„Oft algjörlega dofinn“

Þórður Jörundsson er ósköp venjulegur strákur með tilfinningar að eigin …
Þórður Jörundsson er ósköp venjulegur strákur með tilfinningar að eigin sögn. Ljósmynd/skjáskot Facebook

Þórður Jörundsson, gítarleikari hljómsveitarinnar Retro Stefson, segist vera venjulegur strákur með tilfinningar. Hann er yfirleitt í góðu skapi og sjaldan reiður við annað fólk. Reyndar eiginlega aldrei. Þegar hann kafaði dýpra ofan í það þá áttaði hann sig á því að honum líður ekkert alltaf. Heldur er oft bara algjörlega dofinn. 

Svona hefst lýsing á verkefni Þórðar sem er hluti af útskriftarverkefni hans í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands. Þórður vildi leggja sitt á vogaskálarnar til að efla unga stráka til að tala um tilfinningar sínar. 

„Hæ ég heiti Þórður Jörundsson og mig langar að segja þér frá verkefni sem ég er búinn að vera að vinna. Síðustu ár hef ég stundað mikla sjálfskoðun. Ég hef leitað í fortíð mína til að skilja gömul samskiptamynstur og reynt að greina hver ég er og hvernig ég virka. 

Það hefur gengið misvel. En ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er frekar venjulegur náungi sem líkist vinum sínum og passa vel inn í flesta hópa. Ég er yfirleitt í góðu skapi og er sjaldan reiður við annað fólk. Reyndar eiginlega aldrei. Þegar ég kafa dýpra ofan í það þá átta ég mig á að mér líður ekkert alltaf. Heldur er ég oft bara algjörlega dofinn. 

Ég hef rætt þetta mál við stráka vini mína og það könnuðust flest allir við þetta ástand. Við eigum auðvelt með að skilja einfaldar tilfinningar eins og gleði eða reiði. En miklu erfiðara með að greina það sem er á milli. 

Ég fór inn í þetta verkefni með þetta vandamál sem kveikju. Hvernig getum við strákar fundið leiðir til að auka næmni okkar og skilning á okkar eigin tilfinningum?“

Hvert hefur verkefnið tekið þig?

„Þetta hefur gefið mér mikla von um að strákar geti orðið miklu næmari og þannig fundið betur til samkenndar og samúðar með öðru fólki. Það er grundvöllurinn að því að rækta gott samfélag.“

Hvað ætlar þú þér með þetta?

„Hugmyndin er að þróa þetta verkefni enn frekar og koma því á þann stað að aðrir fagaðilar geti stýrt svipaðri vinnustofu með áherslur á sín áhugamál í tengslum við áhugamál drengjanna. Sú vinna hefst næsta haust og er ég gríðarlega spenntur fyrir því.“

Skapandi vinnustofur, er það framtíðin?

„Það skiptir kannski ekki öllu máli hvað við erum að gera en það örvar vissulega margar góðar stöðvar í heilanum að vinna skapandi vinnu og blanda saman umræðum og vinnu.“

Þórður Jörundsson gítarleikari Retro Stefson útskrifaðist á dögunum úr vöruhönnun …
Þórður Jörundsson gítarleikari Retro Stefson útskrifaðist á dögunum úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju að búa til hluti til að opna sig tilfinningalega?

„Það tengist mínu fagi sem vöruhönnuði og einnig þeim tíðaranda sem ríkir núna. Strákarnir sem ég var að vinna með hafa allir brennandi áhuga á tísku og svokölluðum „Merch kúltúr“. Þess vegna urðu þessir hlutir til. Hlutir sem ég hannaði fyrir þá sem áminningu um tilfinningalífið.“

Að hverju komstu við vinnslu þessa verkefni?

„Að við verðum að vera duglegari að rækta þessa hlið í fólki og skólakerfið verður að fara að einbeita sér að því að rækta einstaklinga sem eru tilbúnir í að takast á við hluti sem við þekkjum ekki. Þessir krakkar eru ekkert endilega að fara að vinna við þau hefðbundnu störf sem við þekkjum í framtíðinni. Skólakerfið í dag finnst mér vera að hugsa of mikið um að fylla eitthvað ílát af upplýsingum í stað þess að einbeita sér að því að styrkja ílátið sjálft svo það haldi vatni. Það er nefnilega miklu verðmætara að geta unnið úr upplýsingum á gagnrýnin hátt heldur en að vera einhver alfræðiorðabók sem skilur ekki neytt í öllum upplýsingunum. En vonandi munu þessir hlutir breytast og verða stærri partur af menntakerfinu.“

Það verður hægt að nálgast vörurnar úr þessu verkefni innan skamms á Instagram.

T-Shirt 🔩

A post shared by Amicos Non Ficta (@amicos_non_ficta) on May 8, 2018 at 10:38am PDT

We like printing

A post shared by Amicos Non Ficta (@amicos_non_ficta) on May 8, 2018 at 10:35am PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál