Maðurinn hjakkar alltaf í sama farinu

Það getur verið erfitt að sigla einn í lífsins ólgusjó, …
Það getur verið erfitt að sigla einn í lífsins ólgusjó, sér í lagi þegar maki okkar liggur sofandi niðri í káetu. Ljósmynd/skjáskot

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr kona sem býr með góðum manni hvað hún eigi að gera. Hann er á annarri blaðsíðu en hún, siglir bara með straumnum. Á hún að leyfa honum að sigla áfram með?

Sæl Elínrós!


Ég bý með góðum manni en við erum algjörlega hvort á sinni blaðsíðunni þegar kemur að ábyrgð og metnaði. Ég hef markmið að stefna að og vil hugsa vel um fólkið mitt. En hann hjakkar í sama farinu og sinnir sínu illa. Ég hef gert mitt besta til að virkja hann og hjálpa en allt kemur fyrir ekki. Áhugaleysið er algjört og hann bara siglir með. Nú stend ég frammi fyrir þeirri ákvörðun að stefna ein að mínu markmiði. Eða leyfa honum að sigla með?

Kveðja.

Ein sem á erfitt með að taka ákvörðun.

Elínrós Líndal er einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal er einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert

Sæl mín kæra. 

Til lukku með stefnuna og lífið þitt. Mér sýnist þú á góðum stað. Þú ert vakandi og veist hvað þú vilt. Þegar ég las bréfið þitt sá ég þig fyrir mér á fallegri skútu með fjölskylduna, ég gæti trúað að þú værir orkumikil og búin að finna þinn tilgang í lífinu. Ekki gefa neinn afslátt af því. 

Herramanninn sá ég fyrir mér eins og sofandi á skútunni. Hann er örugglega voðalega ánægður að vera á þessari ferð, enda er umhverfið fallegt og hraðinn góður. En þegar maður er með svona fullorðið fólk á ferð þá koma alltaf upp þessar spurningar: Ef hann væri vakandi eins og ég væri hann þá að stefna í sömu átt? Hvað getur hann raunverulega? Af hverju er hann sofandi í lífinu? 

Það er svo dásamlegt hversu sofandi einstaklingar halda að það sjáist ekki. Blekkingin snýr fyrst og fremst að þeim. Við höfum margar verið í svona samböndum. Minn félagi rankaði við sér á miðri leið. Skútan var ekki að sigla í áttina sem hann ætlaði að fara. Auðvitað ekki, það var ég sem sigldi henni og stjórnaði öllu. Hann kastaði sér fyrir borð í sinn eigin bát. Sem var ótrúlega fallegt að sjá. Það er alltaf fallegt að sjá þegar sálufélagar vakna til lífsins og auðvitað kann maður að meta góða félaga í lífsins ólgusjó þó að þeir séu ekki nema bara hálfvakandi á tímum.

En þú ert að leita þér að lífsförunaut og hann þarf að vera vakandi eins og þú. Kannski verður félagi þinn sá maður, kannski ekki. Þú verður bara að sleppa og treysta. Félagi minn er kominn á ótrúlega flottan bát á sömu siglingu og ég og hann kallar oft til mín af hverju ég hefði ekki bara kastað honum út úr bátnum strax, þá hefði hann vaknað og við værum kannski saman á bát í dag? Maður veit aldrei lífið fyrir en það er á enda.

Nú ætla ég að hætta að tala í myndlíkingamáli og segja þér hvað mér finnst þú ættir að gera í þinni stöðu. Ef þér þykir raunverulega vænt um þinn félaga þá myndi ég ekki henda honum frá mér. Horfðu á hann sem gjöf, hvað er hann að gefa þér í dag?

Ert þú að sjá um meira en 50% á heimilinu? Ert þú að borga meira í leigu eða húsnæði? Ert þú að þvo þvottinn hans? Afsaka ef hann mætir ekki í vinnu? Er hann með vinnu? 

Allt sem þú ert að gera í dag og hjálpar honum við að vera sofandi, ættir þú að stoppa ef þú raunverulega ætlar að sýna þér og honum ást. Skoðaðu af hverju þér finnist þú verða að bjarga honum. Ef það er markmið ykkar í lífinu að vakna og taka ábyrgð á ykkur sjálfum hvað myndir þú gera öðruvísi?

Einfaldasta leiðin í þeirri stöðu sem þú ert í er að kasta honum frá borði og halda áfram ein. En ef við vinnum ekki í okkur, þá eru miklar líkur að við endum í sömu aðstöðu aftur. Þú gætir þess vegna verið komin með nýjan sofandi félaga inn í káetuna án þess að skilja af hverju. Sem er kannski ekkert betra. Þú hefur tækifæri til að skoða þig, halda áfram með þitt líf, setja heilbrigð mörk. Tala af hreinskilni og gefa ekkert eftir í þessu lífi. 

Til lukku með verkefnið. Ef þú ert rosalega hugrökk myndi ég finna mér góð samtök sem hjálpa fólki til að takast á við meðvirkni. Svo sem Al-Anon. Það er til nóg af fundum fyrir meðvirka. Ég veit ekkert hvort þú ert aðstandandi einhvers sem er alkahólisti, en einhversstaðar lærðir þú að taka aðeins of mikla ábyrgð. Sambýlismaður þinn er fullorðinn. Hann getur eflaust allt af því sem þú ert að gera fyrir hann og meira. Eins hefur hann líka rétt á því að vera sofandi þangað til hans tími kemur. Við getum aldrei leikið æðri mátt í lífi annarra. En þessi ákvörðun verður alltaf að vera þín.

Gangi þér vel.

Hlýjar kveðjur, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál