Hafði lúmska fordóma fyrir andlega veikum

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

Einar Áskelsson sem glímt hefur við kulnun segir að fyrir árið 2015 hafi alþjóðlegur dagur andlegrar heilsu farið framhjá honum en ekki eftir að hann veiktist. Dagurinn var haldinn hátíðlegur um allan heim í gær og þess vegna setti Einar saman pistil: 

Fagna árlegum alþjóðlegum degi andlegrar heilsu. Fyrir árið 2015 hefur sá dagur farið framhjá mér!

Freistandi að býsnast yfir stöðu geðheilbrigðiskerfisins á vegum hins opinbera. Læt það vera ... nema hún er skammarleg! 

#égerekkitaboo átakið haustið 2015 var himnasending fyrir mig. Var þá fárveikur og máttvana að hefja batagönguna eftir 2 ára stríð við djöful sem heitir á frummálinu „Complex Post Traumatic Stress Disorder (CPTSD).“ Má þýða beint sem flókna áfallastreituröskun. Erlendis oft nefnd krónísk. Nóg um það.  

Ég man vel að innst inni hafði ég lúmska fordóma gagnvart andlega veiku fólki. Vissulega var viðmiðið fólk sem mjög alvarlega veikt. Fordómarnir lágu í þeirri hugsun að aldrei myndi ég tilheyra þessum hópi! Já flokka fólk í dilka! 

Fordómar byggjast oftast á vanþekkingu. Komst fljótt að því ég vissi ekkert um „heim“ andlegra veikra né hvers konar veikindi fólk glímdi við. Ef ég heyrði um þunglyndi sagði „þekkingin“ mín þá að viðkomandi hlyti þá að liggja allan sólarhringinn í bælinu með ljósin slökkt og breitt yfir haus. 

Ég var fljótur að læra og kom mér í opna skjöldu hvað hópurinn er stór. Fólk með ýmis konar veikindi á öllum stigum. Sumir að taka fullan þátt í lífinu en aðrir ekki, eins og gengur eftir eðli og alvarleika veikindanna. Aldrei grunaði mig að ég hafði líklega oft unnið með fólki sem glímdi við andleg veikindi. Þar kemur lykilpunktur. Í minni vanþekkingu var sá sem var „dæmdur“ andlega veikur úr leik í þjóðfélaginu. Endastöð tilverunnar. 

Í dag fæ ég hroll að hafa gengið með þessi viðhorf en vissi ekki betur. Leit ekki niður á andlega veikt fólk, aðeins feginn að vera ekki í þeim hópi. 

Það var holl lexía að kyngja öllum fordómum. Ég lagði mig fram því ég var með fordóma út í sjálfan mig. Segi oft að það var mér til happs hversu útbrunninn ég var á sál og líkama að í varnarleysi mínu var ég uppfullur af tærri auðmýkt. Á þeim stað var ég viljugur til að læra allt og gera allt til að ná bata. 

Sem er annað lykilatriði. Nefndi endastöð. Ég lærði að þó ég greindist með andlegan sjukdóm eða röskun voru til leiðir að ná bata og geta lifað með veikindunum. Tekið á ný fullan þátt í tilverunni líkt og hver annar. Æi nú er dauðafæri að bauna á stjórnvöld! Að leggja fè til forvarna og meðferðarúrræða mun ALLTAF skila sér margfalt til baka!! Ok ekki meir um það.

Ætla ekki að rekja batasögu mína né niðurlægjandi upplifanir að fá ekki rétt úrræði við minni röskun vegna notabene vanþekkingar á röskuninni. Á meðal FAGFÓLKS. En svo ég monti mig aðeins þá hefur það verið mín gæfa að hafa mikið keppnisskap, þola ekki að tapa, tilbúinn að leggja á mig vinnu og mikla sjálfsbjargarviðleitni. Ég neyddist að finna leiðir að hjálpa sjálfum mér. Verð þá að koma þeirri sáru staðreynd fram að mín röskun er lífshættuleg og ég var mjög hætt kominn. Ég vildi lifa. Þess vegna gerði èg það sem þurfti að gera. 

Aftur um fordómana. Það hefur komið í ljós að í grunninn er ég ekki með andlegan sjúkdóm s.s. þunglyndi, félagsfælni, geðhvarfasýki o.s.frv. Hins vegar haldinn sterkum einkennum eins og ofsavíða- og ótta sem afleiðingar af áföllum. Samt lít ég á mig sem andlega veikan sem ég er og tel mig tilheyra fólki með ýmis konar andleg veikindi. Einfalt. Ef ég stunda ekki mitt bataprógram í dag fer illa fyrir mér. Ég verð andlega veikari. 

Frá því ég náði upp lágmarksorku og áttaði mig á hvað var að mér og fyrrnefndum „heimi“ andlegra veikra, hef èg látið til min taka. Líklega hluti af mínum karakter. Fyrir nánast slysni birtist pistill eftir mig opinberlega á netinu og viðbrögðin svo mikil að mér fèllust hendur. Ekkert neikvætt. Fólk var að þakka mér fyrir og í alvörunni kunni ég ekki að meðtaka það. Aldrei upplifað annað eins. Eftir umhugsun hélt ég afram að rita og birta pistla því það hjálpaði mér og ég vissi orðið að þeir voru mikið lesnir en það besta var að ég virtist ná að gefa af mér til annarra. Það er stórkostleg tilfinning. Þakklæti og auðmýkt. Þetta er fólk já með alls konar andlega kvilla. Það tengdi samt við pistlana. Þá áttaði ég mig á samnefnaranum hjá andlega veikum. Engin vísindi. Við eigum svo margt sameiginlegt burtsèð frá veikindunum. Ég kalla það mein samfélagsins. Mein sem fær andlega veiku fólki til að upplifa fordóma og þá skömm. Þeirri skömm á að skila til föðurhúsa! 

Íslenskt samfèlag á ekki að flokkast í „við“ og „þið“. Þið eruð ekkert betri né verri en við! Þetta endurspeglast reyndar í öllum þáttum þjóðfélagsins t.d. stéttarskipting fólks. Þetta smitar allt hvort annað.

Ég ákvað í sumar í að taka mér góða pásu frá pistlaskrifum og hef staðið við það. Á þessum degi finnst mér í lagi að „hvíla“ pásuna og tjá mig aðeins.

Persónulega hefur mér gengið vel eftir að ég sagði skilið við Virk Starfsendurhæfingu. Áttaði mig á hversu mikill streituvaldur sú meðferð var. Er enn að bíða eftir að komast í rétt úrræði (já svona er staðan í heilbrigðiskerfinu!). Það er samt stór munur að sjá hjálpina framundan og eyða út óvissu. Því hefur mitt andlega jafnvægi aldrei verið betra en í sumar. Ég stunda alltaf mitt prógram á hverjum degi sem er einfaldlega minn lífstíll í dag. Engin kvöð. Breyttir tímar. Breyttur maður. Breyttar aðstæður. Eins og sagt er þá hef ég það eins gott og ég get ætlast til.

Ég er í dag þakklátur og stoltur að hafa fengið að kynnast veröld andlegra veikra. Hefur gert mig að betri manneskju. Það er eftrsóknarvert. 

mbl.is