Elska fyrrverandi konu mína enn þá

Stundum þegar hjónabönd eða sambönd eru komin í hnút þá …
Stundum þegar hjónabönd eða sambönd eru komin í hnút þá sér annar aðilinn enga aðra leið færa en að vilja út úr sambandinu. Ef ást er til staðar enn þá í sambandinu getur verið erfitt að halda áfram. Það gefur vísbendingu um að kannski hafi þurft súrefni inn í sambandið og báðir aðilar fá þá tækifæri til að taka ábyrgð á sínum hlut í sambandinu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr karlmaður sem er nýbúinn að skilja við konuna sína til margra ára hvað hann eigi að gera. Hann elskar hana enn þá. 

Komdu sæl.

Ég er nýbúinn að skilja við konuna mína til margra ára og eigum við börn saman. Við vorum komin á þann stað að við vorum að meiða hvort annað andlega án þess að vilja það. Upp komst um lygar í sambandinu sem varð þess valdandi að efi og vantraust skaut upp kollinum. Vandamálið er að ég elska hana enn þá... Við erum með sameiginlegt forræði yfir börnunum okkar og erum með vikuskipta umgengni sem er mjög jákvætt að mínu mati fyrir börnin. En ég næ ekki að klippa á strenginn til hennar. Mér finnst hún vera sálufélagi minn þrátt fyrir allar þjáningarnar sem við lögðum á hvort annað. Það voru bara svo margir stórkostlegir tímar. Og þetta var svo djúpt og fallegt. Ég elska hana enn þá. Hvað á ég að gera?

Kveðja, Ástarsorg

Elínrós Líndal er NLP-einstaklings- og fjölskylduráðgjafi með grunnpróf í sálfræði …
Elínrós Líndal er NLP-einstaklings- og fjölskylduráðgjafi með grunnpróf í sálfræði og fjölmiðlafræði. MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Hún sérhæfir sig í meðvirkni og fíknisjúkdómum. mbl.is/Eggert

Komdu sæll og takk fyrir bréfið.

Það býr mikill kærleikur innra með þér og þú ert í góðu sambandi við tilfinningar þínar sem er jákvætt. Margir karlmenn hafa verið aldir upp við að það sé veikleikamerki og eru því aftengdir sjálfum sér og eiga í erfiðleikum með að finna hvernig þeim líður. 

Til að byrja með langar mig að óska þér til hamingju með þessa ást. Ef þú heldur áfram að hlusta á hvernig þér líður þá muntu eiga innihaldsríkt líf með miklum tilgangi.

Varst það þú sem skildir við hana? Varstu að kafna og sást enga aðra leið færa? 

Mér finnst þú vera að upplifa eðlilega hluti miðað við að þú hafir elskað konuna þína. Eins máttu bóka að dagurinn í dag er alveg eins og hann á að vera gagnvart þér og konunni þinni. Þegar sambandið er orðið þannig að báðir eru farnir að varpa sektarkennd og sársauka á hinn, þá þarf stundum að taka leikhlé.

Eins er ég viss um að hún sé sálufélagi þinn. Sálufélagar eru vanalega mjög ástfangnir en slík sambönd enda oft með hvelli og þá tekur við tímabil eins og þú ert á, þar sem annar aðili eða báðir vakna upp og byrja að vinna í sér.

Lífsförunautur þinn bíður þá vanalega við hornið. Slík sambönd eru löng og nærandi, góð og afslöppuð. Mér finnst ekki ólíklegt miðað við þann kærleika sem þú berð enn þá til hennar að þið munum bæði vakna á þessu tímabili og þannig gætuð þið orðið lífsförunautar í framtíðinni.

Þú skrifar að upp hafi komist um lygar. Var það þú sem varst óheiðarlegur, hún eða þið bæði? Ef það varst þú þá mæli ég með því að þú farir í ráðgjöf og skoðir þinn hluta í sambandinu. Að þú setjir þér siðareglur gagnvart þér sjálfum og æfir þig í að vera besta útgáfan af þér. Þú getur með aðstoð ráðgjafa látið konuna þína fyrrverandi vita að þú sért í þessari vinnu og elskir hana enn þá.

Ef það voruð þið bæði sem voruð óheiðarleg þá myndi ég taka ábyrgð á mínum 50% og skoða allt samskiptamynstur ykkar á milli. Hvernig var samband foreldra þinna, en hennar? Hvað kenndi hún þér, en þú henni? Hver voru sárin í ykkar samskiptum og svo framvegis. Aftur myndi ég segja henni að þú værir í þessari vinnu og að þú elskir hana. Heiðarleiki hækkar tíðni okkar sem einstaklingar. En ekki reyna að fara í samband með henni í upphafi þessarar vinnu. Það að þið séuð vinir er öllum til góðs. Ekki síst fyrir börnin ykkar.

Ef það er hún sem var óheiðarleg þá myndi ég skoða þinn hlut í því ferli. Hvar lokaðir þú augunum fyrir því sem hún var að gera? Hvað óttaðistu mest við að setjast niður og ræða við hana? Var um framhjáhald að ræða, drykkju eða eitthvert annað stjórnleysi? Áttir þú erfitt með að setja mörk?

Þú átt allt það besta skilið í þessu lífi og hún líka. Gefðu henni rými til að taka ábyrgð á sínum hlut sama hver staðan var. Þú getur alveg sagt henni að þú elskir hana enn þá þó að það hafi verið hún sem var óheiðarleg, en hækkaðu tíðni þína þannig að óheiðarlegt fólk tali ekki inn í kerfið þitt í framtíðinni.

Að lokum þá langar mig að segja eitt. Sambönd eru blessun þar sem við fáum tækifæri til að skoða gömul sár og verða heil að nýju. Mörg sambönd eru hins vegar eins og vígvöllur þar sem þeir sem slasast mest eru börnin.

Rannsóknir hafa sýnt að börn eru betur sett við skilnað foreldra sinna ef hjónabandið er mjög óheilbrigt. Að því gefnu að ástandið batni við skilnaðinn.

Ef þið náið að vinna úr ykkar málum hvort í sínu lagi og haldið áfram sem sálufélagar út lífið (þá ekki saman heldur bara sem vinir) þá munu börnin ykkar læra margt af ykkur. Ef þið hins vegar haldið áfram og verðið lífsförunautar er það á við margar háskólagráður í færni fyrir alla fjölskylduna. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft, að sigrast á áskorunum sem þessum er magnað að upplifa fyrir alla.

Vertu heiðarlegur við þig og aðra, ekki síst börnin þín. Ástin sem þú berð til fjölskyldunnar er gjöf en ekki gjald. Þú ert í stöðu sem gæti kallast ástasorg. En fyrir mér horfir þetta öðruvísi við. Þú ert staddur andspænis verkefni með ást í hjarta. Skilur þú mig?

Settu þig og börnin þín í fyrsta sæti. Það að skilja í hatri er ávísun á að fara með allt ruslið sitt í næsta samband og varpa sömu vandamálunum þar inn. Ekki fara í nýtt samband eða að hitta aðrar konur á meðan þú berð ást til þinnar fyrrverandi. Það er ekki sanngjarnt gagnvart neinum. 

Eins myndi ég ekki flýta mér að taka saman við fyrrverandi ef þú vilt samband með henni sem lífsförunaut. Þið þurfið bæði að vinna í ykkur, brýna á mörkum ykkar, heiðarleika og læra að taka ábyrgð. Ef þið takið of fljótt aftur saman gæti allt farið á sama veg aftur.

Þú getur einungis tekið ábyrgð á þínum hluta í þessu verkefni. Vertu hugrakkur og settu það sem þú hefur ekki stjórn á í hendurnar á æðra mætti. Sama hvað hann heitir í þínu lífi þá er hann uppspretta ástar og kærleika. Útkoman verður í þeim anda.

Það koma til mín falleg orð úr Friðarbæninni sem segir m.a. „Drottinn ger þú mig að farvegi friðar þíns, svo að ég færi kærleika þangað sem hatur er, fyrirgefningu þangað sem móðgun er, einingu þangað sem sundrung er, sannleika þangað sem villa er, trú þangað sem efi er, von þangað sem örvænting er, ljós þangað sem skuggi er, gleði þangað sem harmur er. Ég sækist fremur eftir því að hugga en láta huggast, skilja en njóta skilnings, elska en að vera elskaður, því okkur gefst ef við gefum, við finnum sjálf okkur ef við gleymum okkur sjálfum, okkur fyrirgefst ef við fyrirgefum.“ 

Gangi þér vel að finna bestu útgáfuna af þér. 

Kær kveðja, Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál