Eiginmaður með óreiðu- og söfnunaráráttu

Það að hafa skipulag og stílhreint hjá okkur getur sparað …
Það að hafa skipulag og stílhreint hjá okkur getur sparað okkur margar klukkustundir á dag í vinnu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr kona hvernig hún geti fengið eiginmann sinn til að sleppa söfnunaráráttu sinni og óreiðunni sem fylgir honum.

Komdu Sæl Elínrós.

Ég er gift og hjónabandið gott. Með hækkandi aldri og smá heilsubresti vil ég hafa heimilið stílhreint  til að auðvelda þrifnað. Eiginmaður minn er hins vegar með mikla söfnunaráráttu og óreiða fylgir honum. Það má engu henda. Honum líður hreinlega illa ef ég tek til í skápum og gef föt, hluti etc.

Ég hef reynt að ræða þetta mál án árangurs. Ég  hef hrifist af  ráðagóðum svörum þínum svo mér datt í hug að e.t.v.  ættir þú eitthvað í handraðanum handa mér.  

Með  þökk.    Snyrtimennska

Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert

Sæl mín kæra.

Takk fyrir fallegt bréf. Ég og þú værum án efa frábærar að deila heimili. Ég er alveg eins og þú! Vil hafa allt hreint og fallegt í kringum mig. Enda finnst mér heimilin mín í gegnum árin alltaf hafa speglað innri líðan mína. Ef mér líður vel þá fara blóm á náttborðið og ég lofta út og er dugleg að dytta að hjá mér. Hins vegar ef ég er með innri óreiðu þá kastast það út í umhverfið. Eins hef ég fundið fyrir því hvernig ótti getur oft endurspeglast í aðgerðaleysi og jafnvel söfnunaráráttu. Einu sinni barðist ég við stjórnleysi tengt mat og þá voru allir matarskápar hjá mér fullir af matvöru. Ég hefði getað farið í gegnum heila styrjöld með matnum og dósunum í skápunum. Skilurðu hvert ég er að fara?

Þegar tveir deila heimili þá er mikilvægt að tala út um hluti. Sér í lagi ef þú þarft að sinna heilsunni þinni núna. Ég á frænda sem er 82 ára og ég kalla hann ungling. Besta fjárfestingin sem við getum farið í er að sinna okkur sjálfum og þeim sem næst okkur standa.  Þessi frændi minn segir í hvert skiptið sem ég hrósa honum fyrir hvað hann er fallegur og heilsuhraustur að þetta komi ekki af sjálfu sér. Hann þurfi stöðugt að vera að vinna í að vera besta útgáfan af sér og að huga að heilsunni. 

Þú getur aldrei stjórnað öðrum hins vegar myndi ég ekki koma honum upp með að sinna ekki heimilinu til jafns við þig. Getur þú skipt fataskápunum í helming og hugsað bara um þína skápa? Haft þá hreina og fallega og leyft honum að taka ábyrgð á sínu? Ef hann vill geyma og safna er það frábært. Leyfðu óreiðunni bara að safnast upp hjá honum. Hann gæti komið á óvart með frábærum kerfum þegar byrjar að flæða út úr skápunum hans megin.

Það er ekki til nein töfralausn við þínu máli. Hins vegar myndi ég aldrei taka verkefni eins og þessu sem verkefni er snýst um heimilið einungis. Þetta snýst um ást, mörk, tillit og fókus. Þegar við tökum ábyrgð á öllu sem snýr að heimilinu þá getum við orðið þroskaþjófar fyrir fólk á öllum aldri. Þá fer fókusinn af okkur sjálfum og við verðum þjónar. Slíkt getur komið út í gremju og óþægilegu andrúmslofti á heimilinu. 

Hvernig getur þú sett fókusinn á þig í dag og þína heilsu?  Hafa komið tímabil í ykkar hjónalífi þar sem þú tókst tillit til hans? Þarf hann að taka tillit núna til þín? Eru svæði í húsinu sem geta verið hans? Skrifstofa, skúr, aukaherbergi? 

Sambönd eru alltaf verkefni og kannski ertu að fá verkefnið í hendurnar að nú fari fókusinn í hjónabandinu aðeins meira á þig. Góð hjónabönd eins og þú ert í þar sem fólk deilir sömu gildum og lífsskoðunum fara svo fallega í gegnum alls konar þroskastig. En við þurfum bara alltaf að muna að halda áfram að vera svalar og sterkar, heiðarlegar og flottar, með skýr mörk og þroska til að skilja að stundum getur innri líðan maka okkar endurspeglast í óreiðu út á við. 

Ef þú nálgast viðfangsefnið þannig þá mun án efa eitthvað áhugavert nýtt koma upp.  Ef þú heldur áfram að vera kærleiksrík og skemmtileg geta kraftaverk gerst í manninum þínum. Hugsaðu fallega til hans og biddu um að fá að sjá ef það er eitthvað að angra hann innra með honum sem gerir það að verkum að hann getur ekki mætt þér í þessu.

Persónulega er ég alltaf voðalega heilluð af fólki sem er andstæðan við mig. Ég er mjög listræn og skapandi og þess vegna heillar mig oft fólk sem er safnarar. Flestir sem safna dóti safna líka peningum og minningum. Við erum fallega ólík og við röðumst oft þannig inn í sambönd til að halda okkur við það verkefni að vaxa og þroskast í lífinu. 

Maðurinn þinn verður samt að skilja að sama með hverjum hann byggi, þá þyrfti hann alltaf að taka ábyrgð og tillit. Það verður auðvelt fyrir hann að sjá að það er sjálfsagt fyrir konuna sem hann elskar mest sér í lagi þegar þú mætir honum í kærleika.

Gangi þér vel. 

Hlýjar, Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál