10 lífsreglur Esther Perel

Esther Perel er einn þekktasti sambandsráðgjafi veraldar. Hún hefur unnið …
Esther Perel er einn þekktasti sambandsráðgjafi veraldar. Hún hefur unnið með pörum í marga áratugi og hefur djúpa þekkingu á hvað virkar í samböndum, og hvað virkar ekki. Ljósmynd/Instagram

Esther Perel er einn þekktasti sambandsráðgjafi samtímans. Foreldrar hennar lifðu af útrýmingarbúðir nasista og á hún farsælt hjónaband að baki og tvö börn. Hún hefur starfað með fjölmörgum pörum í gegnum árin víðs vegar um heiminn og hefur lagt fram nokkrar lífsreglur sem hún lifir eftir sem dregur saman reynslu hennar af samböndum og lífinu almennt.

Hjónabandið er saga

„Ást er eins og vatn sem flýtur um á. Þar sem ævintýri, reglur og leyndarmál fljóta ákveðna leið. Hjónaband er ekki endalok rómantíkur, heldur upphaf hennar. Fólk í góðu hjónabandi veit að það hefur fjölmörg ár til stefnu til að læra meira um hvort annað, til að dýpka tengslin og prófa sig áfram, ná árangri saman og jafnvel mistakast. Þau líta á hjónabandið sitt sem lifandi sögu, en ekki eitthvað staðlað. Saga sem þau eru að skrifa saman, saga með mörgum köflum, og báðir aðilar hafa ekki hugmynd um hvernig það endar. Það er alltaf einhver kimi sögunnar sem þau hafa ekki náð að skoða enn þá, alltaf eitthvað sem þau eiga eftir að uppgötva um hvort annað. Í hjónaböndum vita aðilarnir að þeir munu aldrei kynnast hvor öðrum að fullu.“

Það þarf heilt þorp til að láta hjónaband virka

„Í dag höfum við tilhneigingu til að leita til maka okkar með hluti sem allt þorpið sá um hér á árum áður. Fyrir vellíðan, tilgang og hjálp. Á sama tíma viljum við að sambandið sé rómantískt, fullnægi okkur kynferðislega og tilfinningalega. Það er því ekki að undra að hlutirnir séu ekki að virka hjá fólki í samböndum dagsins í dag.“

Ást

„Ást byggir á tveimur stoðum: uppgjöf og sjálfstæði. Þörfin okkar fyrir nánd liggur samhliða þörfinni okkar fyrir að vera einstaklingar með okkar eigin einkenni.

Ástin vil vita allt um þig á meðan löngunin og þráin þrífst á dulúð. Ástin vill minnka fjarlægðina á milli þín og mín, á meðan þráin eflist í fjarlægð. Ástin snýst um að eiga; þrá um að vilja. Svo oft þegar pör verða ástfangin leggja þau meiri áherslu á að verða eitt í nánd og sambandi og gleyma að búa til súrefni og fjarlægð á milli sín sem einstaklinga. Þau gleyma að þráin þarf súrefni.

Það ættu allir að eiga sinn eigin leynigarð.“

Traust

„Hægt er að flokka uppalendur á þrjá vegu. Foreldrarnir sem segja við börnin sín: „Farðu og uppgötvaðu heiminn. Hann er spennandi.“ Foreldrar sem segja: „Af hverju viltu fara og skoða heiminn? Er ekki nógu gott hér heima?“ Síðan foreldrar sem segja ekki neitt og börnin fara og koma aldrei aftur. Út frá þessu uppeldi fáum við mismunandi einstaklinga. Fólk sem á auðvelt með að treysta og nær að upplifa innan sambandsins. Fólk sem er sífellt hrætt um að missa maka sinn og fólk sem er hrætt við að missa sig sjálft í sambandi. 

Ef þú ætlar að upplifa gott samband þarftu að gefa sjálfum þér og öðrum traust og gefa þér og öðrum tækifæri til að upplifa og prófa. Hér er ekki verið að tala um að gefa leyfi til að halda fram hjá, heldur meira að gefa leyfi til að lifa og ákveða að treysta makanum þangað til annað kemur í ljós.“

Framhjáhald

„Flest okkar hafa orðið fyrir áhrifum af framhjáhöldum. Annaðhvort höfum við haldið fram hjá sjálf, það hefur einhver haldið fram hjá okkur, við erum börn foreldra sem hafa haldið fram hjá, eigum vini sem hafa haldið fram hjá og svo framvegis.

Í dag fylgir skömm að halda áfram sambandi ef maki þinn hefur orðið uppvís að framhjáhaldi. Fólk dæmir þá sem halda fram hjá. Það er galið að mínu mati! Allir eiga sínar sögur, allir hafa sínar ástæður. Það er ekkert sem réttlætir framhjáhald en það er heldur ekkert sem réttlætir það að við förum úr einu sambandi í annað án þess að vinna í hlutunum.

Flestir þeir sem koma til mín og halda fram hjá hafa orðið fyrir áfalli eða missi á ákveðnu tímabili. Þeir sakna sín í sambandinu. Þeir laðast ekki að sjálfum sér lengur. Þeir átta sig á að þeir munu ekki lifa að eilífu og standa á krossgötum.

Þeir sem ná að vinna sig í gegnum framhjáhald tala vanalega um framhjáhaldið seinna sem atburð sem varð til þess að sambandið óx og fór á betri stað. Eins konar kafla í sambandssögu sinni sem varð til þess að vekja báða aðilana upp.“

Markaleysi

„Í vinnunni minni sé ég mikið af markaleysi á milli para. Einstaklinga sem bíða ekki eftir því að þeim sé boðið inn á svæði maka síns, heldur krefjast þess að fá aðgang líkt og þeir hafi rétt á hinum aðilanum. Að þeir eigi þá og vilja þannig stjórna og hafa stöðugan aðgang að þeim sem þeir eru í sambandi við. Þetta er hugsanavilla að mínu mati. Við eigum ekkert nema okkur sjálf. Við þurfum að vera besta útgáfan af okkur. Við eigum ekki að vera að leita að hinum/hinni einu réttu, heldur eigum við að reyna að verða hin/hinn eina/eini rétti og vonast til að maki okkar verði það líka.“

Erótík

Erótíkin býr og vex í bilinu á milli okkar og annarra. Það er erfitt að upplifa þrá eða losta þegar maður er með áhyggjur, eins er ómögulegt að upplifa það að vilja eða þrá einhvern sem þú hefur sameinast í eitt með. Þess vegna þurfum við að vera við, leyfa öðrum að vera þeir og búa til þetta bil okkar á milli þar sem okkur langar í hvort annað. Ímyndunaraflið skiptir miklu máli þegar kemur að ást, ekki hinn aðilinn.

Við þurfum að vera sammála um að erótík sé fyrir alla og það þarf að rækta erótík á heimilinu. Um leið og þú ákveður að erótík sé bara fyrir aðra eða ungt fólk, þá ertu að hafna erótík í þínu lífi. Ef þú vilt upplifa erótík með maka þínum þarftu að skilja að þú munt aldrei vita allt um hann, eða vilja vita allt um hann.“ 

Mynstur í sambandi

„Það þarf tvo einstaklinga til að búa til mynstur í sambandi en einungis einn til að breyta mynstrinu. Hver og einn þarf að taka ábyrgð á sínum hluta í sambandi þar sem mynstrið er ekki að þjóna parinu. Það er nóg fyrir annan aðila að stíga út úr þessu mynstri til að breyta. Þá geta einstaklingarnir ákveðið að verða ásfangnir aftur og halda áfram í næsta kafla sambandsins eða fundið annan aðila að byggja upp samband með. Hver einstaklingur á að meðaltali þrjú sambönd í lífinu, sumir með einum aðila og aðrir með mörgum.“

Hver við erum

„Þeim mun minni sem við upplifum okkur í veröldinni, þeim mun meira þurfum við að vera fyrir maka okkar. Þar sem maki okkar getur aldrei verið okkur allt í þessu lífi er mikilvægt að við finnum jafnvægi í lífinu, finnum okkar stað og tilgang.“

Þegar ástin deyr

„Ástin deyr aldrei af sjálfu sér. Hún deyr af því við ákveðum að setja ekki ást í samböndin okkar, þegar við hættum að rækta okkur sjálf og maka okkar. Hvort sem það er meðvitað eða ekki þá drepum við ástina sjálf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál