Makinn vill ekki að ég hitti vinkonur mínar

Það eru ekki allar konur eins og vinkonurnar í Beðmálum …
Það eru ekki allar konur eins og vinkonurnar í Beðmálum í borginni.

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er eiginlega hætt að hitta vinkonur sínar því það fer svo illa ofan í maka hennar. 

Sæll Valdimar og takk fyrir öll svörin sem þú hefur veitt.

Ég hef verið að hugsa mikið um ákveðið vandamál sem hefur alltaf verið til staðar í sambandinu mínu og reyndar heyri ég oft af því hjá öðru fólki í kringum mig. Þannig er að alltaf þegar mig langar að fara eitthvað út til dæmis með vinkonum mínum þá verður maðurinn minn rosalega pirraður og virðist gera allta til að draga mig niður. Hann virðist stöðugt óttast að eitthvað gerist og tilhugsunin um að „sleppa“ mér einni virðist vera meira en hann ræður við. Það er orðið mjög erfitt fyrir mig að afsaka mig frá því að hitta vinkonur mínar og þegar til dæmis er talað um að fara til útlanda saman þá fæ ég bara kvíðahnút í magann af því ég veit að það er í rauninni ekki möguleiki fyrir mig, það kostar of mikið álag. Ég finn það að þetta er farið að vera hundleiðinlegt og pirrandi enda vil ég ekki einangra mig og stundum langar manni einfaldlega að gera eitthvað með vinum sínum, án þess að makinn sé endilega með. Hann hefur líka sagt að það sé ekki eðlilegt að vilja það og að ef fólk er í sambandi þá sé það búið að skuldbinda sig því hlutverki og ætti því ekki að vilja þvælast eitthvað án makans.

Hvað finnst þér um þetta, ætti ég að vera „góð“ og sætta mig einfaldlega við að það sé ekki í boði að ég fari eitthvað ein? Mér finnst það samt svo sorglegt.

Ein ráðþrota

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. mbl.is/Árni Sæberg

Góðan daginn „ráðþrota“ og takk fyrir þessa spurningu.

Það sem þú talar um er víða vandamál og virkilega gott að ræða þessa hluti fyrir öll pör. Í grunninn getum við sagt að það sé engan veginn eðlilegt að geta ekki notið þess að hitta vini sína og jafnvel ferðast með þeim ef svo ber undir. Það er engu að síður mjög algengt að ástandið sem þú lýsir sé til staðar í samböndum, þar sem annar aðilinn gerir það sem hann getur til að koma í veg fyrir að makinn fari einn síns liðs. Reyndar er það víða þannig að báðir aðilar leika þennan sama leik. Ástæðurnar fyrir þessu geta verið mismunandi. Stundum hefur eitthvað komið upp á í sambandinu sem veldur því að það er ekki traust til staðar. Þetta er oftar en ekki tengt áfengisdrykkju og/eða trúnaðarbrotum í sambandinu. Eins getur það vel verið að einhver slík tilvik hafi gerst í fyrri samböndum og óttinn við að það gerist aftur er enn til staðar. Eðlilega er fólk einhvern tíma að jafna sig ef traustið hefur verið brotið og getur því verið að erfið reynsla af þessu tagi ýti undir óttann við að fólk verði sært á ný. Í öðrum tilvikum eru ástæðurnar að finna alveg aftur í barnæsku þar sem sem fólk upplifði það að verða yfirgefið af þeim sem skiptu það mestu máli. Það skilur eftir sársauka sem kemur sterkt upp í svona aðstæðum þar sem hugurinn magnar upp óttann við að verða hafnað. Margir lísa þessari tilfinningu sem það allra versta sem þeir hafa upplifað og finna algjöran vanmátt gagnvart henni. Þá gera þeir það sem þeir geta til að koma í veg fyrir að þurfa að upplifa sársaukann og fara jafnvel að hindra makann sinn í að umgangast annað fólk. Þetta ástand getur orðið mjög alvarlegt, er augljóslega vont fyrir alla aðila og kemur í veg fyrir persónulegan þroska og þroska sambandsins.

Til þess að sambönd geti gengið sem best eru nokkur grundvallaratriði sem þarf að hlúa að. Traust er eitt þeirra en í þeim tilvikum þar sem fólk ber gamlan sársauka á borð við það að hafa orðið fyrir ítrekaðri höfnun í uppvextinum, þá dugir ekki heilbrigð skynsemi til. Jafnvel í þeim tilvikum þar sem trúnaðarbrot hefur aldrei átt sér stað í sambandinu og þessir einstaklingar viti innst inni að samkvæmt reynslu þeirra í núverandi sambandi, þá þurfi ekkert að óttast, þá er hugurinn fljótur að grípa inn í og sáldra efa og ótta inn í aðstæðurnar. Þar með verða til þessar sterku tilfinningar sem ná tökum á fólki, umfram heilbrigða skynsemi, og valda því að þeir fara að hegða sér í samræmi við það.

Þó svo að við förum í samband má ekki gleyma því að við erum einstaklingar sem höfum þarfir og langanir og líður best ef við erum að vaxa og þroskast í lífinu. Það er augljóslega ekki gott ef við erum svo háð maka okkar eða svo hrædd að við höldum aftur af hvort öðru í lífinu. Best væri ef við værum öll með heilbrigða sjálfsvirðingu og búin að vinna úr fortíðarvanda á borð við það að hafa verið hafnað. Þannig getur einstaklingurinn upplifað að hann sé „nóg“ og ekki háður öðru fólki, þar með talið maka sínum. Það er mikilvægur grunnur að því að geta treyst öðrum og sleppa tökunum á því að við eigum ekki, og getum ekki verið að stjórna öðru fólki. Fyrir þá sem upplifa þennan sterka ótta við að verða yfirgefnir er mjög mikilvægt að vinna úr því með fagaðila. Ég hvet þig til að ræða þetta hreinskilnislega við maka þinn og segja honum hvað þú ert að upplifa. Ef hann er tilbúinn að skoða sínar tilfinningar getur verið að það komi í ljós hver raunverulegi óttinn er og þá getið þið stutt hvort annað í að styrkja hann gagnvart því. Það er ekki gert með því að þú farir aldrei neitt, heldur einmitt með því að æfa ykkur meðvituð um óttann. Þið getið þá rætt jafnóðum um stöðuna, hvernig líðanin er og hvort hann finni sig styrkjast í að upplifa ekki óttann. Ef það gengur vel þá hafið þið vaxið og þroskast sem par og þekkið hvort annað betur. Ef hins vegar að umræða um þessi mál kostar mikil leiðindi og árekstra og að ykkur verði ekkert ágengt með að prófa ykkur áfram, þá tel ég mikilvægt að þið hittið fagaðila sem getur aðstoðað ykkur með þetta verkefni.

Gangi ykkur allt í haginn.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál