Kærastinn tók „screenshot“ af brjóstamynd

Íslensk kona er áhyggjufull út af brjóstamynd sem hún sendi …
Íslensk kona er áhyggjufull út af brjóstamynd sem hún sendi kærastanum. mbl.is/ThinkstockPhotos

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hún spurð út í starfrænt ofbeldi. 

Sæl Heiðrún. 

Ég hef verið að hitta strák í nokkra mánuði og allt gengur vel. Við höfum stundum sent hvoru öðru myndir í gegnum snapchat og allt í góðu með það. Um daginn þá sendi ég honum brjóstamynd af mér og fékk tilkynningu um að hann hefði tekið „screenshot“ af myndinni. Það er ekki það að ég treysti honum ekki en mér finnst þetta rosalega óþægilegt. Þegar ég bar þetta undir hann lofaði hann að hann myndi bara eiga myndina fyrir sig og aldrei sýna neinum. Hvað ef ég kemst svo að því að hann er að sýna fleirum myndina? Er eitthvað sem ég get gert, annað en að fara í símann hans og eyða myndinni?

Kveðja, SS

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

 

Sæl SS

Þetta er ótrúlega áhugavert álitaefni sem þú kemur með. Ég get sannarlega skilið að þér finnist þetta óþægileg tilfinning og kannski skrítið að hann vilji ekki eyða myndinni ef þú hefur beðið hann um það.

Fari svo að hann sendi myndina áfram og hún komist í einhverja umferð flokkast þetta undir það sem við í daglegu tali nefnum hefndarklám. Eins og staðan er í dag er ekki ákvæði í refsilögum sem beinlínis tekur á þessu en hins vegar hafa á undanförnum árum fallið nokkrir dómar þar sem einstaklingar eru dæmdir fyrir þetta.

Nú ert þú kannski ekki að fara að kæra kærastann þinn til lögreglu á þessu stigi en það er allt í lagi að átta sig á stöðunni. Slíkt brot telst kynferðisleg áreitni eða brot gegn blygðunarsemi og er jafnframt ærumeiðing, öll brotin eru hegningarlagabrot. Skiptir þá engu að þú tókst myndina sjálf og sendir honum. Hæstiréttur hefur dæmt á þann veg að virða beri skjáskotsmyndir sem ljósmyndir, þ.e. að taki einhver skjáskot af mynd sem þú sendir skoðast skjáskotið sem sjálfstæð myndataka. Án þíns samþykkis. Jafnframt heyrir þessi háttsemi undir persónuverndarlög, þar sem um er að ræða ljósmynd af þér án þess að þú hafir heimilað myndatökuna. 

Kær kveðja, 

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu Björk spurningu HÉR.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál