Konan mín kyssir annan mann á munninn

Sannleikurinn býr innra með okkur. Þegar við getum tjáð hvernig …
Sannleikurinn býr innra með okkur. Þegar við getum tjáð hvernig okkur líður, sett mörk og verið kærleiksrík þá stöndum við með okkur, maka okkar og sambandinu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr íslenskur karlmaður hvort samskipti konu hans og vinnufélaga séu eðlileg. 

Gleðilegt ár

Það er smá atriði sem truflar mig.

Vinnufélagi og nágranni konu minnar og einnig mikill vinur okkar í fölskyldunni kemur oft í heimsókn í spjall. Hann sækir aðallega í konuna mína sem er líka mikil félagsvera. Þau vinna saman og ég veit að þau eru miklir félagar. Þau talast við á hverjum degi í vinnunni og hringja mikið í hvort annað (hef hlustað á símtöl þeirra og allt virkar eins og þau séu miklir félagar, eru með svipaðan húmor og spjalla mikið saman um dagleg vandamál). Og þau tala mikið saman fyrir utan vinnutíma og um helgar líka ... þetta hefur verið svona í mörg ár. 

Ég er ekki mikil félagsvera og hef lagt skilning í þetta allt fyrir konuna mína. Þar sem mér finnst að hún verði að fá tækifæri á því að hitta sína vini þegar hún getur, og hún á marga, en þeir eru allir konur.

Það er samt eitt sem truflar mig. Þegar það er einhver uppákoma t.d. í vinnunni þeirra og það er haft vín um hönd. Líka þegar kona hans og hann sjálfur eru að bjóða okkur hjónum í mat ásamt drykk eða við að bjóða þeim til okkar í mat og drykk, þá kemur það stundum fyrir, þegar þau tvö (konan mín og hann) eru að kveðja hvort annað þ.e. viðburðurinn er búinn, að þau gefa (að mér finnst) stundum skrýtið augnaráð hvort öðru, líkamar þeirra nálgast óþægilega mikið (finnst mér) og það er ekki bara koss á kinn/kinn í byrjun. Heldur fer það út í varir/varir í framhaldi (hef orðið vitni að þessu sirka fjórum sinnum á síðustu 10 árum).

Konan mín gerir þetta ekki við aðra menn og mér finnst þetta óþægilegt í dag og ég hef ekki séð vin okkar gera þetta við aðrar konur þegar fólk er að fara úr samkvæmi. Hvert er þitt álit á þessu, er þetta eðlilegt á milli vina? Er hægt að lesa sér til um kossa, hvað merkja þeir (kossar í samskiptum)?

Kveðja, XX 

Elínrós Líndal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi.
Elínrós Líndal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi. mbl.is/Eggert

Sæll kæri félagi og gleðilegt ár sömuleiðis. 

Mér þykir vænt um að fá bréf frá þér því mér finnst þú falleg manneskja sem er að reyna að vera skilningsríkur og góður maður. Mér finnst vanta fleiri aðila eins og þig í þessa veröld. Fólk sem gefur maka sínum svigrúm, traust og virðingu. 

Ég vona að þú haldir í þennan eiginleika svo lengi sem þú lifir. En staðan sem þú ert í núna er ekki eðlileg. Svarið mitt er mjög hreint og beint með það. Ástæðan fyrir því er sú að þér líður ekki vel með þessi samskipti. Það er nóg fyrir mig að vita það. Hvort það séu til bækur sem styðja mál mitt eða bækur um kossa. Það skiptir ekki máli. Þú skiptir máli og tilfinningar þínar eru gjöf til þín sem þú ættir alltaf að hlusta á og virða.

Ég hvet þig til að gera þrjá hluti. Prófaðu að mæta inn í hjónabandið og vera opnari með það hvernig þér líður. Þú þarft væntanlega að fara aðeins í ráðgjöf til að æfa þig í að tala um tilfinningar, mörk og markaleysi. Síðan myndi ég ráðleggja þér að gera samning við konuna þína. 

Að tjá sig

Góð leið til að tjá tilfinningar er að biðja um stund með maka þegar hentar báðum að tala um tilfinningar og segja: Þegar við hittum vini okkar þá finnst mér ánægjulegt að sjá hversu mikil félagsvera þú ert. Hversu opin og skemmtileg þú ert. Það er eitt af því sem er svo heillandi við þig. En mér finnst óþægilegt að sjá þig kyssa aðra menn á munninn. Er eitthvað sem þú ert tilbúin að gera í því?

Samningur

Það að þú stígir inn í sambandið betur og gerir samning við konuna þína um hvernig þið ætlið að koma fram við hvort annað er bara heilbrigt og eðlilegt. Við gerum samninga um allt í þessu lífi, nema ástina. Það er galið. Notaðu tilfinningar þínar og innsæi þegar þú gerir þessa samninga. Það er góð byrjun að vita hvað maður vill ekki eða finnst óþægilegt. Það eru sterk innri mörk sem þú ert að finna fyrir.

Ég get ekki sagt hvað konan þín er að hugsa eða gera. En ef þú kemst að einhverju sem þú áttir ekki von á, taktu þér þá tíma og hugsaðu málið hvað þú vilt gera. Ég ráðlegg ykkur að fara og vinna úr hlutunum með góðum ráðgjafa. Þú ættir hins vegar að byrja á því að fara til ráðgjafa sjálfur og læra aðeins um tilfinningar, þig og innsæið þitt. 

Þín vinna

Maki þinn er gjöf inn í líf þitt sama hvernig þú lítur á það. Það hvernig maki okkar kemur fram, hvað hann gerir eða gerir ekki getur ekki verið á okkar ábyrgð. Við höfum leyfi til að vera besta útgáfan af okkur, að vera aðili sem er eftirsóknavert að vera með í sambandi. Við þurfum öll þjálfun í að tala um tilfinningar okkar, segja hvernig okkur líður og við þurfum ekkert sérstakt leyfi til þess eða gögn til að styðja mál okkar. Gögnin er hvernig okkur líður. Eftir því sem við náum að vera meira viðstödd í sambandinu og tala fyrir okkar hönd, þeim mun meiri nánd og ást myndast í sambandinu.

Eins er þetta svigrúm sem þú ert að gefa maka þínum svo heilbrigt og fallegt. En skoðaðu mörkin þín. Hvernig var þetta þegar þú varst að alast upp? Fékkstu hrós fyrir að tjá þig? Voru skýr mörk og heiðarleiki ofarlega í huga hjá þeim sem ólu þig upp?

Ég veit að allir eru að gera sitt besta í þessu lífi. En foreldrar okkar eru ekki fullkomnir frekar en við. Sú vinna að vinna í okkur er verkefni sem við ættum aldrei að hætta að vinna að. Við notum meira framheilann, verðum yngri í anda og glaðari við að greiða úr tilfinningum. 

Gangi þér hjartanlega vel kæri vinur og ég vona svo sannarlega að þið hjónin náið að gera góðan samning ykkar á milli. Ég þori að lofa að þegar þú mætir maka þínum og segir honum hvaða áhrif þetta er að hafa á þig þá finnur hann meiri ást og kærleika frá þér. 

Innsæið mitt hefur aldrei svikið mig. Ég hef hins vegar nokkuð oft svikið það. Að mínu mati er innsæið mitt, mjög sérstakt, í raun staðurinn sem er bara fyrir mig. Það er minn innri kennari, mín tenging við hið æðra. Oftast hefur þetta ekkert með annað fólk að gera. Það er vanalega ég sem þarf að hlúa betur að mér, setja betri mörk eða tjá mig betur. 

Kærar kveðjur, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál