Hvernig verður lífið betra?

Linda Baldvinsdóttir samskiptaráðgjafi og markþjálfi hjá Manngildi.
Linda Baldvinsdóttir samskiptaráðgjafi og markþjálfi hjá Manngildi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég sá mynd á netinu um daginn sem gaf upp 10 atriði sem þú ættir að hafa í huga ef þú vilt hugsa vel um þig og líf þitt og ætla ég að fjalla um þessi atriði hér og hvers vegna þau eru ágæt til umhugsunar,“ segir Linda Baldvinsdóttir samskiptaráðgjafi og markþjálfi hjá Manngildi í sínum nýjasta pistli: 

Fyrsta skrefið og kannski það mikilvægasta er „Ef þér finnst það rangt, ekki þá taka þátt í því.“

Þetta er lykillinn að velgengni okkar á öllum sviðum. Hversu oft er það ekki þannig að við finnum einhvern ófrið innra með okkur en veljum að hunsa þá líðan en komumst síðan að því að við höfðum rétt fyrir okkur, varnarkerfi hjartna okkar hafði varað okkur við en við treystum ekki á það - treystum frekar því sem við upplifðum í hinu yrta. Svo þetta er það allra mikilvægasta, HLUSTAÐU Á ÞIG.

Annað ráðið var að segja nákvæmlega það sem þú meinar og að já þitt sé já og nei þitt sé nei. Ég held að við vitum flest að þegar við segjum já við einhverju sem okkur langar að segja nei við þá förum við í mótþróa innra með okkur og við finnum að við erum ekki sjálfum okkur samkvæm heldur meðvirk með aðstæðum og beiðni annarra gegn vilja okkar. Það er ekki smart og í raun lækkar virði okkar hjá okkur sjálfum um einhver stig við hvert já sem hefði átt að vera nei og öfugt.

Þriðja ráðið var einmitt það að við ættum ekki að vera að geðjast fólki einungis til að því líki betur við okkur. Það heilbrigða er að hugsa með sér að það sé vita vonlaust að öllum geti líkað vel við okkur og því verði fólk að kynnast okkur eins og við erum með öllum okkar kostum og göllum og meta útfrá því löngun sína til að þekkja okkur og umgangast.

Fjórða ráðið ætla ég ekki að tala meira um en ég gerði í upphafinu því það er að við ættum að hlusta á innsæi okkar alltaf öllum stundum, því að öll rauðu flöggin eða ljósin sem við upplifum hið innra er innsæið okkar eins og ég sagði hér að framan, svo hlustum á það elskurnar, það mun færa okkur á réttar slóðir. (Það þýðir ekki að við lendum ekki í dölunum en við komumst fyrr á rétta slóð með því að hlusta og taka eftir því hvað innsæið segir okkur)

Aldrei tala illa um þig var fimmta ráðið og ég er svo sannarlega sammála því. Aldrei segja við sjálfan þig hluti sem þú gætir ekki hugsað þér að segja við aðra. Talaðu af virðingu um þig við þig sjálfan og aðra. Byggðu þig upp með þeim hætti að segja þér að þú getir allt og sért dýrmæt og segðu svo sjálfri þér að þú elskir þig nákvæmlega eins og þú ert og sjálfsvirði þitt mun óumdeilanlega hækka og rýmið fyrir „mistök og fleira“ verður byggt á raunhæfu vingjarnlegu mati.

Sjötta, sjöunda og áttunda ráðið fjallaði í raun um það að gefast aldrei upp á því að sækja drauma þína. Sæktu þá og taktu skrefin út fyrir hefðbundna rammann þinn með því að segja já við hlutum sem gætu fært þig nær draumum þínum og segðu nei við úrtöluröddunum sem munu hljóma allt um kring. Það er næsta víst að þú þurfir að ýta þér frá þeim sem sjá allt ómögulegt við framkvæmdir þínar og munu ekki styðja þig á vegferð þinni þér til mikils sársauka, en þetta þekkja flestir sem fara út úr römmunum og það er ekkert við þessu að gera annað en að hugsa sér að þetta fólk vilji þrátt fyrir allt það besta fyrir þig en halda þig svo nærri þeim sem byggja þig upp.

Níunda ráðið var - dekraðu við þig og vertu góður við þig!

Ég er svo gjörsamlega sammála þessu ráði þar sem ég veit að það ráð mun alltaf gagnast þér vel í öllum kringumstæðum að huga vel að því að dekra þig, og kannski er það aldrei jafn mikilvægt og þegar eitthvað á bjátar í kringum þig. Þá sem aldrei fyrr skaltu hugsa vel um þig til anda sálar og líkama og sýna sjálfum þér vinsemd og kærleika á öllum sviðum.

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum en það er einmitt síðasta ráðið sem gefið var upp en það er haltu þig frá drama og neikvæðni í öllum myndum þess. Þegar þú finnur þig í þannig aðstæðum forðaðu þér þá. Neikvæðni og neikvætt fólk dregur úr þér gleðina og lífsneistann á hraðari hátt en flest annað sem ég veit um og aldrei hef ég vitað að drama skapaði af sér eitthvað annað en meiri drama engum til heilla en fleirum til tjóns. Hinsvegar ef hjarta þitt er glatt og gleðiorkan streymir frá þér þá eru þér allir vegir færir og flestum líður afar vel í kringum þig, þannig að við skulum gera okkar besta hvern dag að búa til gleðistundir jafnvel mitt í erfiðum aðstæðum.

Og ef þú telur að ég geti orðið þér til aðstoðar við að ná í gleðina þína og halda í hana þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál