Er í lagi að fyrirgefa framhjáhald?

Íslensk kona veltir fyrir sér hvort hún sé alger auli …
Íslensk kona veltir fyrir sér hvort hún sé alger auli að fyrirgefa framhjáhald. mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem á kærasta sem hefur haldið framhjá henni. Hún spyr hvort hún sé alger auli að fyrirgefa framhjáhaldið. 

Sæll Valdimar

Ég kynntist manni fyrir nokkrum, varð ástfangin upp fyrir haus og kollsteypti minni tilveru til að við gætum verið saman. Fjölskyldan mín var mjög ósátt og taldi hann ekki nógu góðan fyrir mig meðal annars þar sem hann var þekktur fyrir framhjáhald. Við áttum saman nokkur góð ár þar til hann tók upp fyrri siði og fór að halda við aðra konu. Ég komst fljótlega að því og skildi við hann nokkrum mánuðum síðar og á svipuðum tíma sleit hann sambandið við viðhaldið.

Í dag höfum við verið sundur í dágóðan tíma en höfum ákveðið að stokka upp á nýtt og reyna aftur. Við þá ákvörðun mína hef ég misst fjölskylduna mína að mestu og flesta vini. Mér er sagt að ég sé ömurleg fyrirmynd barnanna og nú sé ég algjörlega búin að klúðra lífinu. Mér finnst ég ekki eiga að þurfa að sannfæra fólk um mínar ákvarðanir en það er sárt að standa allt í einu ein.  Er þetta algjörlega „lost case“ að ætla að fyrirgefa framhjáhald?

Kær kveðja, týnda konan

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Góðan daginn og takk fyrir að senda þessa fyrirspurn.

Ég átti von á því að þú værir að spyrja hvort það væri skynsamlegt að fara aftur í samband með aðila sem hefur ítrekað verið ótrúr í samböndum og þar á meðal gagnvart þér. Í lok lestrar kemur hins vegar í ljós að spurningin snýst ekki um það heldur hvort hægt sé að fyrirgefa framhjáhald. Svarið er einfaldlega: Já það er hægt.

Það er virkilega góður eiginleiki að geta fyrirgefið öðrum sem hafa gert eitthvað á okkar hlut. Það að fyrirgefa er ekki það sama og að segja að maður sé sáttur við það sem gerst hefur. Fyrirgefningin er ekki síst mikilvæg fyrir okkur sjálf því það er engum hollt að burðast með ófyrirgefningu. Mörgum þykir þetta frekar aumingjaleg afstaða, vilja ekki sleppa gerandanum svo vel að fyrirgefa honum og finnst eðlilegt að bera jafnvel hatur í garð þess sem hefur valdið slíku áfalli sem framhjáhald er. Það er mjög skiljanleg afstaða og fullkomlega eðlilegt að verða reiður, sár og sætta sig alls ekki við ótrúnað af þessu tagi. Vandinn er engu að síður sá að það bitnar mest á þolandanum sjálfum að bera þessar vondu tilfinningar áfram inn í framtíðina. Þess vegna segi ég að það er fyrst og fremst mikilvægt fyrir þolandann að fyrirgefa, svo honum sjálfum geti liðið betur. Eðlilega getur það tekið einhvern tíma að komast á þann stað að maður sé tilbúinn til þess. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að skömmin er gerandans og hann þarf að eiga við sínar tilfinningar, hvort sem viðkomandi vinnur með þær eða ekki.

Fjölmargir hafa upplifað ótrúnað og framhjáhöld í sínum samböndum og mjög mismunandi hvernig fólk tekst á við það. Sumir fara ekki úr sambandinu, gera í raun ekkert í málinu, loka á það og ræða það ekki, ala á gremju, sorg, höfnunartilfinningu, ófyrirgefningu og fleiri óþægilegum tilfinningum innra með sér. Það segir sig sjálft að það er ekki vænlegt til að byggja upp gott líf fyrir þann einstakling, hvað þá  gott parasamband. Aðrir fara úr sambandinu eins fljótt og auðið er en eru líka með þessar sáru tilfinningar innra með sér og vinna lítið í þeim. Það leiðir til þess að þessir einstaklingar upplifa sáran sársauka í hvert sinn sem minning kemur upp sem tengist áfallinu. Það getur verið nóg að sjá einhverja manneskju, heyra ákveðið nafn, heyra ákveðna tónlist, finna kunnuglega lykt og svo framvegis. Æskilega leiðin er hins vegar að vinna með þessar tilfinningar, vinna úr þeim og ná betri líðan sem einstaklingur. Það er alltaf besta leiðin, hvort sem fólk velur að vera í sambandi við gerandann eða ekki. Það hvort skynsamlegt er að treysta einhverjum sem hefur ekki verið traustsins verður, verður hver og einn að meta. Þar sem þú hefur ákveðið að rugla aftur saman reytum með viðkomandi, þrátt fyrir að það kosti þig talsverðar fórnir, þá er mikilvægt að þú vinnir úr þínum tilfinningum og að þér líði sem best til þess að geta betur notið þess að vera í sambandinu.

Með kærri kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál