Finnst ég vond manneskja

Það getur vel verið að yfirbragð okkar sé ljúft og …
Það getur vel verið að yfirbragð okkar sé ljúft og fagurt, en við séum með hugsanir sem við ráðum ekki við. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Á Smartlandi starfa nokkr­ir ráðgjaf­ar sem leit­ast við að gefa les­end­um góð ráð. Eft­ir­far­andi bréf barst á dög­un­um frá les­anda sem velt­ir fyr­ir sér hvort hún sé með óeðlilegar hugsanir í garð mannsins síns og fjölskyldu hans. Ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjaf­inn El­ín­rós Lín­dal gef­ur ráð.

Hæ hæ.

Er alveg með í maganum yfir að vera senda á þig línu og þar með koma hugsunum mínum áfram því mér finnst ég svo vond manneskja. Jæja, en ég hef engu að tapa...
Þannig er mál með vexti að ég er í sambúð með yndislegum manni sem hefur svo sannarlega sýnt mér þá allra mestu ást og umhyggju sem ég hef upplifað. Ég elska hann afskaplega heitt en finn hvernig það dregur úr þeirri ást þegar kemur að pakkanum sem fylgdi honum; börnin hans, barnsmóðir og jafnvel fjölskyldan hans. Nú eru liðin nokkur ár og ég virðist bara ekki getað sætt mig við þetta stjúpmóðurhlutverk. Oft á tíðum þoli ég ekki börnin hans. Það er afskaplega mikil gremja sem býr í brjósti mér og fyrstu árin var ég ofboðslega afbrýðisöm út í þá athygli sem hann gaf börnunum sínum og við skulum nú ekki ræða það hvernig mér leið (og líður stundum ennþá) þegar hann er í miklum samskiptum við barnsmóður sína. Hvað er eiginlega að mér?
Ég hugsa að ég geti ekki lifað án hans því hann er ástin í lífi mínu en þessir þættir vega svo þungt. Ég hugsa allt of oft hvað ég væri bara betur sett sem einstæð móðir með mín börn, úr fyrra sambandi, og væri því laus við hann og allt hans fólk, eins og barnsmóður hans. Hún tekur alltof mikla orku frá mér bara fyrir að fara svona í taugarnar á mér. Er það eðlilegt? Ég get svo svarið það. Og svo er svo erfitt að finna enga tengingu við tengdafjölskyldu mína. Þess í stað syrgi ég fyrrverandi tengdafjölskyldu mína og hugsa til þeirra daglega, því við áttum frábært samband.
Er ég svona illkvittin? Ég hef alltaf haldið því fram að ég væri góð manneskja en efast alltaf meira og meira.

Er alveg týnd.

Elínrós Líndal einstaklings og fjölskylduráðgjafi gefur ráð.
Elínrós Líndal einstaklings og fjölskylduráðgjafi gefur ráð. mbl.is/Eggert

Sæl elsku hjartans vinkona!

Þú ert ekki vond manneskja eða óeðlileg þó að þú hafir þessar hugsanir og tilfinningar. Takk fyrir að senda, því ég veit að fjölmargir munu lesa bréfið þitt og tengja við það sem þú ert að fara í gegnum.

Ég held ég hafi í raun aldrei hitt neinn sem finnst þessi staða sem þú ert í auðveld, málið er bara að við ræðum þetta ekki opinberlega. Hefur þú rætt tilfinningar þínar við manninn þinn? Myndi það hjálpa þér að heyra að honum líði stundum eins þegar kemur að þér og þínum börnum?

Þegar við erum í samsettum fjölskyldum er svo mikilvægt að sett séu skýr mörk og samskipti fái að þróast í betri átt jafnt og þétt. Til að það sé hægt þá verðum við að þora að vera heiðarleg í samskiptum við aðra.

Börn eru bara börn. Fullkomlega yndisleg kraftaverk. Ég veit að þetta hefur ekkert með þau að gera. 

Hins vegar getur foreldri sem fer yfir mörkin okkar kallað fram gremju í garð annarra og fyrr en varir getur maður orðið gramur út í heilt bæjarfélag. Að mínu mati eru samskipti við fyrrverandi auðveld ef þau eru heilbrigð. Ef það er eitthvað skakkt eða meðvirkt í gangi, þá byrjar það að fara yfir mörkin okkar og við upplifum það að við verðum verstu útgáfurnar af okkur, bara með því að vera til staðar og hlusta á hversu leiðinlegur maður er orðinn í hugsunum í garð annarra. Oftar en ekki er maður svo yndislegur á yfirborðinu, þannig verður maður óheiðarlegur við sjálfan sig og aðra. 

Það sem skiptir mestu máli í þínu lífi ert þú og börnin þín. Síðan er maðurinn þinn nýi og börnin hans og fjölskylda allt aðilar sem eiga að bæta ofan á ánægju þína í lífinu. Hvað þyrfti að breytast til að svo yrði?

Það er hægt að gera allskonar hluti til að laga samskipti. En ef þú elskar manninn þinn, þá finnst mér sniðugast að skoða fyrst samskipti þín við hann. Síðan við börnin hans, svo við foreldra hans og síðast við barnsmóður.

Ef hann veit að þú ert ósátt við barnsmóður hans þá getur hann stillt þau samskipti af sjálfur. Það er aldrei hægt að stjórna öðrum en þú getur stjórnað hvernig þú lifir lífinu. Ég held að alltof oft flytjum við saman, í staðinn fyrir að leyfa hlutunum að þróast rólega inni á sitthvorum heimilinu. Ég er ekki að segja að það hafi verið þannig hjá ykkur. En ef þið mynduð stokka upp hjá  ykkur, þá gæti það orðið til að efla ástina ykkar á milli. Fékkstu stund með honum þegar þið voruð að kynnast, þar sem þið voruð bara ein?

Mín börn, þín börn og svo okkar börn er heljarinnar verkefni að vinna úr. Það skyldi gefa því góðan tíma.

Þú ættir að finna þér ráðgjafa í meðvirkni sem hjálpar þér að sortera úr hlutunum. Þegar hlutirnir eru komnir á réttan kjöl, muntu kunna að meta alla í þínu lífi, hversu hraustir eða skemmtilegir þeir eru. Það getur vel verið að þér líki ekki vel við alla jafnt. En í raun og veru er meðvirkt að bera fólk saman eða setja á stall.

Hvað er það við fyrri fjölskylduna sem þú saknar? Hefur þetta eitthvað með fyrrverandi maka að gera eða átti hann bara svona æðislega fjölskyldu? Þetta er einnig samtal sem þú getur farið í með aðstoð ráðgjafa við maka þinn. Allt sem snýr að honum þarf hann að taka ábyrgð á. Þið getið aldrei breytt öðrum, en kannski er eitthvað í hans fjölskyldu sem gerir það að verkum að fjölskyldumynstrið er ekki hollt fyrir þig.

Það er ekki til nein töfrapilla við þessu verkefni, en kærleiksrík afstöðubreyting innra með þér mun leiða þig á réttan stað.

Haltu áfram að vera opin fyrir lífinu. Það mun borga þér þúsund falt til baka með fleiri ánægjustundum. Þetta er svo skemmtilegt verkefni að mig klæjar í puttana að greiða úr þessu með þér. Spáðu hvað lífið er yndislegt! Það er til fólk sem elskar svona flækjur. Ég hef gaman af þeim af því ég veit að það er hægt að koma þessu í lag gagnvart þér.

Gangi þér vel.

Kærar Elínrós.

Ertu með spurningu fyrir Elínrós, sendu hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál