Er eðlilegt að makinn djammi oft í mánuði

Er í lagi að makinn djammi nokkrum sinnum í mánuði …
Er í lagi að makinn djammi nokkrum sinnum í mánuði einn? mbl.is/Thinkstock

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu um hvort það sé eðlilegt að annar aðilinn í sambandi djammi einn nokkrum sinnum í mánuði. 

Góðan dag,

Djamm á öðrum makanum. Er eðlilegt að annar makinn fari og djammi 1-3 sinnum í mánuði án hins aðilans og er oftast  í bænum þar til staðir loka um 5 - 5:30? Við erum fjölskyldufólk með ung börn á heimilinu.

Kv.

XXXX

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn XXXX og takk fyrir þessa hnitmiðuðu spurningu.

Ég ætla að voga mér að segja að almennt væru líklega fleiri sammála því að það sé ekki gott að annar aðili í sambandi sé einn á „djamminu“ fram undir morgun nokkrum sinnum í mánuði. Ég hef þó engar vísindalegar sannanir þar að baki. Hins vegar er það þannig í lífinu að það sem einum finnst í lagi þykir öðrum engan veginn í lagi. Það er örugglega til fullt af fólki sem myndi svara þessari spurningu á þann veg að því finnist það bara í góðu lagi að aðili í sambandi sé reglulega án makans að skemmta sér þrátt fyrir að vera fjölskyldumanneskja. Það er í raun ekkert að því að hafa þá skoðun, hver og einn hefur rétt á sinni skoðun. Það eina sem skiptir því máli í þessu er hvað þér finnst vera í lagi.

Það er mjög algengt að fólk sem leitar aðstoðar hjá ráðgjafa á einmitt erfitt með að henda reiður á hvað því finnst rétt og hvað ekki. Þessum einstaklingum líður eins og þeir geti ekki tekið ákvarðanir eða myndað sér skoðun af því þegar þeir hafa gert það eru einhverjir sem dæma skoðun þeirra, setja út á hana og telja þeim jafnvel trú um að hugmyndirnar sem þeir hafa séu rangar. Það er stöðug vinna í lífinu að mynda sér skoðanir, taka ákvarðanir og stíga spor sem maður telur að séu rétt. Fátt er verra en að vera svo óákveðinn að maður stendur í stað og þorir hvorki áfram né afturábak. Þá er einmitt hætt við því að við látum aðra um að taka ákvarðanir fyrir okkar líf og því miður er ekkert víst að þeir séu með okkar hagsmuni í huga.

Að mynda sér skoðun og taka ákvörðun er góð tilfinning og mikilvæg til þess að okkur líði vel og finnum styrkinn í því að standa með okkur sjálfum. Þú ert leikstjórinn í þínu lífi og enginn annar getur svarað því hvað þér þykir eðlilegt og hvað ekki. Þess vegna er svarið, þú þarft sjálf að ákveða hvort þér finnist þetta í lagi eða ekki. Ef þér finnst þetta ekki í lagi, þá þarftu að ákveða hvað þú ætlar að gera í því.

Gangi þér vel í ákvarðanatökunni!

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál