„Hún hélt mér fast í sínu eigin helvíti“

Fólk lendir í ofbeldi óháð kyni, stétt eða stöðu. Andlegt …
Fólk lendir í ofbeldi óháð kyni, stétt eða stöðu. Andlegt ofbeldi er algengt í dag þegar fólk telur sig eiga maka sinn eða eiga rétt á að stjórna hvað hann gerir eða segir. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr karlmaður sem er að koma úr sambandi þar sem andlegt og líkamlegt ofbeldi var til staðar hvað hann þurfi að skoða hjá sér?  

Komdu sæl.

Ég er karlmaður á fertugsaldri og er nýskilinn eftir 7 ára samband. Í þessu sambandi varð ég fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi sem ég skammaðist mín of mikið fyrir, til að segja mörgum frá. Þegar ég vildi slíta sambandinu þá notaði hún börnin á mig, hótaði mér með þeim, að ég fengi ekki að sjá þau aftur og hún myndi fara í mál við mig um börnin sem gæti tekið mörg ár að vinna úr. Ég náði að losna í haust og við skildum í góðu með jafna skiptingu á umgengni og sameiginlega forsjá barna okkar. Núna vill hún breyta þessu og hefur skrifað bréf til sýslumanns með alvarlegum upplognum sökum á mig. Ég er með góðan lögfræðing og hef engar áhyggjur af þessu máli hennar. En það sem ég vil vita er það, hvað segir það um mig að ég hafi verið með svona manneskju? Við erum að tala um mörg ár og barneignir. Hún laug að mér, barði mig, hótaði mér, gerði mig kvíðinn, þunglyndan og óttasleginn. Hún hélt mér fast í sínu eigin helvíti. Hvað segir það um mig? Er ekki eitthvað að mér?

Sæll.

Takk fyrir að senda á mig þennan póst. Ég óska engum þess sem þú hefur gengið í gegnum, en þú ert ekki einn. Andlegt og líkamlegt ofbeldi á aldrei rétt á sér. Það eru fleiri með svipaða sögu og hafa einmitt velt því fyrir sér: hvernig gat ég endað á þessum stað? Hvers vegna var þessi aðili að tala inn í kerfið mitt í upphafi? Hver er minn hlutur? Hvað get ég gert til að lenda ekki í svona aftur?

Ég er á þeirri skoðun að hvort heldur sem þú ert karl eða kona, þá upplifir þú ofbeldi á svipaðan hátt frá maka þínum. Það er ekki eitthvað sem heitir kvenlæg upplifun á ofbeldi eða karllæg. Ég er þar sammála Simone de Beauvoir sem sagði að með því að flokka fólk eftir kyni eða öðrum breytum, þá erum við að að hlutgera fólk og þannig að alhæfa um það, setja það niður eða upphefja. Ég er einnig sammála Marianne Williamson sem segir að þegar einhver sýnir ofbeldi er hann að sýna hegðun sem vantar ást, oft ómeðvitað og þá er aðilinn langt frá tilgangi sínum eða þeim stað þar sem honum er ætlað að vera til að vaxa sem einstaklingur.

Fólk upplifir ofbeldi og verður fyrir ofbeldi, stundum daglega. Ég vil hvetja þig til að fara af stað í þessa vinnu að skoða hlutina út frá mynstri, hvernig svona mál þróast, meðvirkni, mörkum og markaleysi. Hvernig þú getur verndað þig í framtíðinni. Hvernig þú getur færst nær þínum tilgangi í lífinu, í burtu frá öllum samskiptum þar sem skortir raunverulega ást.

Það er erfitt fyrir mig að svara spurningunni þinni hér að ofan miðað við þær forsendur sem þú gefur mér. Er hún alkóhólisti? Þá værir þú væntanlega búinn að þróa með þér ákveðið mynstur sem þú þarft aðstoð með að lagfæra. 

Ég sé mjög sjaldan samskipti eins og þú lýsir hér að ofan á milli fólks þar sem annar aðilinn er fullkominn og hinn fullkomlega vondur. Ég held að eina leiðin fyrir þig að komast sterkari út úr þessu sambandi sé einmitt að skoða hlutina út frá mynstrinu sem var á milli ykkar.

Ég er á þeirri skoðun að andlegt ofbeldi sé allt of algengt í samböndum í dag. Fólk á ekki hvort annað þó að það byrji saman eða gifti sig. Heilbrigð mörk, eðlilegt andrými til að þroskast sem persóna og stöðugir samningar um áframhald eru sem dæmi atriði sem mér finnst að fólk ætti að skoða aftur og aftur í samböndum. Eins er mikilvægt að byrja á réttum enda. Kynnast fólki vel áður en maður fer á næsta stig með því. Það er undantekning en ekki reglan í samfélaginu í dag að fólk taki sér góðan tíma til að kynnast.

Það sem ég hef tekið eftir er að þeir sem ástunda ofbeldi í samböndum, eru oft og tíðum að taka með sér gömul samskiptamynstur sem þeir hafa ekki vitneskju um að séu óheilbrigð. Það er engin afsökun, en ágæt útskýring. Ég held að fæst okkar fæðumst vond.

Það sem mér finnst einkenna fólk sem er stjórnsamt og beitir aðra ofbeldi til að ná sínu fram er ótti. Þeir óttast raunverulega að vera einir og kunna stundum ekki betri leiðir til að tjá það en með hótunum um að taka það allra verðmætasta úr lífi þess sem þeir óttast að missa. Hvað óttast konan þín fyrrverandi við að vera ein? Varst þú að taka ábyrgð á einhverju hjá henni sem hún var ekki tilbúin að taka ábyrgð á sjálf?

Veröldin sér vanalega um að umbuna eða refsa okkur fyrir hvernig við komum fram við aðra. Það sorglegasta við skilnaði á borð við þinn er að þeir bitna vanalega mest á börnunum. Alvarlegar ásakanir gagnvart börnum þarf alltaf að skoða, og ef þær eru lognar upp á þig, þá munu þessar ásakanir segja meira um hana en þig.

Það er gott að vera með góðan lögfræðing en hann verður aldrei sáluhjálpari þinn í þessum aðstæðum. Ég óska þér alls hins besta við að takast á við það sem koma skal. Þú gætir ekki gefið börnunum þínum stærri gjöf en að kenna þeim að koma sér út úr óheilbrigðum aðstæðum og verða sterkari fyrir vikið. Finndu kærleiksríka leið til að bregðast ekki við öllu sem að þér er beint. Sannleikurinn kemur alltaf í ljós. En í þessu máli þarftu að vera duglegur að segja sannleikann eins og hann snýr að þér, að tala og tjá þig út frá eigin sannfæringu án þess að ráðast á persónuna sem er að deila við þig. Reyndu að tengjast börnunum sem mest og að blanda þeim sem minnst í málið að svo stöddu. Þau hafa rétt á að vera börn og upplifa lífið með sem minnstu röskun þó þið deilið.

Þú átt rétt á að stjórna þínu lífi og vera ekki lengur í ofbeldissambandi áfram. Sambönd eru mjög mikið spari. Það er fullt af hæfum ráðgjöfum sem geta leiðbeint þér fram á veginn, að reka augun í mynstur sem í upphafi sambanda virka voðalega saklaus og góð, en eru skýr skilaboð um að manneskjan er meðvirk, stjórnsöm eða vanmáttug þegar kemur að  heilbrigðum samskiptum.

Ég mæli með að fara í gegnum tímabil eins og þú ert að fara í gegnum allsgáður, hugsaðu um hvar þú ætlar að fá útrás og hvernig þú munt næra þig andlega og líkamlega á þessum tíma. Borðaðu hollan og góðan mat og ástundaðu fallega hluti sem munu byggja þig upp aftur sem persónu.

Gangi þér ævinlega vel og megi ljós og kærleikur fylgja þér og fjölskyldu þinni um ókomna tíð. 

Kær kveðja, Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

El­ín­rós Lín­dal er NLP-ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi með grunn­próf í sál­fræði …
El­ín­rós Lín­dal er NLP-ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi með grunn­próf í sál­fræði og fjöl­miðla­fræði. MBA frá Há­skól­an­um í Reykja­vík. Hún sér­hæf­ir sig í meðvirkni og fíkni­sjúk­dóm­um. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál