„Ástin er ekki bara útlitið“

Maggi Mix er á lausu og bíður eftir réttu konunni.
Maggi Mix er á lausu og bíður eftir réttu konunni.

Maggi mix er einn heitasti skemmtikrafturinn á landinu og er á lausu. Maggi er hreinskilinn og hefur ákveðnar skoðanir á stefnumótamarkaðnum á Íslandi sem hann segir ekki vera upp á marga fiska. „Fólk er svo mikið að pæla í útlitinu og að fólk verði að vera svona eða hinsegin, „six pack“ og stæltur, en hvort sem maður er það eða ekki þýðir það ekki að maður sé eitthvað betri eða verri. Útlitið segir ekkert um manneskjuna,“ segir Maggi.

Maggi hefur verið á stefnumótamarkaðnum í svolítinn tíma, kynnst þar nokkrum konum og verið að deita. „Svo er alltaf þessi fræga setning sem þær segja; að ég sé með allt sem þarf nema ég sé ekki þeirra týpa. Samt er maður allt; yndislegur, æðislegur og allt þetta. Þá er spurningin hvaða týpu fólk er að leita að. Þú getur til dæmis farið á bílasölu og séð fullt af flottum bílum, ég meina maður getur leitað endalaust að einhverju flottu en svo er spurningin hvort það sé gott,“ segir Maggi.

Stefnumótamarkaðurinn á Íslandi hræðilegur

„Hann er að mínu mati, eins og ég hef séð hann og kynnst honum, alveg hræðilegur,“ segir Maggi þegar hann er beðinn að lýsa stefnumótamarkaðnum á Íslandi í dag. „Fólk bara deitar ekkert lengur, það er bara djammið, nokkrir kaldir og svo heim í leigubíl. Svo kvartar kannski skvísan að hann svari ekki aftur og vilji ekkert meira. Þetta er alltaf einhvern veginn það sama, sama batteríið, alltaf verið að sækja í það sama,“ segir Maggi sem telur að fólk sé oft að leita á vitlausum stöðum oft geti ástin bara verið við hliðina á fólki. Hann vill einnig að fólk fari meira á stefnumót og gefi fólki séns þótt það sé kannski ekki í formi.

„Ef ég grenntist um einhver tíu kíló væri bara hlaupið á eftir mér, þetta er svo mikið þannig. Ég hef oft grennst og þyngst og maður finnur það að um leið og maður grennist þá er maður blikkaður, en ég er samt sami maðurinn.“

Maggi Mix er mikill sprellari.
Maggi Mix er mikill sprellari.

Maggi segir stefnumótamenningu eins og á Íslandi alls ekki fyrirfinnast í öllum öðrum löndum. Hann kynntist til dæmis allt öðru viðmóti frá konum í Manchester á Englandi þegar hann fór þangað í ferð á fótboltaleik með félaga sínum. „Þar voru nokkrar konur sem voru til í að spjalla af því þeim leist vel á mig enda tiltölulega skemmtilegur og svona. Þær voru einmitt þreyttar á steríótýpunum, alltaf það sama einhvern veginn.“

Ástin snýst um meira en útlitið

Sjálfur segist hann ekki vera að leita að ákveðnu útliti í fari hins kynsins. Það skipti meira máli að manneskjan sé heiðarleg, skemmtileg og góður félagsskapur. „Það þarf ekkert að vera eitthvað Hollywood. Ástin í bíómyndunum er bara eitthvert handrit og svo kemur raunveruleikinn.“

Hvað er ást í þínum huga?

„Manneskja sem elskar þig eins og þú ert og er ekki að reyna að breyta þér. Af því þú átt að elska manneskjuna ekki fötin sem manneskjan er í eða líkama hennar. Þú átt að elska svo margt annað, jafnvel bara rödd viðkomandi, að heyra í viðkomandi konu eða manni og augun, að horfa á viðkomandi. Að eiga margt sameiginlegt. Ástin gerist ekki bara á einu kvöldi, þið þurfið að kynnast í nokkra mánuði áður þetta jafnvel smellur saman þá.

Ástin er ekki bara útlitið, það er bara að elska hvort annað, tengslin og svona,“ segir Maggi, sem er ekki búinn að gefast upp á ástinni. „Hún er þarna einhvers staðar, hún kemur á endanum hvort sem það er eftir tíu daga eða 70 ár, hún kemur,“ segir Maggi um ástina að lokum. 

Jákvæðni er meðal þess sem einkennir Magga Mix.
Jákvæðni er meðal þess sem einkennir Magga Mix.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál