Íslensk kona stal fjórum milljónum frá vini

Íslensk kona lánaði vinkonu sinni fjórar milljónir en hefur ekki …
Íslensk kona lánaði vinkonu sinni fjórar milljónir en hefur ekki fengið greitt. mbl.is/Thinkstock

Íslensk kona leitar ráða hjá Heiðrúnu Björk Gísladóttur lögmanni. Konan lánaði vinkonu sinni fjórar milljónir og vinkonan neitar að borga til baka. 

Sæl Heiðrún,

Ég er í miklu veseni. Þannig er mál með vexti að ég lánaði vinkonu minni fjórar milljónir í mjög góðri trú um að hún myndi borga mér til baka eftir mánaðamótin. Hún var í fjárhagserfiðleikum og taldi mér trú um að þetta væri bara spurning um nokkrar vikur, svo fengi ég peningana til baka. Ég millifærði ekki inn á hana heldur tók peningana út af sparireikningi mínum í bankanum. Síðan þetta gerðist hef ég ítrekað reynt að fá hana til að borga mér til baka en án árangurs. Hún er einfaldlega hætt að tala við mig. Hvað get ég gert í þessu annað en að senda á hana handrukkara?

Kveðja, GH

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sæl GH,

Það er leiðinlegt að heyra þetta enda umtalsverð fjárhæð sem þú lánaðir vinkonu þinni.

Almennt gildir sú regla að munnlegir samningar, í þessu tilviki lánsloforð, eru jafngildir og skriflegir samningar. Vinkona þín er þar af leiðandi skuldbundin til þess að endurgreiða þér lánið. Ef hún neitar að greiða þér til baka skaltu láta reyna á innheimtuaðgerðir og jafnvel þarftu í kjölfarið að stefna henni fyrir dóm til greiðslu skuldarinnar. Farir þú þessa leið gætirðu hins vegar lent í erfiðleikum með að sanna lánveitinguna. Ég skil þig þannig að engir skriflegir pappírar liggi fyrir og að greiðslan til hennar sé ekki rekjanleg, þar sem þú tókst peningana sjálf út og lést hana hafa. Að sama skapi settirðu engar tryggingar fyrir endurgreiðslunni, svo sem veð. Það er því ekkert, sem beinlínis sannar að um lán hafi verið að ræða, ef að hún heldur hinu gagnstæða fram. Auðvitað er erfitt að fullyrða um það en af lýsingu þinni að dæma og þeirri staðreynd að vinkona þín er hætt að svara þér, gætirðu þurft að horfast í augu við það að um glatað fé sé að ræða. Því miður.

Ef þig grunar að það hafi verið ætlun vinkonu þinnar frá upphafi að greiða ekki fjármunina til baka og að mögulega hafi það verið sviksamlegt af henni að telja þér trú um að greiða peningana til sín hefur vinkona þín gerst sek um hegningarlagabrot, nánar tiltekið fjársvik. Sé það raunin ráðlegg ég þér hreinlega að kæra hana til lögreglu. Þetta gæti verið langsóttur möguleiki enda myndi ég halda að sönnunarstaðan sé erfið. Að sama skapi er ólíklegt að þú fáir peningana til baka með þessari leið en vinkonu þinni gæti þó verið dæmd refsing.

Vonandi sér þó vinkona þín að sér og greiðir þér til baka. Gangi þér vel.

Kveðja, 

Heiðrún Björk Gísladóttir

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu Björk spurningu HÉR. 

mbl.is