvaða samband sem er.

Elínrós Líndal NLP einstaklings- og fjölskyldu ráðgjafi.
Elínrós Líndal NLP einstaklings- og fjölskyldu ráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæl og gaman að heyra frá þér!

Mér heyrist þú á góðum stað til að hitta framtíðarmanninn þinn og örugglega ertu frábær viðbót við Tinder samfélagið. Eins vil ég segja vel gert hjá þér að vera búin að lifa lífinu á þínum forsendum, kynnast þér og þínum löngunum og langa að taka næsta skref.

Þegar við verðum ástfangin og stofnum til sambands eru margir á því að við verðum ástfangin af þeim sem við erum með, en einnig af okkur í sambandinu. Það myndast ákveðið „high“ í byrjun í sumum samböndum, en alls ekki í öllum. 

Mig langar að hvetja þig í að vera dugleg að vinna í þér andlega, því að mínu mati þá er grundvallaforsenda þess að vera í góðu langtíma sambandi að falla aftur og aftur fyrir maka okkar og ekki síst okkur sjálfum í sambandinu.

Mig langar að útskýra þetta nánar. Þegar nýja brumið er farið af samböndum lenda margir í því að sitja uppi með maka sem er ekki alveg eins og þeir héldu og svo með sjálfan sig eins og þeir eru. Sumir vilja meina að á þessum stað séu sambönd í hættu, hvort heldur sem er eftir 1 ár, 1,5 ár eða lengri tíma. Þá er nauðsynlegt að geta farið í æfingar sem hjálpa okkur að falla aftur og aftur fyrir hvort öðru, sérstaklega okkur sjálfum í þessu sambandi. 

Margir fara inn í sambönd með bundið fyrir augun. Ná sér í einhverskonar hylki sem þeir vilja svo breyta. Þetta er fólk sem segir: „Kona mín er frábær, ef hún væri bara ekki svona meðvirk, eða aldrei heima á kvöldin.“ Svo byrjar tuð, nagg, rifrildi og fleira. 

Ef þú heldur áfram að fara þessa leið sem þú ert að fara, að kynnast manneskjunni virkilega vel áður en þú spáir í að stofna til sambands með henni. Þá munu án efa þeir sem eru að flakka inn og út úr sambandum reglulega, gefast upp á þér fljótt (vanalega af því þeir eru komnir með leið á sér í sambandinu) og eftir munu standa persónuleikar sem eru líkari þér. 

Eins þarftu að skoða hversu mikið þú ert til í að deila lífi þínu með öðrum. Í byrjun gætir þú viljað gera það að fullu, en þar sem þú ert vön að vera ein þá máttu gera ráð fyrir að lífið þitt mun breytast helling. Fólk er að mínu mati frábærir speglar á okkur sjálf. Jafnframt tel ég að með réttum aðilanum í langtímasambandi geta tveir einstaklingar haft áhrif á hvort annað til hins betra. En það gerist aldrei  með reglum, boðum og bönnum. Láttu mig vita það!

Það gerist þegar við erum tilbúin að sleppa tökunum, vera auðmjúk og getum verið án sambandsins, þó við veljum að vera í því, aftur og aftur.

Í öllum samböndum kemur eitthvað upp á. Lífið er verkefni að sjálfsögðu. Ég er á því að þú munir hitta áhugaverða einstaklinga þegar rétti tíminn er kominn fyrir þig. Kannski í dag, kannski á morgun eða á næsta ári hver veit. Stattu í ljósinu og traustinu. Þá koma góðir hlutir fljótandi til þín! já og svo er alltaf gaman að hitta fólk í sundi, bókasafni, út í búð og á fundum svo eitthvað sé nefnt. 

Gangi þér vel og já skrifaðu bók! Ég myndi vilja lesa hana. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu á elinros@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál