Er „græneygða skrímslið“ að stjórna þér?

Þegar við upplifum afbrýðissemi og við höfum skoðað okkar hlut …
Þegar við upplifum afbrýðissemi og við höfum skoðað okkar hlut í því er gott að setjast niður með maka og ræða málin. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Að vera afbrýðisamur í samböndum er mjög algengt – stundum á afbrýðisemin rétt á sér. Á öðrum stundum er eins og afbrýðisemi okkar hafi ekkert með aðra að gera. Hvar drögum við línuna á milli afbrýðisemi sem er eðlileg og þeirrar sem er stjórnlaus; eins og græneygt skrímsli sem tekur yfir veröldina okkar?

Bustle birti nýverið grein um málið þar sem Lindsey Cristler, ástar- og stefnumótamarkþjálfi í  New York, segir að afbrýðisemi sé eðlileg tilfinning á meðan þú hefur stjórn á henni. En þegar afbrýðisemin verður stjórnlaus gæti verið áhugavert að skoða málið betur. 

„Það er ótrúlega vond tilfinning þegar þú getur ekki sofið, þú getur ekki unnið eða gert það sem þú þarft að gera yfir daginn með góðri athygli. Jafnvel þótt þú vitir að þú sért ekki að hugsa á rökréttan hátt, þá er eins og þegar afbrýðisemin tekur yfir að þú getir ekki komið þér út úr tilfinningunni. Slíkt ástand hefur áhrif á andlega líðan, heilsuna og samböndin sem við erum í.“

Það getur verið áskorun að takast á við slíkt ástand, en það sem er mikilvægast að gera hverju sinni er að skoða hvað af afbrýðiseminni á við rök að styðjast og hvað af henni snýst ekkert um það sem er að gerast í dag. 

Ef þú heldur að maki þinn sé að halda fram hjá þér eða að gera aðra hluti sem gefa þér ástæðu til þess að vera afbrýðisöm/afbrýðisamur þarftu að setjast niður og ræða við maka þinn. Ef þú ert að upplifa afbrýðisemi sem kemur jafnt og þétt upp og á ekki við nein rök að styðjast heldur er eins og eitthvað í umhverfinu ýti undir ástandið (triggers) mæla sérfræðingar með eftirfarandi atriðum sem gott væri fyrir þig að skoða:

1. Skoðaðu sálarlíf þitt fyrst

Ef þú getur ekki hætt að vera afbrýðisöm/afbrýðisamur, þá þarftu að líta inn á við. „Sumir makar eru einstaklega afbrýðisamir út af innbyggðu óöryggi,“ segir Alexis Nicole White, rithöfundur og sambandssérfræðingur. „Kannski hafa þessir einstaklingar lent í því að einhver hefur haldið fram hjá þeim, eða að þeir hafa verið í kringum aðila sem erfitt hefur verið að treysta á.“ Ef þú átt erfiða sambandssögu í fortíðinni þá er það allt í lagi, en þú hefur aldrei leyfi til að taka það út á makanum þínum í dag.

Það er mikilvægt að líta einnig á stóra samhengið. „Sumir geta verið afbrýðisamir vegna einhvers sem þeir upplifðu í stórfjölskyldunni sinni, eða á uppvaxtarárum sínum,“ segir Richard E Toney, sálgreinir frá Texas. „Eins getur fólk verið afbrýðisamt út af tilfinningalegu tengslarofi (attachment) úr æsku. Þá tengt öðru eða báðum foreldrum sínum.“

2. Lærðu að breyta tilfinningunni í líkamanum

Ef þú telur að afbrýðisemin sé til komin vegna einhvers sem býr innra með þér er mikilvægt að finna leiðir til að ná stjórn á tilfinningunni. Ein leið getur verið að taka eitt skref út úr sambandinu.

„Stundum getur tilfinningalega háð manneskja upplifað mikla afbrýðisemi í sambandinu sínu,“ segir Salama Marine sem er sálfræðingur og stefnumótasérfræðingur. Hún bendir á að ef við tökum betur ábyrgð á okkur sjálf getur það minnkað afbrýðisemi okkar í samböndum.

Ef þú finnur fyrir afbrýðisemi upp úr litlu gætir þú þurft á því að halda að hafa verkfæri til að takast á við það þegar tilfinningin kemur upp. Afbrýðisemi kemur vanalega fram í líkamanum og þegar hún kemur upp getur verið gott að hafa áhrif á líkamann með beinum hætti. 

„Afbrýðisemi er tilfinning og þú finnur fyrir henni á óþægilegan hátt í líkamanum,“ segir Chrisler. „Að fara út að hlaupa, í danstíma, eða eitthvað annað þar sem þú ert að rækta líkamann, getur hjálpað til við að losa út tilfinninguna og komið þér í eðlilegt ástand aftur.“

 3. Talaðu við maka þinn

Jafnvel þótt þú vitir að afbrýðisemin eigi ekki við nein rök að styðjast en þú átt erfitt með að losa þig við tilfinninguna getur verið kominn sá tími að þú þarft að setjast niður og ræða við maka þinn um málið. Það getur verið að það sé eitthvað í sambandinu sem þú þarft á að halda – sem þú ert ekki að fá.

Afbrýðisemi þarf ekki að vera neikvæð tilfinning, heldur viljum við líta á tilfinninguna þannig að hún sé að gefa þér vísbendingu um að þú þurfir að fá eitthvað sem þú ert ekki að fá nú þegar,“ segir Samantha Burns, sambandsráðgjafi og stefnumótamarkþjálfi. 

„Hvort sem þú ert að leita að öryggi eða samþykki frá maka þínum, eða að þú þurfir staðfestingu á því að þú sért í forgangi, er mikilvægt að skilja hver undirliggjandi þörf er áður en þú leyfir græneygða skrímslinu að taka yfir lífið þitt. 

Spurðu þig hvað þú getur séð um sjálf/sjálfur innra með þér og hvað það er sem þú þarft frá maka þínum. Þegar þú ert komin með þetta á hreint þá segðu þetta við maka þinn á heiðarlegan og fallegan hátt.“

Ef þú viðurkennir að þetta sé eitthvað sem þú ert að fást við, og þú þurfir stuðning með þetta og kröfur þínar eru innan eðlilegra marka, ætti ekki að vera neitt vandamál fyrir maka þinn að mæta þér í þessu.

„Í heilbrigðum samböndum ætti maki þinn ekki að ráðast á þig eða setja þig niður, eða að gera þig afbrýðisama/saman eða óöruggan,“ segir Burns. „Maki þinn ætti heldur að hlusta á þig, reyna að skilja þig, meta aðstæður og svo aðstoða þig með því að vera til staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál