10 Lífsreglur Ralph Lauren

Ralph Lauren er mikill hugsjónamaður. Hann lítur ekki á sig …
Ralph Lauren er mikill hugsjónamaður. Hann lítur ekki á sig sem fatahönnuð heldur sem lífsstílshönnuð. AFP

Ralph Lauren er þekktur út um allan heim sem einn fremsti tískuhönnuður veraldar. Hann byggði upp stórveldi sitt úr engu á sjöunda áratug síðustu aldar og hefur allar götur síðan lagt sitt á vogaskálarnar til að gera heiminn aðeins betri. 

Lauren er sonur rússneskra innflytjenda og átti frekar látlausa ævi framan af. Hann deildi herbergi með öðru systkin sínu framan af en er sagður hafa dreymt stórt frá unga aldri.

Hér verða skoðaðar lífsreglur manns sem vann sig úr engu í að vera einn áhrifamesti viðskiptamaður sögunnar. Verðmæti hans eru metin á yfir 832 milljarða íslenskra króna. Það sem margir eru sammála um er að hann sé mun meira en tískuhönnuður. Hann sé í raun fyrirmynd fyrir alla þá sem vilja hanna líf sitt upp á nýtt.

Lífsreglur hans eru:

Hver er sinnar gæfusmiður

„Hver og einn er sinnar eigin gæfusmiður. Ég veit að margir álitu mig fábrotinn gyðingadreng úr Bronx og ég skil vel að fólk velti fyrir sér hvernig mér tókst að byggja upp stórveldið mitt úr engu. Að mínu mati þarf ekki peninga til að byggja upp stórveldi. Það eina sem maður þarf er að dreyma stórt. Mig dreymdi stórt.“

Um vinnuna

„Ég lít ekki á mig sem tískuhönnuð. Ég vinn líkt og ég sé að starfa í kvikmyndum, þar sem ég hanna veröld að lifa í. Ég er með ákveðna sýn þegar kemur að lífstíl. Þessi sýn er allt það sem ég elska  og hef trú á. Eitt af því sem ég hef alltaf elskað eru tímalausir hlutir sem verða betri með árunum.

Ég hef tileinkað mér vinnusemi alla mína ævi og ég hef trú á því að það skili sér alltaf tilbaka.“

Um bakgrunninn

„Faðir minn var listamaður. Þegar líf hans var erfitt og hann fékk ekki vinnu, þá vann hann við að mála hús en hann gerði það á listrænan hátt. Þegar ég fór til hans í vinnuna þá fann ég alltaf fyrir þessari listrænu nálgun hans. Þar sem hann bar virðingu fyrir sér og vinnunni sinni, þá fékk ég í mig þessa hugsun um að ég væri sérstakur líka. Ég veit ekki hvað það var en þetta var smitandi. 

Að sama skapi þá fann ég alltaf fyrir því að faðir minn og bræður hefðu stíl. Það hvernig þeir gengu um göturnar og leyfðu mér að finna fyrir því að ég skipti þá máli er stíll að mínu mati. Það hefur ekkert með það að gera hvernig þeir klæddu sig. Stíll er hvernig við komum fram við annað fólk.“

Um tískuna

„Það er mun auðveldara að fylgja tískunni en að búa til sinn eigin stíl. Tíska er það sem þú kaupir út í verslun og stíll er það sem þú gerir við það sem þú kaupir.

Persónulegur stíll býr innra með okkur og hefur í raun og veru ekkert með fatnað að gera. Heldur byggir persónulegur stíll meira á hugsjónum okkar og skoðunum. Hvernig við setjum það sem býr innra með okkur yfir í fatnaðinn okkar. Það þarf ekki að vera flókið. Bara það að bretta upp ermarnar á skyrtunni getur komið til skila ýmislegu um persónuleika okkar.“

Um sjálfsvirðinguna

„Ég hef aldrei sett þá pressu á mig að verða bestur í einhverju. Það eina sem ég hef unnið markvisst að allaf er að vera besta útgáfan af mér. Sama hver hún er. Í fyrstu vissi ég ekkert hvað bjó innra með mér. Var það tískuhönnuður? Eða eitthvað allt annað? Ég var ekki viss. Ég hélt bara áfram að vera ég.“

Um fjölskylduna

„Ég hef alltaf átt mjög gott líf. Ég var gott barn sem átti góða vini. Ég lék mér í bakgarði skólans. Ég átti góða foreldra, sem voru góðir við mig. Þeir elskuðu mig og ég elskaði þau. Þau voru alltaf til staðar fyrir mig.

Ég hitti eiginkonu mína áður en ég varð þekktur fyrir Ralph Lauren. Ég hef trú á því að það að vera sannur herramaður fari aldrei úr tísku. Ég hef trú á því að maður eigi að elska fjölskylduna sína og reyna að vera sterkur. Alltaf, sama hvað gerist og ýmislegt gerist. Því get ég lofað. En eiginkona mín veitir mér andgift. Útlit hennar og náttúrufegurð hefur alltaf gert það fyriri mig.“

Um innsæið

„Þegar ég fór af stað með Ralph Lauren fór ég eftir innsæinu mínu. Það bjó innra með mér að stofna tískuhús. Fyrst þegar ég fór til yfirmanns míns með hugmyndir mínar um að búa til nýja línu af herrabindum, þá sagði hann mér að þetta væri svo nýtt að heimurinn væri örugglega ekki tilbúinn fyrir Ralph Lauren. Ég gleymi aldrei þessum orðum. Ég tók þeim sem hrósi.“

Um það að veikjast

„Ég hafði haft mikið suð í eyrunum og fór að heimsækja lækni. Það kom í ljós að ég var með krabbamein í höfðinu sem þeir töldu vera hægvaxandi. Seinna þegar ég fór í rannsókn kom annað í ljós. Ég var í miðri sýningu og leið eins og ég væri ósigrandi þegar ég fékk símtal frá lækninum um að koma strax. Ég fór frá því að vera ósigrandi í að verða pínulítill í mér. Það er eðlilegt og við sem veikjumst göngum öll í gegnum slíkt. En ég fór í uppskurð og þeir fjarlægðu meinið.

Vegna þessa hef ég lagt mitt á vogaskálarnar þegar kemur að því að aðstoða aðra með krabbamein. Brjóstakrabbamein sem dæmi er ekki bara sjúkdómur einnar konu. Heldur leggjast áhrifin á alla fjölskylduna. Eiginmanninn, börnin og foreldrana.“

Um það að vera leiðtogi

„Ég vildi alltaf leiða mínar eigin hugmyndir sjálfur þess vegna bjó ég til Ralph Lauren í upphafi. Ég átta mig á því að það er mikil ábyrgð fólgin í því að leiða sér í lagi þegar maður er með mikið af starfsfólki. Það sem ég geri er að ég lít á alla sem vinna fyrir mig sem fjölskylduna mína. Hver og einn er sérstakur og ég vil að þeir finni fyrir því.“

Um daginn í dag

„Hver einasti dagur að mínu mati gefur okkur tækifæri til að endurskapa okkur sjálf. Við getum öll skapað eitthvað úr engu, ég er sönnun þess. Það eina sem við þurfum að gera er að trúa á okkur sjálf og lifa síðan okkar eigin draum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál