Hvenær hætta börn að vera viku og viku?

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér hvenær börn hætta að flakka á milli heimila. 

Sæll Valdimar,

ég hef verið að velta fyrir mér með unglinga sem eiga fráskilda foreldra og búa til skiptis á báðum heimilum. Hvenær eru þeir orðnir það gamlir að það er betra fyrir þá að eiga eitt heimili og hætta að flakka á milli? Kemur einhvern tímann sá tími að þau ráða bara sjálf hjá hvoru foreldrinu þau eru á hverjum tíma? Eða er best að halda bara rútínunni þangað til þau flytja að heiman?

Kær kveðja, KK

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir þessa gagnlegu spurningu. Þrátt fyrir að spurningin sé stutt og hnitmiðuð er frekar erfitt að koma með stutt svar.

Fjöldi skilnaða af þeirri stærðargráðu sem við þekkjum í dag er í raun svo nýlegt fyrirbæri í sögulegu samhengi að við erum stöðugt að læra hvað réttast er að gera. Það er í raun ekki fyrr en upp úr 1970 sem skilnuðum fer að fjölga verulega og eðlilega erum við sem tilheyrum þeirri kynslóð sem á eftir kemur að læra skrefin þegar kemur að eftirmálum skilnaða og stjúpfjölskyldum. Þar er margt í mótun en líka ýmislegt sem komin er einhver reynsla á. Sumir fagaðilar hafa sérhæft sig í málum stjúpfjölskyldna og í því samhengi er til dæmis hægt að nefna heimasíðuna www.stjuptengsl.is. Þar koma fram ýmsar gagnlegar upplýsingar og leiðir til að fá aðstoð í tengslum við stjúpfjölskyldur. Að sama skapi má nefna fjölda ráðgjafa sem sinna málefnum fjölskyldna.

„Hvað er best fyrir börnin?“ er akkúrat það sem við ættum að fókusera á þegar skilnaðir koma upp þar sem börn eru í spilinu. Því miður fer fókusinn stundum á það hvað okkur foreldrunum hentar, frekar en börnunum sjálfum. Þar spila jafnvel inn í persónuleg mál, illindi og barátta milli foreldra sem getur komið illa niður á börnunum sjálfum. Þetta er augljóslega mjög viðkvæmur málaflokkur, miklar tilfinningar í spilinu og fjölmörg sjónarmið sem koma fram í hverju einasta máli sem snýr að forsjá, umgengni, búsetu, uppeldi barna í tengslum við skilnaði. Hafa þarf í huga hver réttur allra aðila er, bæði barna og foreldra þegar þessi mál eru skoðuð. Við getum rætt almennt um þessi mál en ef um ágreining er að ræða taka við lög og reglur sem eiga að taka á flestum þeim ágreiningsatriðum sem upp koma. Að þessu sögðu þá tek ég fram að það sem skrifað er hér á eftir miðast við að góð sátt ríki á milli foreldra um það hvernig búsetu barna og unglinga er háttað. Eins er miðað við að um sé að ræða uppkomin börn eða unglinga sem hafa þroska og aldur til að meta málin á yfirvegaðan hátt.

Áður fyrr var algengt fyrirkomulag að börn færu aðra hverja helgi til föður, þótt annars konar fyrirkomulag þekktist líka. Á síðustu árum hefur borið meira á því að um viku og viku fyrirkomulag sé að ræða. Fjölmörg rök fylgja hverri hugmynd fyrir sig en á endanum er best að fyrirkomulagið sé til þess fallið að börnunum líði sem best, þau finni eins mikið öryggi og hægt er og hafi sjálf eitthvað um málin að segja, ekki síst þegar þau eldast. Eins er réttur þeirra til að umgangast foreldra sína gríðarlega mikilvægur. Það sem meðal annars kemur upp í þessari umræðu eru eftirfarandi hugleiðingar sem allar hafa vægi þegar um það er fjallað hvar best sé fyrir börn/unglinga að búa:

  1. Hvar líður börnunum sjálfum best (með tilliti til samskipta, félagslegra tengsla, aðbúnaðar og þess háttar)?
  2. Hvar voru börnin búsett áður en til skilnaðar kom (þar er líklegt að þau hafi byggt upp mestu tengslin við skólafélaga og vini)?
  3. Líður börnunum eins og þau hafi fastan punkt í lífinu þar sem þau búa eða finnst þeim þau vera að „rífa sig upp“ og flytja í hverri viku?

Þegar litið er á upplýsingar inn á upplýsingasíðu Sýslumanna www.syslumenn.is kemur eftirfarandi texti meðal annars fram varðandi forsjá:

„Foreldrar eiga ávallt að gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum eins og best hentar hag og þörfum barns síns og þeim ber að hafa samráð við barnið áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Afstaða barns á að hafa aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.“

Það er því ljóst að ef um uppkomið barn eða unglinga er að ræða er mikilvægt að afstaða þeirra fái hljómgrunn og ef foreldrar eiga í góðum samskiptum þá ætti það ekki að vera vandamál að ræða þessi mál á opinskáan máta og finna fyrirkomulag sem allir geta sætt sig við. Gott er að hafa í huga að orðið „sveigjanleiki“ er talið afar mikilvægt þegar kemur að verkefnum stjúpfjölskyldna.

Gangi ykkur vel í þessu verkefni.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál