Eiginkonan daðrar við gamlan séns

Hvað gerir þú þegar þú kemst að því að eiginkona …
Hvað gerir þú þegar þú kemst að því að eiginkona þín er að daðra við annan mann á netinu? mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem vantreystir konunni sinni eftir að hann komst að því að hún væri að daðra við gamlan séns í tölvunni. 

Sæll Valdimar.

Aldrei hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að skrifa þér en nú finn ég hjá mér þörf. Hef engan annan að leita til. Skammast mín of mikið til að ræða þetta við aðra. Sagan á bak við þörfina er þessi:

Ég er í hjónabandi og hef verið í áratugi. Hamingjusömu hjónabandi að ég hefði talið. Fyrir 6 mánuðum síðan og fyrir einskæra tilviljun tók ég eftir að konan mín hafði verið að spjalla við algjörlega ókunnan mann á „Messenger“. Forvitni knúði mig til að kíkja á hvað þeim hafði farið á milli. Ég veit að það er ekki rétt og geri slíkt aldrei. Opna aldrei hennar póst og virði einkalíf. Nú stóðst ég ekki freistinguna og opnaði á samskiptin. Ég hafði ekki lesið lengi þegar ég missti andlitið og varð að fá mér sæti. Ég fann að ég fékk hjartslátt og trúði ekki því sem ég las.

Spjallið hófst með því að ókunni maðurinn, sem býr erlendis, kaus að óska konunni minni til hamingju með afmæli á „Messenger“ í staðinn fyrir Facebook eins og algengast er. Svona „personal message“-afmæliskveðja. Þau höfðu síðan haldið spjallinu áfram og núna var þetta orðið að 8 mánaða löngu spjalli. Það kom í ljós að þau höfðu verið saman á meðan þau bjuggu bæði á Íslandi og ég og konan mín vorum í hjónabandi. Fyrir utan leyndina sló það mig harðast hve miklar tilfinningar voru í þessu. Þau lýstu bæði yfir mikilli væntumþykju („sem hættir aldrei“), rifjuðu upp hvað þetta hefðu verið „kreisí“ tímar, nefndu börn með nafni, systkin og hve fallega ókunni maðurinn hefði talað um móður sína. Jafnvel var rifjaður upp sameiginlegur matur sem þau borðuðu og hvort þau væru enn að hlusta á tiltekinn tónlistarmann sem tengdi þau saman. Hann sagði samband sitt við sína konu vera á lokametrunum og notaði orðin; „erum saman enn sem komið er“ og „hver hefur sinn djöful að draga“ um hana. Þeim fannst ekki bara gaman að spjalla saman heldur var notað orðið „yndislegt“ um samskiptin. Og svo rifjuðu þau upp hve langt það var síðan þau sváfu saman. Það var sárt að lesa. Að lokum kom fram hugmynd um að hittast. Hittast? Til hvers? Mér datt bara eitt í hug. – Hér stikla ég á bara stóru. Lýsingin gæti verið mun skrautlegri. Fyrst varð ég dolfallinn af undrun, svo tók við ofsareiði með ljótum hugsunum um hefnd og þess háttar. Í dag verð ég dapur þegar ég hugsa um þetta.

Mér fannst ekki verst að komast að gömlu framhjáhaldi heldur er það leyndin annars vegar og svo allar þessar tilfinningar sem lýst er. Ég hefði svo gjarna heldur viljað að þau hefðu bara verið að klæmast og rifja upp samfarir sínar. Ég sat í innan við þriggja metra fjarlægð frá konunni minni þegar flest samskipti þeirra áttu sér stað. Gjörsamlega grunlaus og heiðskír. Það hvarflaði ekki að mér að konan mín ætti þetta til í sér.

Þegar ég bar þetta upp á konuna mína gerði hún lítið úr þessu. Hún sagði að þetta væri bara gamall vinur. „Svona eiginlega bara eins og gömul vinkona,“ sagði hún og nafngreindi eina gamla vinkonu sína til útskýringa. Þegar ég gekk frekar á hana og spurði út í samfarir þeirra sneri hún vörn í sókn og ásakaði mig um eitt og annað sem ég hafði gert eða hún heldur að ég hafi gert fyrir áratugum. Rifrildi eru afar fátíð í okkar sambandi en allt í einu vorum við farin að hnakkrífast. Í tvígang rauk hún út um miðja nótt. Við tóku mjög erfiðir tímar og ég óttaðist á tímabili að hjónabandið myndi ekki þola þetta álag.

Þau „blokkeruðu“ víst hvort annað bæði á Facebook og „Messenger“. Konan mín viðurkenndi loks að þetta hefði ekki verið í lagi og þessu væri endanlega lokið. Sagði; fyrirgefðu. Segist engar tilfinningar bera til mannsins. Vill ekki ræða þetta frekar. Hörð á því. Ástandið skánaði smá saman. Síðan er liðið hálft ár.

Ég finn að ég er fullur af vantrausts. Þegar konan mín er í tölvunni flýgur iðulega í gegnum hugann spurning um það hvað hún sé að gera? Við hvern er hún að tala? Ég trúi ekki að allar tilfinningarnar sem lýst var hverfi bara si svona við það eitt að „blokkera“. Ég óttast að samband þeirra hafi bara verið sett á „hold“. Ég veit líka að það er barnaleikur að hafa leynilegt samband á netinu. Ég óttast það. - Það sem mér finnst einna verst er að það líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki um þetta 8 mánaða netdaður. Í hvert sinn þegar þetta kemur upp í hugann verð ég dapur og finnst að ég eigi það ekki skilið. Ég sit uppi með hugsanirnar og tilfinningarnar. Þau hafa það hins vegar örugglega fínt.

Er þetta bara aumingjaskapur í mér að bera þessar tilfinningar og losna ekki við þetta úr huganum? Þetta var bara á netinu og ekkert hefur „gerst“ núna. Verð ég bara að sætta mig við að nú séu breyttir tímar með Facebook og „Messenger“ og þá geti svona komið upp og maður verður bara að taka því eins og hverju öðru hundsbiti? Á ég bara eftir að nútímavæðast? Hvað finnst þér Valdimar?

Með vinsemd og virðingu

 

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og þakka þér kærlega fyrir þessa einlægu fyrirspurn.

Þú hefur akkúrat ekkert að skammast þín fyrir. Þöggun er besti vinur óheiðarleikans og þeir sem halda fram hjá vonast oftast eftir því að sem allra minnst sé talað um málið. Ég vil nota orðið „áfall“ yfir það sem þú hefur upplifað og tilfinningarnar og upplifanir þínar eru einmitt hluti áfallaviðbragða. Flestir sem uppgötva óheiðarleika maka síns á þennan hátt verða fyrir alvarlegu áfalli og upplifa sterka höfnunartilfinningu sem er einhver sú sárasta sem hægt er að finna. Veröldin hrynur á augabragði, myndin um lífið sem fólk hafði í huganum er horfin og grunnurinn sem lífið byggðist á er hruninn.

Þetta eru stór orð en ekki ólíklegt að þú sért sammála þeim. Þegar fólk verður fyrir alvarlegu áfalli af þessu tagi er eðlilegt að því fylgi doði, reiði, sorg og kvíði svo eitthvað sé nefnt. Það er fullkomlega eðlilegt að þú sért ekki enn búinn að jafna þig og sérstaklega þar sem konan þín hefur haldið fast í afneitun á óheiðarleikanum og vill ekki ræða hlutina. Hugurinn er frekar fyrirsjáanlegur hvað þetta varðar og eðlilegt að hann noti fyrri reynslu til þess að geta í hvað gæti verið að gerast í dag, hvort sem það á við rök að styðjast eða ekki.

Til þess að sambönd séu líkleg til þess að vaxa og dafna eru nokkur lykilatriði sem þarf að hlúa að. Tvö þessara atriða er traust og skuldbinding. Traust snýst meðal annars um að geta treyst maka sínum til þess að vera trúr í sambandinu. Traust snýst líka um marga aðra hluti og þar á meðal er að maður geti treyst því að hægt sé að ræða alvarleg mál við makann sinn án þess að það verði til þess að samtalið færist í reiði eða heift, fýlu, grát eða annað slíkt sem veldur því að maður treystir sér ekki til að ræða tiltekin mál við makann. Skuldbinding snýst um að vera viss um að ætla að vera saman. Þegar upp kemst um framhjáhald er traustið hrunið og það tekur tíma að byggja upp aftur. Það sama á við um skuldbindinguna, það þarf að ræða hana sérstaklega og athuga hvort báðir aðilar sambands geri sér grein fyrir því hvað liggur í skuldbindingu og hvort fullkominn vilji sé fyrir því að styrkja þá tilfinningu.

Að treysta er bæði ákvörðun og ferli. Þú þarft að taka ákvörðun hvort þú ætlir að treysta konunni þinni eða ekki. Það gerir þú þín vegna. Ef þú vantreystir henni um ókomna tíð, þá líður þér fyrst og fremst illa. Ef þú ákveður að treysta henni, þá ert þú í það minnsta búinn að taka ákvörðun og svo er það hennar að láta koma í ljós hvort hún sé traustsins verð. Ef þú finnur hins vegar að þú munir ekki geta treyst henni aftur, þá mæli ég með því að skoða alvarlega hvort þú viljir halda sambandinu áfram. Þú hefur val og átt rétt á því að ræða málin og fá svör. Konan þín á rétt á því að svara ekki og vilja ekki ræða málin. Ef það er hins vegar eitthvað sem þú sættir þig ekki við þá þarftu að taka ákvörðun út frá því hvað þú vilt gera varðandi áframhaldandi samband.

Þú berð ekki ábyrgð á framhjáhaldinu og það væri æskilegt að gerandinn í slíkum málum leggi sig allan fram við að aðstoða maka sinn í að finna aftur traust. Það gerist með viðurkenningu, iðrun, samtali og á þann hátt að vinna úr málinu í stað þess að þegja það í hel. Ég hvet þig eindregið til að leita til skilningsríks aðila sem ekki er tengdur málinu, hvort sem það er ráðgjafi, prestur eða einhver annar sem þú treystir, svo þú getir séð málin frá fleiri hliðum og fengið útrás fyrir þínar tilfinningar. Þannig getur þú hafist handa við að vinna úr áfallinu og farið að láta þér líða betur, sama hvað konan þín ákveður að gera. Ef þið getið farið saman í slíka vinnu þá væri það best.

Svörin við spurningunum um það hvort þetta sé aumingjaskapur, hvort þú verðir bara að taka þessu og nútímavæðast, eru einfaldlega nei, alls ekki. Þetta er hvorki eðlilegt né í lagi og þú hefur fullan rétt á að gera kröfur um að tekist sé á við málið á þann hátt að þér geti farið að líða betur. Fyrst og fremst er mikilvægt að þú leitir aðstoðar til þess að styrkja þig og vinna úr áfallinu þannig að þú getir betur metið hvað er rétt fyrir þig að gera í næstu skrefum.

Með kærri kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál