Þegar atvinnumissir verður gjöf

Hvað myndir þú starfa við ef þú þyrftir ekki að …
Hvað myndir þú starfa við ef þú þyrftir ekki að búa til peninga með vinnu þinni? Ljósmynd/Thinkstockphotos

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem velt­ir fyr­ir sér hvað hún eigi að gera tengt vinnumálunum sínum. Hún missti vinnuna í fyrra og hefur ekki fundið sér nýja vinnu. Hún finnur fyrir höfnun og vanlíðan.

Sæl Elínrós.

Ég man eftir að hafa lesið eitthvað um þína eigin reynslu við að missa vinnu og datt þess vegna í hug að senda á þig spurningu þessu tengt.

Málið er að ég er vel menntuð, kona á besta aldri. Ég hef starfað innan sömu greinarinnar í 15 ár, sem er karllæg grein þar sem mikið er lagt upp úr löngum vinnutíma, ferðalögum og fundum. Launin eru góð í greininni en þegar kemur að tilfinningum, eða áföllum eins og í mínu tilfelli þá finn ég hvað hlutirnir eru skakkir.

Ég missti vinnuna mína í fyrra, þar sem fyrirtækið var að hagræða og breyta. Það kom mér á óvart hversu nærri mér ég tók þessa uppsögn. Mér leið eins og fólk lýsir þeirri reynslu að fara í gegnum skilnað. Ég tók þessu sem höfnun og finn að ég er búin að fara í gegnum nokkur skeið tilfinninga.

Núna er ég í miklum ótta og yfir mig hellist sú tilfinning reglulega, að ég muni ekki fá góða vinnu aftur. Ég hef sótt um vinnu reglulega þegar ég sé eitthvað auglýst, jafnvel vinnu sem ég er með of mikla menntun fyrir. En mér líður eins og allar dyr séu lokaðar. Ég tek þessu ótrúlega persónulega og er með lítið sjálfstraust vegna þessa. Við hjónin erum ágætlega vel stæð, svo ég get farið í gegnum þetta tímabil lengur. En ég er andlega á þrotum. Þetta hefur áhrif á börnin mín, manninn minn og auðvitað mig. Ég er farin að forðast vini mína sem spyrja mig í hvert skipti sem við hittumst, hvernig gangi. 

Ég er alveg föst og finnst ég hafa reynt allt. Ertu með ráð?

Kærar, A

Elínrós Líndal er ráðgjafi með meðvirkni og fíknsjúkdóma sem sérgrein.
Elínrós Líndal er ráðgjafi með meðvirkni og fíknsjúkdóma sem sérgrein. Eggert Jóhannesson

Sæl A, ég er með ráð.

Í fyrstu langar mig að segja þér að ég skil hvernig þér líður. Þú ert ekki ein. Ég man þegar ég fór í gegnum þetta tímabil að ég hugsaði: „Ég vona að ég eigi eftir að komast út úr þessu tímabili sterkari. Þannig að reynslan mín geti orðið styrkur fyrir einhvern annan.“

Ég þakka þér fyrir að senda mér bréfið svo ég geti komið því sem ég lærði áfram á þig.

Ég missti vinnunna á mjög óheppilegum tíma í mínu lífi. Þannig að fjárhagslega þurfti ég að læra mjög margt nýtt. Ég upplifði ótta eins og þú talaðir um, stundum átti ég erfitt með það eitt að draga inn og út andann, svo mikla höfnun, óöryggi og vanlíðan upplifði ég á fyrstu stigum þessa tímabils.

Þannig að þegar þú talar um að uppsögn sé erfiðari en þú áttir von á þá er ég þér hjartanlega sammála. Ég er þakklát fyrir að þú skrifaðir mér þetta bréf, vegna þess að ég held að þú sért ekki ein í þessari stöðu. 

Mín saga var þannig að ég fór í gegnum nokkur stig eftir að hafa misst vinnuna mína. Fyrst var ég dofin, síðan varð ég sorgmædd, þar næst kom sektarkenndin og skömmin og síðan reiðin. Óttinn var aldrei langt undan hjá mér á öllum stigum sem og samanburður við aðra. En síðan kom sáttin og batinn sem kom mér í kærleikann. Þetta litla ljós við enda ganganna sem við leitumst við að finna í öllum okkar verkefnum.

Mér leið eins og í frjálsu fyrst eftir að ég missti vinnuna, í raun alveg þangað til að ég ákvað að taka ábyrgð og taka þá afstöðu að ég væri að lenda í þessu út af einhverju sem ég ekki skildi þá og þegar. Ég tók einn dag í einu og ákvað að hann væri nákvæmlega eins og hann ætti að vera. Ég þyrfti að breytast og setja meiri ást í vinnumálin mín.

Við erum ung þegar við veljum okkur menntun og atvinnu. Allt of margir vinna við eitthvað sem þeir brenna ekki fyrir. Eins er vinnu umhverfið okkar oft ekki í takt við gildin okkar, eða greinin sem við störfum í ekki með þau gildi sem við viljum upphefja. Ég komst að þessu við að hlusta á „Tilgang lífsins“ eftir Viktor Frankl. Þú getur rétt ímyndað þér staðinn sem ég var á þarna á þessum tíma. Maðurinn bjó til Logotherapy og lifði af í útrýmingarbúðum nasista með því að breyta afstöðu sinni til málanna. Þetta var eina efnið sem ég tengdi við á þessum tíma.

Ég hjó í eitt sem er að þú varst í mjög karllægum geira. Þessi setning segir mér að þér hafi ekki liðið sem hluti af greininni. Eins talar þú um mikið vinnuálag og fleira í þeim dúrnum. Ég finn þegar ég les bréfið þitt að þú ert mikið ein, ert að taka þig út úr samskiptum og líður eins og enginn skilji þig.

Mér leið alveg eins og þér og ég held að það hafi verið mín stærsta gjöf. Leyfðu mér að útskýra betur:

Allt frá því að við fæðumst erum við að móta karakter okkar, oft og tíðum út frá viðbrögðum annarra við okkur eða út frá samfélaginu sem við búum í. Þennan karakter vil ég kalla egó, þessi innri rödd okkar sem talar stöðugt við okkur þegar enginn annar heyrir. Það er egóið sem særist fyrst í aðstæðum eins og þessum. Mitt egó talaði allan daginn við mig um hvað gæti gerst hvað gæti ekki gerst. Benti mér á hvers virði ég væri fyrst ég var ekki að fá þessa og hina vinnuna. Það var egóið sem fékk mig til þess að draga mig út úr samskiptum þangað til ég fékk nóg af þessu rausi og fann hvernig það var ekki að hjálpa mér neitt. 

Það sem ég gerði var að ég bað æðri mátt að taka útblásið, hundleiðinlegt egóið mitt til sín og setja kærleika og auðmýkt í mig í staðinn. Ég bað um að fá að sjá stöðuna sem ég var í sem gjöf, að ég myndi breytast og komast nær þeim stað sem ég átti að fara á.

Í fyrstu fannst mér æðri máttur ekki svara mér, svo ég fór daglega í kirkju til að reyna að færa mig nær honum. Þannig fengi ég örugglega svarið. Daglega settist ég niður í kirkju sem var opin í næsta nágrenni við mig og spurði Guð hvað hann ætlaði með líf mitt. Ég væri tilbúin að gera hvað sem er, en allar dyr væru lokaðar og ég skyldi ekki af hverju. Þetta hafði aldrei gerst áður í mínu lífi.

Eftir nokkra daga fór ég í glímu við Guð. Ég hótaði honum að fyrst hann hefði ekki tíma fyrir mig þá ætlaði ég að fara að leika mér og gera bara það sem mér þætti gaman að gera. Ég veit ekki af hverju mér datt þetta í hug. En ég framkvæmdi þetta á hverjum degi. Ég tók langa göngutúra og hlustaði á efni um andlega styrkingu. Ég bauð öllum hjálp sem ég hitti yfir daginn. Suma dagana vorkenndi ég mér svo mikið að einungis með því að hjálpa heimilislausum, fannst mér ég vera í kringum fólk sem ég gæti gefið eitthvað til. Ég átti ennþá heimili.

Ég hélt áfram að fara daglega í kirkju, en Guð virtist of upptekinn að ég fékk ekkert svar. Áður en ég vissi af opnaðist ein dyr sem var að bæta við mig námi sem ráðgjafi. Ég fór í námið og hafði aldrei fundið aðra eins tilfinningu inn í mér áður. Það var eitthvað svo rétt við þetta nám fyrir mig. Ég fékk rosalega góða æfingu í að losa mig við egóið, sér í lagi þegar vinir þáðu aðstoð mína í allskonar hluti. Sem dæmi slasaðist ein besta vinkona mín sín á baki og þar sem hún rekur flottan veitingastað og var vön að ganga í öll störf þá bað hún mig tímabundið að aðstoða við uppvask á staðnum og inn í veitingasalnum. Ég fór frá því að vera yfirmaður með yfir 1 milljón á mánuði í það að vaska upp. Ég man að ég stóð með tárin í augunum og hugsaði, ef þetta á að vera svona þá verður eitthvað að breytast inn í mér. Egóið varð að víkja. Það var það eina sem ekki gekk í þessum aðstæðum. Svo ég sendi það burt í hvert skiptið sem tárin spruttu fram.

Það sem ég tók eftir í þessari vinnu var hvað ég elskaði að vera til staðar fyrir aðra. Hvað ég fékk mikið út úr því að fara með mat á borð fyrir fólk. Stundum langaði mig hreinlega að mata fólkið, það kom upp svo mikill nærandi inn í mér. Á einu augnabliki opnaðist fyrir mér sannleikur um lífið mitt. Ég hafði starfað sem yfirmaður frá því ég hóf störf á vinnumarkaðnum en aldrei fengið neitt sérstaklega út úr því. Kannski hafði ég verið stjórnsöm, kannski of kappsöm. Eitt var víst að ég hafði aldrei upplifað svona tilfinningar í vinnu áður. Þegar ég var búin að læra að leika mér allan daginn var ég orðin glöð og farin að gleyma sorgum mínum. Þá áður en ég vissi af bauðst mér vinna við að gera nákvæmlega það sama og ég hafði eitt lungað úr deginum í áður. Starfið sem ég stunda í dag. Það eru algjör forréttindi að fá að starfa við eitthvað sem maður myndi gera ef maður þyrfti ekki á launum að halda. Að fá að vera til staðar fyrir aðra í kærleikanum og geta sett sig í spor þeirra sem hafa upplifað allskonar er gjöf. 

Mig langar að útskýra aðeins þetta með Guð í endann. Ég sé það núna að hann hefur ekki vikið eitt fótspor frá mér á þessum tíma. En Guð er með húmor og hann vinnur allar þær glímur sem maður fer í með honum. Þegar allar dyr lokast er mér ætlað að fara ákveðna nýja leið, en vanalega þarf ég að breytast áður en fyrstu dyr í nýrri átt opnast. Ég hafði aldrei fengið tækifæri til að leika mér sem barn. Það vissi minn æðri máttur. 

Ótti, höfnun og vanlíðan er blekking og undirbýr mann ekki fyrir neitt af því sem er einhvers virði í þessu lífi. Ást, kærleikur, von og nýtt líf eru orð sem ég myndi setja inn í aðstæður þínar í dag. Ekki missa trúna á þér. Þú ert fullkomin sköpun Guðs og ert nákvæmlega þar sem þú átt að vera; til að læra.

Ef þig vantar handleiðslu inn í þessa nýju hugsun. Vertu þá í bandi.

Gangi þér vel.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál