Missti bílprófið og finnst ósanngjarnt

Íslenskur karl er ósáttur við að þurfa að taka bílprófið …
Íslenskur karl er ósáttur við að þurfa að taka bílprófið aftur eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum.

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hún spurð út í sviptingu á ökuleyfi og hvers vegna viðkomandi þarf að taka bílprófið aftur. 

Hæ,


ég var sviptur ökuleyfi í 2 ár með dómsátt. Ég hins vegar þarf að taka ökupróf að nýju með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði, en það var ekki minnst einu orði á það í dómsáttinni. Ég vil fá skírteini afhent án þessara kvaða. Ég tel því að verið sé að refsa mér tvisvar fyrir þetta brot mitt. Er þetta löglegt?

Kær kveðja, MS

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. mbl.is/Valgarður Gíslason



Sæll MS

Þetta finnst mér mjög áhugavert álitaefni hjá þér. Verð að játa að ég hef sjálf ekki hugsað þetta út frá þessu sjónarmiði áður.

Hafi menn verið sviptir ökuréttindum má með einföldun skipta aðstöðu þeirra að lokinni sviptingu í þrjá flokka. Ef sviptingin varir í eitt ár eða skemur öðlast menn sjálfkrafa ökuréttindi sín aftur að þeim tíma liðnum. Ef maður er sviptur í  lengri tíma en eitt ár þarf viðkomandi að standast ökupróf til þess að öðlast ökuréttindi á ný. Sé maður sviptur ökuréttindum til lengri tíma en þriggja ára þarf að sækja sérstaklega um endurveitingu ökuréttar til lögreglustjóra og er endurveitingin bundin ákveðnum skilyrðum.

Þú segist hafa tekið út sviptinguna sem varði í tvö ár. Þú fellur þá í þann hóp að þurfa að standast ökupróf til þess að öðlast ökuréttindi á ný. Þú spyrð hvort að þetta sé löglegt, svarið er já. Þessi tilhögun styðst við ákvæði umferðarlaga.

Þín spurning er að einhverju leyti réttarheimspekilegs eðlis og þar af leiðandi mjög áhugaverð. Getur það talist refsing að láta menn ekki aftur fá réttindi sem þeir hafa þegar öðlast en voru sviptir tímabundið? Í grunninn er ekki hægt að taka af mönnum réttindi sem þeir hafa þegar öðlast. Þú varst hins vegar sviptur þeim með dómi, eða sátt, og hafðir þar af leiðandi ekki réttindin lengur. Það sem flækir málið er það að sviptingin var bundin tímamörkum. Það má því alveg halda því fram að um leið og hið dæmda tímabil er á enda eigir þú þar af leiðandi sjálfkrafa að öðlast réttindin á ný. Annað geti talist frekari „refsing“. Það má hins vegar ekki missa sjónar á því að refsingin í þínu tilfelli felst í sviptingunni sjálfri. Ég hugsa að margir séu á því máli að eðlilegt sé að binda endurveitingu réttindanna skilyrðum í kjölfarið. Ég get þó ekki gefið einhlítt svar um þetta heldur er þetta efniviður í áhugaverða umræðu.

Í grunninn er það svo, eins og lögin eru núna, að það er löglegt að binda endurveitingu réttindanna þessum skilyrðum.

Kveðja, 

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál