Níu spurningar sem leiða að dýpri tengingu

Dr. Terri Orbuch segir að til að fá betri tengingu …
Dr. Terri Orbuch segir að til að fá betri tengingu sé gott að spjalla saman um drauma og langanir, í stað þess að ræða um stjórnmál eða helgarplönin. Ljósmynd / Getty Images

Í upphafi sambands virðast öll samtöl vera djúp og mikilvæg en oft þegar líður á sambandið fer að grynnast og samtölin ekki jafninnihaldsrík. Dr. Terri Orbuch, höfundur bókarinnar 5 Simple Steps to Take Your Marriage From Good to Great heldur úti síðu þar sem hún gefur lesendum sínum góð ráð hvað varðar sambönd.

Orbuch er prófessor við háskólann í Oakland í Michigan og einnig hjónabands- og fjölskylduráðgjafi. Hún hefur fylgt 370 pörum síðastliðin 30 ár og þekkir því vel hvernig má dýpka tengsl milli hjóna og para. Hún segir að til að fá betri tengingu sé gott að spjalla saman um drauma og langanir, í stað þess að ræða um stjórnmál eða helgarplönin. Woman‘s Health tók saman níu spurningar ásamt nokkrum sérfræðingum á sviði sambanda.

Ef þú ynnir í lottó, hvert myndir þú ferðast og af hverju?

Dr. Orbuch segir þessa spurningu vera góða leið til að vita hvað maka þinn dreymir um hvað varðar ferðalög og ævintýri. Þetta er líka góð leið til að kynnast betur án þess að snerta á viðkvæmum málefnum.

Ef þú mættir velja einn stað til að vera á núna, hvar myndir þú vera og hvað værirðu að gera?

Dr. Gin Love Thompson sambandsráðgjafi segir þessa spurningu vera skemmtilega og góða leið til að brjóta ísinn. Hún hvetur fólk til að vera forvitið um hvort annað.

Manstu þegar við (sameiginleg minning um kynlíf)?

Dr. Thompson segir þessa spurningu vera góða til að láta maka þinn vita hvað þér fannst skemmtilegt eða gott. Síðan getið þið rætt möguleika á fleiri ævintýrum.

Í upphafi sambands virðast öll samtöl vera djúp og mikilvæg …
Í upphafi sambands virðast öll samtöl vera djúp og mikilvæg en oft þegar líður á sambandið fer að grynnast og samtölin ekki jafninnihaldsrík. Getty images

Hvernig tengistu mér þegar við stundum kynlíf?

Stundum er gott að sleppa öllum krókaleiðum og koma sér strax að efninu. Það getur verið pínu vandræðalegt til að byrja með en dr. Brandy Engler, sambandsráðgjafi í Los Angeles, segir pör oft glíma við samskiptaleysi hvað varðar kynlífið. Þá er best að tala hreint út og segja hvernig manni líður.

Ef þú gætir unnið við eitthvað annað starf í ár, hvaða stöðu myndir þú velja?

Þetta er skemmtileg spurning sem sýnir hvað maki þinn hugsar um og hvað hann metur mest segir dr. Orbuch. Þarna er einnig hægt að ræða um hvað ykkur dreymdi um að gera þegar þið voruð börn. 

Hvað er mesti streituvaldur í lífi þínu í þessari viku?

Dr. Orbuch segir þessa spurningu gefa þér góða hugmynd um hvort eitthvað haldi vöku fyrir maka þínum. Hvort sem það er lítils háttar óánægja eða eitthvað stærra. Ef þú veist hvaða áskoranir maki þinn þarf að takast á við daglega áttu auðveldara með að setja þig í spor hans.

Hvert er stærsta markmið þitt á næstu 10 árum?

Þetta gefur ykkur tækifæri til að segja frá draumum ykkar og markmiðum, og það sem mikilvægara er, að bera saman hvert þið stefnið.

Hvernig viltu að fólk muni eftir þér?

Þetta gefur þér tækifæri til að vita hvernig maki þinn lítur á sjálfan sig og hvernig hann skilgreinir sig.

Hvernig líður þér?

Ef þessarar einföldu spurningar er spurt á einlægan hátt getur hún verið áhrifarík. Spurningin getur opnað á viðfangsefni sem þið mynduð annars ekki ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál