Er í lagi að kalla samstarfsaðila sexý?

Eftir að hafa lesið skilaboð eiginkonu sinnar við yfirmann sinn …
Eftir að hafa lesið skilaboð eiginkonu sinnar við yfirmann sinn varð hann að leita ráða hjá Valdimar Þór Svavarssyni ráðgjafa hjá Fyrsta skrefinu. mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefið svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá óöruggum eiginmanni sem finnst yfirmaður eiginkonunnar vera að fara yfir mörk. 

Sæll Valdimar

Ég komst að því um daginn að konan mín er búin að vera í samskiptum við yfirmann sinn. Hann er 20 árum eldri og hafa þau samskipti átt sér staði í gegnum samfélagsmiðla í laumi. Ég sá eitthvað af þessum skilaboðum og flest voru bara um daginn og veginn. Eitt sinn sendi hún honum mynd af sér í sundfötum og hann svarað henni til baka að myndin væri „töff og sexý“. Hún leggur áherslu á að hann sé að meina að myndin sé það, ekki hún sjálf. Síðan sendir hann henni að hann sakni hennar þegar hún er ekki í vinnunni og hlakki til að sjá hana og hún segir sömuleiðis. Hún segir að þau séu bara vinir og ég sé að gera of mikið úr þessu og þess vegna hafi hún leynt þessu. Þarf ég að hafa áhyggjur af þessu? Eru þetta heilbrigði samskipti?

Kveðja, X

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. mbl.is/Árni Sæberg

Góðan daginn og takk fyrir þessa áhugaverðu spurningu.

Stutta svarið við spurningunni er já, þetta er eitthvað sem er eðlilegt að hafa áhyggjur af og nei, þetta eru ekki eðlileg samskipti. Miðað við þína hlið á málinu þá er hægt að tala um framhjáhald eða í það minnsta fyrstu skrefin í þá átt. Það er mismunandi hvað fólk telur vera framhjáhald og mjög mismunandi hvað hver og einn telur að sé eðlilegt eða í lagi í sambandi við samskipti við aðra utan sambandsins sem þeir eru í. Sumir vilja meina að eingöngu sé um framhjáhald að ræða þegar samband aðila verður líkamlegt á einhvern hátt. Aðrir líta svo á að um leið og einhver samskipti eru farin að eiga sér stað þar sem verið er að ýja að einhverju sem snýr að kynlífi, sambandi eða öðru sem snýr að nánum samböndum, þá sé um framhjáhald að ræða. Skiptir þá ekki  máli hvort þessi samskipti eigi sér stað maður á mann eða á rafrænan hátt, t.d. á Facebook, Skype, Snapchat eða öðrum miðlum. Þegar talað er um framhjáhald þá er það einfaldlega þannig að ef þú átt í sambandi við einhvern aðila og ákveður að leyna því fyrir maka þínum, þá er það trúnaðarbrot og framhjáhald ef samskiptin eru á þeim nótum.

Þú segir að samskiptin hafi verið „í laumi“ og að konan þín hafi valið að leyna samskiptunum fyrir þér, þetta eru hvoru tveggja gildar ástæður til að segja að þarna sé um framhjáhald að ræða. Trúnaðarbrot í samböndum eru afar slæm og valda öllu jafnan miklum sársauka hjá þeim sem upplifa slíkt. Ekkert getur réttlætt framhjáhald. Ef sambandið okkar er ekki eins og við viljum hafa það, þá er eðlilegast að gera sitt besta til að vinna í því og leita leiða til þess að það sé innihaldsríkt og gott. Ef allar leiðir bregðast í slíkri vinnu er eðlilegt að skoða þann möguleika að ljúka sambandinu og gera það þá á heiðarlegan hátt, áður en farið er að skoða aðra möguleika. Í hinum fullkomna heimi væri þetta almenn regla en raunveruleikinn er sá að trúnaðarbrestir og framhjáhöld eru mjög algeng í umræðunni þegar kemur að erfiðleikum og áföllum í samböndum.

Það er siðferðilega rétt að gæta trúnaðar í parasambandi og að bera virðingu fyrir samböndum annarra. Það ríkir sérstök ábyrgð á herðum þeirra sem eru yfirmenn, stjórnendur og allir fagaðilar sem vinna með fólki, að fylgja ýtrustu siðareglum á þessu sviði og koma fram af heiðarleika. Konan þín ber alfarið ábyrgð á sínum þætti í málinu og sjálfsagt að setja spurningarmerki við það að senda yfirmanni sínum mynd af þessu tagi. Yfirmaðurinn ætti líka að setja skýr mörk á öll slík samskipti og taka ekki þátt í þeim.

Spurningin sem eftir situr er hvað þú vilt gera í þessari stöðu og hvort þú sættir þig við trúnaðarbrot af þessu tagi. Allir geta gert mistök og ekkert því til fyrirstöðu að vinna að sambandinu þó svo að svona mál hafi komið upp. Ég mæli með að fá aðstoð pararáðgjafa í slíka vinnu. Til þess að vinnan skili árangri þarf vilji beggja að vera til staðar til þess að sinna sambandinu, samkomulag þarf að vera um hvað er rétt og rangt í samskiptum við aðra og fullkominn heiðarleiki þarf að ríkja í framhaldinu.

Gangi ykkur vel í framhaldinu!

Kær kveðja,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál